Laugardalsvöllur Knattspyrnusamband Íslands vill kaupa þjóðarleikvang inn.
Laugardalsvöllur Knattspyrnusamband Íslands vill kaupa þjóðarleikvang inn. — Morgunblaðið/Ómar
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur lýst yfir áhuga á að ganga til viðræðna við Reykjavíkurborg um hugsanleg kaup sambandsins á Laugardalsvelli og um uppbyggingu innan núverandi byggingarreits vallarins án fjárhagslegrar aðkomu borgarinnar.

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur lýst yfir áhuga á að ganga til viðræðna við Reykjavíkurborg um hugsanleg kaup sambandsins á Laugardalsvelli og um uppbyggingu innan núverandi byggingarreits vallarins án fjárhagslegrar aðkomu borgarinnar.

Þá hefur KSÍ óskað eftir formlegum viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíð Laugardalsvallar, en KSÍ hefur unnið að þróun hugmynda um uppbyggingu vallarins. Forhagkvæmnisathugun hefur leitt í ljós að grundvöllur er mögulega fyrir því að byggja upp fjölnota leikvang í Laugardal og aðstöðu þar í kring.

„Borgin er jákvæð að hrinda þessu af stað en lengra er það ekki komið,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Næstu skref eru að fara í formlega hagkvæmiskönnun á uppbyggingu vallarins. „Sú athugun yrði með aðkomu erlendra aðila sem hafa reynslu af uppbyggingu og rekstri slíkra mannvirkja,“ segir Geir. Starfshópur var skipaður um framtíð Laugardalsvallar þar sem helstu verkefni eru að fara yfir hugmyndir KSÍ með tilliti til gildandi aðal- og deiliskipulags, hvaða breytingar þyrfti að gera svo þær geti gengið eftir og hvaða mögulega byggingarmagni mætti koma fyrir innan núverandi girðingar vallarins. Einnig á hópurinn að setja fram hugmyndir að því hvernig meta megi fjárhagslegan ávinning beggja aðila af því að völlurinn og mögulegar byggingarheimildir færist á hendur KSÍ.

Starfshópurinn á að skila borgarstjóra tillögum fyrir 15. júní 2016.