Ramon Fonseca, annar stofnenda Mossack Fonseca, kom fram í sjónvarpi í Panama í kjölfar upplýsingalekans en hann fór í leyfi fyrr á árinu vegna meintra tengsla fyrirtækisins við peningaþvættis- og mútuhneyksli í Brasilíu.
Ramon Fonseca, annar stofnenda Mossack Fonseca, kom fram í sjónvarpi í Panama í kjölfar upplýsingalekans en hann fór í leyfi fyrr á árinu vegna meintra tengsla fyrirtækisins við peningaþvættis- og mútuhneyksli í Brasilíu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lindsay Fortado Eftir að upplýsingar úr svokölluðum Panamaskjölum fóru að berast út hefur nafn lögfræðistofunnar Mossack Fonseca komist á allra varir, sem er það sem slíkur varðhundur friðhelginnar hefði síst af öllu óskað sér.

Þegar Stuart Gulliver, stjórnandi HSBC-bankans, var boðaður í skýrslutöku hjá þingnefnd á síðasta ári og spurður hvers vegna hann hefði á sínum tíma komið peningum fyrir á bankareikningi í Sviss, fóru spurningarnar fljótlega að snúa að lögfræðingunum frá Panama sem höfðu veitt honum ráðgjöf.

Margaret Hodge, þáverandi formaður nefndar um ríkisreikninga, spurði þá hvort Gulliver hefði vitað að Mossack Fonseca væri þekkt fyrir að annast stofnun skúffufyrirtækja. Hodge lýsti lögfræðistofunni í framhaldinu sem fyrirtæki sem hefði suma „andstyggilegustu óþverra heims sem viðskiptavini“.

Skýrslutakan beindi stundarkorn sjaldgæfu kastljósi að einni laumulegustu lögfræðistofu heims. En eftir að meira en 11,5 milljón skjölum Mossack Fonseca var nýlega lekið hefur stofan og starfsemi hennar orðið að fyrirsagnarefni fjölmiðla.

Milljarðar dala renna í gegn

„Panamaskjölin“ sýna hvernig Mossack Fonseca hefur um nærri 40 ára skeið haldið utan um vef aflandsreikninga, svo að milljarða dala viðskipti streymdu þar í gegn.

Samkvæmt samtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ, sem leitt hafa umfjöllun fjölmiðla um lekagögnin, hefur viðskiptavinalisti Mossack Fonseca að geyma sumt af ríkasta fólki heims, allt frá einstaklingum í innsta hring Vladimírs Pútíns yfir til Petro Poroshenko, forseta Úkraínu, og forsætisráðherra Íslands.

Eins og með önnur fyrirtæki sem sérhæfa sig í aflandsviðskiptum er lykilspurningin hvort viðskiptavinirnir eru einvörðungu að verja friðhelgi eigin einkalífs og reyna að lágmarka skattgreiðslur, eða hvort leyndin gerir þeim kleift að gera vafasamari hluti, eins og að svíkja undan skatti og jafnvel stunda peningaþvætti.

Með yfir 500 starfsmenn

Í yfirlýsingu sem send var til ICIJ sagði Mossack Fonseca að í allri ráðgjöf við viðskiptavini um stofnun félaga sé farið bæði eftir „texta og anda laga“.

„Af þessari ástæðu höfum við eftir 40 ára starfsemi ekki svo mikið sem einu sinni verið kærð fyrir glæpsamlegt athæfi,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Ásamt þekktari fyrirtækjum á borð við Maples and Calder, Appleby og Mourant Ozannes er Mossack Fonseca ein stærsta lögfræðistofan á sviði aflandsviðskipta, með yfir 500 starfsmenn.

Af þeim fyrirækjum sem birtast í skjölum Mossack Fonseca var helmingurinn, eða meira en 113.000, stofnaður á Bresku Jómfrúaeyjum, sem eru þekkt skattaskjól. Heimahöfn fyrirtækisins, Panama, hefur verið tilgreint af OECD sem það landsvæði sem er með minnstar varnir gegn peningaþvætti.

Í þingyfirheyrslunni sagði Gulliver að ástæða þess að hann hefði stofnað félag á Panama í gegnum Mossack Fonseca hefði „eingöngu verið vegna friðhelgi“.

„Það skapaði hvorki skattalegan ávinning né fjárhagslegan ávinning að nokkur leyti,“ sagði hann.

Rithöfundur og ráðgjafi forseta

Mossack Fonseca var stofnað árið 1986 af Þjóðverjanum Jürgen Mossack og Panamamanninum Ramón Fonseca þegar þeir sameinuðu tvær litlar lögfræðistofur sem þeir ráku í Mið-Ameríkuríkinu.

Fonseca er líka skáldsagnahöfundur sem hefur sent frá sér verk á borð við Dans fiðrildanna , spennusögu sem fjallar um „náin tengsl valda og siðgæðis“, að því er segir í kynningarefni um bókina. Hann hefur jafnframt verið einn af helstu ráðgjöfum forseta Panama.

Snemma í mars tilkynnti Fonseca að hann hygðist taka sér frí frá störfum vegna peningaþvættis- og mútuhneykslis sem tengist útibúi lögfræðistofunnar í Brasilíu og ríkisolíufyrirtækinu þar í landi, Petrobras.

Þó höfuðstöðvarnar séu í Panama, þá er lögfræðifyrirtækið líka með skrifstofur í Karíbahafinu, Sviss, Gíbraltar, víðsvegar um Mið- og Suður-Ameríku, Kína, Mön, Jersey, Lúxemborg, Möltu, Samóa og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, auk fleiri staða, að því er fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins. Sérhæfing þess nær meðal annars til ráðgjafar um hentug skráningarumdæmi fyrir lystisnekkjur og önnur sjóför og um stofnun fyrirtækja á fríverslunarsvæðum.

Ekki í deiglunni í fyrsta sinn

Þrátt fyrir að hafa ekki látið mikið á sér bera hefur aðkoma Mossack Fonseca að stofnun skúffufyrirtækja endrum og sinnum verið í deiglunni.

Þegar milljarðamæringurinn og vogunarsjóðsstjórinn Paul Singer var að reyna að innheimta 1,7 milljarða dala skuld vegna ógreiddra argentínskra ríkisskuldabréfa árið 2014, fylgdi hann slóð allt til Las Vegas í leit að földum eignum.

NML Capital, fyrirtæki Singers, hafði grunsemdir um að 123 fyrirtæki í Nevada hefðu verið notuð til að þvo 65 milljóna dala virði af argentínskum fjármunum og fór fram á það við alríkisdómstól að fyrirtækin yrðu skikkuð til að deila tilteknum upplýsingum, að því er segir í dómsskjölum. Dómarinn féllst á beiðnina.

„Enginn vafi leikur á því að fyrirtækin 123 eru skúffufyrirtæki,“ úrskurðaði dómarinn. „Að sama skapi er enginn vafi á að skúffufyrirtæki eru ítrekað notuð til að fremja fjársvik.“

Sameiginlegur þráður lá í gegnum öll skúffufyrirtækin: einn þjónustuaðili hélt utan um heimilisfestaskrána, MF Corporate Services með heimilisfang á Seychelles-eyjum. Með sama heimilisfang og Mossack Fonseca.