Góður og ófyrirséður misskilningur hefur lengi verið eitt það skemmtilegasta sem ég veit um. Það er svo margt áhugavert við slíka stöðu. Hvernig varð misskilningurinn til, hvert er hið rétta og hvernig verður leyst úr vandamálinu?

Góður og ófyrirséður misskilningur hefur lengi verið eitt það skemmtilegasta sem ég veit um. Það er svo margt áhugavert við slíka stöðu. Hvernig varð misskilningurinn til, hvert er hið rétta og hvernig verður leyst úr vandamálinu?

Enginn getur með réttu orðið reiður vegna misskilnings. Hægt er að sakast við báða aðila eða hvorugan þeirra og þeir sem hafa örlítinn húmor fyrir sjálfum sér geta gengið hlæjandi frá borði þegar vandamálið er úr sögunni.

Skiljanlega hafa síðustu dagar því verið sannkölluð gósentíð fyrir fólk eins og mig.

„Við hrópuðum siðleysi á þingi en ekki Sigurður Ingi,“ lýsir einum góðum misskilningi ágætlega. Mótmælendur kröfuðst breytinga og fengu þær í formi hrókeringa. Framsóknarmaður úr landbúnaðarráðuneytinu kom í stað framsóknarmanns í forsætisráðuneytinu.

Fundur forsætisráðherra og forseta á Bessastöðum er annað dæmi. Þeirra á milli varð greinilega stórfelldur misskilningur og lagði mögulega grunninn að öðru framboði núverandi forseta. Þá átti skjalataska ríkisráðs sterka innkomu sem leynigestur og varð skyndilega lykilleikmaður í málinu. Hvað var í henni? Þingrofsskjöl? Nesti? Það veit enginn.

Þá virðast einhverjir misskilja reglur um hagsmunaskráningu þingmanna og einn stærsti misskilngurinn varðar afsögn eða tímabundið leyfi forsætisráðherra. Sá misskilningur er reyndar svo stór og skemmtilegur að stjórnmálin á litla Íslandi rötuðu í kaffikróksumræður og á forsíður fjölmiðla víða um heim.

Skemmtilegasti misskilningurinn kom þó líklega upp í gær. Þá var nefnilega greint frá meintum áhuga eiginkonu forsætisráðherra á geimferðum. Þennan misskilning má rekja alla leið til Bretlands, slúðurritsins Daily Mail og aukýfingsins Richards Branson. Maður gæti varla beðið um mikið meira. Eftir smá eftirgrennslan fylgdi eitt furðulegasta símtal blaðamannaferils undirritaðrar. Það var til forsetaritara sem var beðinn um samtal við forsetafrúna. Ritarinn sagði forsetahjónin eðlilega nokkuð upptekin og því gæti tekið nokkurn tíma að koma fyrirspurninni til skila. „En málið er áríðandi,“ svaraði undirrituð snögglega. „Nú, hvað er svona áríðandi?“ spyr ritarinn skiljanlega á móti. „Ég þarf að ræða við forsetafrúna um áhuga hennar á geimferðum.“ Þessu fylgdi eðlilega löng þögn en málið var að lokum leitt til lykta og upp komst um misskilninginn. Það er Dorrit sem hefur áhuga á geimferðum en ekki Anna Sigurlaug.

Atburðarás síðustu daga hefur komið sífellt á óvart og er helst farin að minna á góðan reyfara. Ljóst er að sögunni er ekki lokið en óljósara er hvort yfirbragðið muni teljast gamansamt eða sorglegt þegar á heildina er litið. Líklega verður þetta samsuða hvors tveggja. sunnasaem@mbl.is

Sunna Sæmundsdóttir

Höf.: Sunna Sæmundsdóttir