[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Fréttaskýring

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt að skráðum eigendum íbúða á Vatnsstíg 15, 19 og 21 í Reykjavík sé óheimilt að reka gististað í séreignunum samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald án samþykkis allra félagsmanna í húsfélaginu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að stefndu séu hjón og eiga þau þrjár íbúðir á áðurnefndum stöðum. Hófu þau vorin 2011, 2012 og 2015 að leigja íbúðir sínar út til ferðamanna, en ágreiningur í málinu laut að því hvort í starfsemi þeirra hjóna fælist breyting á hagnýtingu séreignar sem afla þyrfti samþykkis annarra eigenda fjöleignarhússins fyrir.

Beindi annar eigandi íbúðanna árið 2012 erindi til kærunefndar húsamála vegna útleigu íbúðarinnar á Vatnsstíg 21. Í áliti nefndarinnar er því lýst að tilvik þetta útheimti „ekki samþykki meðeigenda“. Var nefndin því þeirrar skoðunar að viðkomandi væri heimilt að leigja út íbúð sína án samþykkis annarra.

Hefur áhrif á aðra íbúa

Húsfélagið telur óumdeilt að rekin sé atvinnustarfsemi í séreignarhlutunum þremur sem eru í eigu hjónanna. „Um sé að ræða skipulega útleigu á íbúðum til ferðamanna til skamms tíma, að lágmarki þrjár nætur, með þrifum, handklæðum og líni. Starfsemin fari fram allan ársins hring, sé sjálfstæð, reglubundin og í nokkru umfangi og rekin í þeim tilgangi að skila hagnaði,“ segir í dóminum. Segir þar einnig að séreignarhlutarnir í fasteignum húsfélagsins séu ætlaðir til íbúðar en ekki atvinnurekstrar. „Með því að hefja atvinnurekstur í umræddum þremur séreignarhlutum hafi [hjónin] breytt hagnýtingu séreignarhlutanna frá því sem var, samþykkt er og gert var ráð fyrir í upphafi.“

Telur því húsfélagið að á grundvelli laga um fjöleignarhús sem og á grundvelli samþykkta húsfélagsins og húsreglna beri hjónunum að afla samþykkis húsfélagsins fyrir hinni breyttu hagnýtingu séreignarhlutanna. „Sömu niðurstöðu leiði af meginreglum nábýlisréttar enda hafi hin breytta hagnýting eignanna margs konar og veruleg áhrif á aðra íbúa fasteignanna,“ segir í dómi.

Mjög truflandi starfsemi

Af gögnum málsins og skýrslum vitna fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð kom meðal annars fram að sú starfsemi sem hjónin reka í íbúðum sínum hefur truflað aðra íbúa hússins á margan hátt.

Er í dóminum vitnað í eiganda íbúðar á 2. hæð á Vatnsstíg 19, en ein íbúðanna þriggja sem um ræðir er á næstu hæð fyrir ofan íbúð hans og önnur í næsta stigagangi, á Vatnsstíg 21. Lýsti vitnið því fyrir dóminum að hún teldi íbúð sína „því sem næst óíbúðarhæfa“ vegna truflunar.

Einna mest er ónæðið sagt vegna íbúðar á þriðju hæð á Vatnsstíg 19. „Sú íbúð sé auglýst fyrir 10 manna hópa og fylgi gestakomum mikill umgangur, jafnt að nóttu sem degi. Mikið sé um að haldin séu samkvæmi í íbúðinni, enda sé hún auglýst sem „partííbúð“,“ segir í dómi, en íbúðin er auglýst sem tilvalin fyrir „dinner parties“. Hafa þar meðal annars verið haldin „agressív partí“ og algengt að stórir hópar karlmanna taki hana á leigu til skemmtanahalds með tilheyrandi hávaða og ónæði.

Breyting á eðli sambýlis

Dómurinn telur ótvírætt að sú starfsemi sem hjónin reka í íbúðum sínum í fjöleignarhúsinu hafi haft í för með sér aukinn umgang fólks að nóttu sem degi, þar sem gestir koma og fara, auk þess sem skemmtanahald er þar reglulega.

Með rekinni starfsemi hefur orðið „breyting á eðli sambýlis í húsinu, þar sem varanleg búseta hefur vikið fyrir skammtíma gististarfsemi. Er fallist á það með [húsfélaginu] að þessi tilhögun sé til þess fallin að valda íbúum óöryggi,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þá voru hjónin einnig dæmd til að greiða húsfélaginu málskostnað, sem nemur tæpum 2,2 milljónum króna.