Aftökum í heiminum fjölgaði um rúm 50% í fyrra frá árinu á undan. Vitað er um 1.634 aftökur á síðasta ári, fleiri en nokkurt ár síðan 1989, að því er fram kemur í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Aftökum í heiminum fjölgaði um rúm 50% í fyrra frá árinu á undan. Vitað er um 1.634 aftökur á síðasta ári, fleiri en nokkurt ár síðan 1989, að því er fram kemur í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Flestar aftökurnar sem vitað er um áttu sér stað í Íran, Pakistan eða Sádi-Arabíu.

Tölur Amnesty International ná ekki til Kína, Víetnams og Hvíta-Rússlands því að stjórnvöld þar líta á aftökur sem ríkisleyndarmál. Samtökin telja að þúsundir manna hafi verið teknar af lífi í Kína.

Samanlagt fjölgaði aftökunum í öðrum löndum um 54% frá árinu 2014, þegar þær voru alls 1.061. Um 89% aftakanna áttu sér stað í Íran, Pakistan eða Sádi-Arabíu.

„Fjölgun aftaka á síðasta ári er mjög óhugnanleg,“ sagði framkvæmdastjóri Amnesty International, Salil Shetty. „Síðustu 25 árin hafa ekki jafnmargir verið teknir af lífi á einu ári um heim allan. Íran, Pakistan og Sádi-Arabía hafa tekið fleira fólk af lífi en áður, oft eftir mjög ósanngjörn réttarhöld. Þessari slátrun verður að ljúka.“

Stjórnvöld í Pakistan afnámu sex ára gamalt bann við dauðarefsingu eftir fjöldamorð í skóla sem uppreisnarmenn Talibana frömdu í desember 2014. Fyrst um sinn voru hengingar heimilaðar til að refsa hryðjuverkamönnum en síðar voru þær leyfðar vegna annars konar glæpa.