Ingimar fæddist að Stekkjarflötum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 7.4. 1873. Foreldrar hans voru Jónatan Jónsson, bóndi að Skriðu, og k.h., Sigríður Jóhannesdóttir húsfreyja.

Ingimar fæddist að Stekkjarflötum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 7.4. 1873. Foreldrar hans voru Jónatan Jónsson, bóndi að Skriðu, og k.h., Sigríður Jóhannesdóttir húsfreyja.

Jónatan var sonur Jóns Benediktssonar, bónda í Hólakoti, en Sigríður var dóttir Jóhannesar, b. á Sámsstöðum Grímssonar, græðara á Espihóli í Eyjafirði Magnússonar. Móðir Jóhannesar var Sigurlaug, af Hvassafellsætt, systir Kristjáns á Halldórsstöðum, langafa Jóhanns Sigurjónssonar skálds. Sigurlaug var dóttir Jósefs, bónda í Ytra-Tjarnarkoti Tómassonar, bróður Jónasar í Hvassafelli, afa Jónasar Hallgrímssonar skálds. Móðir Sigurlaugar var Ingibjörg Hallgrímsdóttir, systir Gunnars, prests í Laufási, langafa Hannesar Hafsteins, skálds og ráðherra.

Eiginkona Ingimars var Guðfinna, dóttir Jóns Eiríkssonar, bónda á Víðastöðum í Hjaltastaðaþinghá, og k.h., Margrétar Sigurðardóttur.

Ingimar og Guðfinna eignuðust fimm börn. Þau voru Hörður, starfsmaður Mjólkursamlags KEA á Akureyri, faðir Ingimars Eydal, kennara og hljómsveitarstjóra, og Finns Eydal tónlistarmanns; Margrét Hlíf, skrifstofukona á Akureyri; Brynjar Víkingur, sápugerðarmaður á Akureyri; Þyrí Sigfríður, húsfreyja og píanókennari á Akureyri, og Gunnar Birgir, prentari í Reykjavík.

Ingimar lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvöllum 1895, stundaði nám við Lýðháskólann í Askov 1905-1906 og sótti kennaranámskeið.

Ingimar var kennari í Eyjafirði 1895-1904, kenndi við unglingaskóla að Grund í Eyjafirði 1906-1908, við Barnaskóla Akureyrar 1908-1939 og var skólastjóri þar um skeið.

Ingimar var bæjarfulltrúi á Akureyri 1917-1934 og forseti bæjarstjórnar hin síðari árin. Hann var ritstjóri Íslendings á Akureyri 1915-1917 og ritstjóri Dags 1918-1920 og 1927-1945.

Ingimar starfaði með Leikfélagi Akureyrar og lék lengi með félaginu, m.a. Torfa í Klofa í Lénharði fógeta, og Bergkonunginn í Kinnarhvolssystrum. Ingimar lést 28.12. 1959.