Baldur Arnarson baldura@mbl.is Löngum vinnudegi var að ljúka í fyrrakvöld þegar milligöngumaður erlendra fjölmiðla, þar með talið CNN, hafði samband.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Löngum vinnudegi var að ljúka í fyrrakvöld þegar milligöngumaður erlendra fjölmiðla, þar með talið CNN, hafði samband. Tilefnið var tilkynning úr herbúðum fráfarandi forsætisráðherra og leyndi sér ekki að merkingin hafði ekki komist til skila. Viðtakendur tilkynningarinnar töldu óvissu um hvort forsætisráðherrann væri að hætta. Á enskri útgáfu vefjar Stjórnarráðsins var ekki að finna slíka tilkynningu. Var hægt að treysta því sem tilteknir erlendir fjölmiðlar sögðust hafa fengið í tölvupósti frá Íslandi?

Þegar spurst var fyrir um efni yfirlýsingarinnar hjá innanbúðarmanni í Stjórnarráðinu fengust upplýsingar sem voru veittar í trúnaði varðandi raunverulegt inntak tilkynningarinnar og tilefni hennar. Hugsanlega munu þeir sem að tilkynningunni komu gera grein fyrir dýpri merkingu hennar síðar.

Það fyrirséða gerðist eftir að tilkynningin var send að óvissan varð að sjálfstæðu umfjöllunarefni. Það gerðist líka í kjölfar bréfsins sem sent var til ESB fyrir rúmu ári.

Það getur kostað tíma, fé og fyrirhöfn að leiðrétta misskilning. Á þessum óvissutímum er tilefni til að rifja upp stofnun upplýsingamiðstöðvar í Stjórnarráðinu í kjölfar hrunsins. Þá var kunnáttumönnum falið að koma skilaboðum á framfæri og svara spurningum. Ísland er sjaldan til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum. Það skiptir því máli að vel sé haldið á málum.