Birna Guðfinna Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 16. mars 1949. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Boðaþing 29. mars 2016.

Foreldrar hennar voru Magnús Þorsteinsson skipstjóri, fæddur í Reykjavík 1918, d. 2015, og eiginkona hans Helga Guðbjörnsdóttir húsmóðir í Reykjavík, f. 1923.

Bræður Birnu eru Guðbjörn, f 1944, Þorsteinn Helgi, f. 1946, Magnús Sigmundur, f. 1953, Gunnlaugur, f. 1957.

Birna giftist 18. maí 1968 Bjarna Jónssyni, byggingatæknifræðingi og múrarameistara, f. 15. janúar 1947. Þau skildu. Þeirra börn eru: 1) Helga Lára, f. 28.10. 1968, viðskiptafræðingur, eiginmaður hennar er Valgeir Egill Ómarsson. Börn: a) Dagný Hrund, f. 1991, b) Dagbjört Helga, f. 2000, d. 2000, c) Bjarni Freyr, f. 2001, c) Egill Orri, f. 2002. 2) Ingvar, f. 17.4. 1973, d 19.4. 1973. 3) Magnús múrari og slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, f. 5.4. 1974, sambýliskona Fanney Björnsdóttir. Dóttir Fanneyjar af fyrra sambandi er Viktoría Berg Henrýsdóttir, f 1996. Sonur Magnúsar og Fanneyjar er Björn Alex, f. 2003. 4) Linda Björk tölvunarfræðingur, f. 12.6. 1979, eiginmaður Gunnar Ingvi Þórisson. Börn þeirra eru: a) Iðunn María, f. 2004, b) Markús Ægir, f. 2007, c) Líney Margrét, f. 2009.

Birna bjó fyrstu árin á Skeggjagötu í Reykjavík. Hún gekk í Ísaksskóla og Austurbæjarskóla og síðan í Vogaskóla eftir að hún flutti með fjölskyldu sinni í Glaðheima í Reykjavík, og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Hún flutti árið 1971 í þrjú ár til Aarhus í Danmörku og vann þar í banka. Birna fór í Iðnskólann í Reykjavík og lauk námi í tækniteiknun. Hún stofnaði fyrirtæki með þáverandi eiginmanni sínum og vann þar um tíma við bókhalds- og skrifstofustörf. Seinna vann hún í afleysingum við bókhald og skrifstofustörf á ýmsum vinnustöðum. Birna keypti og rak bókabúðina Bókbæ í Glæsibæ, þar til rekstrinum var slitið. Birna fór í Menntaskólann í Kópavogi og útskrifaðist þaðan sem matráður. Hún vann sem matráður á ýmsum stöðum meðan heilsan leyfði. Birna flutti til Hveragerðis og bjó þar í nokkur ár þar til hún flutti á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Boðaþing.

Útför Birnu verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 7. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.

Birna var eina stelpan í fimm systkina hópi okkar í Norðurmýrinni í Reykjavík á sjötta áratug síðustu aldar. Við bjuggum sjö saman á miðhæðinni í húsi afa við Skeggjagötuna og lékum okkur með stórum krakkaskara úr nálægum húsum í hverfinu. Ég var yngri en Birna og naut oft forystu hennar á leiksvæðum í hverfinu og í því æskufjöri og bjartsýni sem var einkennandi fyrir tíðaranda eftirstríðsára og óvenjustóra fæðingarárganga hér á landi. Ég man sem strákpolli vel eftir stelpuafmæli Birnu þegar ein afmælisgjöfin var hljómplata og „sweet little sixteen“ hljómaði aftur og aftur í afmælinu. Birna var lagleg systir, glaðvær og vinsæl í vinahópi og breyttist það lítið þótt stóra fjölskyldan flyttist 1959 í Voga- og Heimahverfið sem þá var í hraðri uppbyggingu.

Sjöundi áratugur 20. aldar var fyrir unga fólkið tími bjartsýni og bítlaæðis með tækifærum til aukins frelsis að velja sér vettvang og markmið í lífinu og slíta sig laust frá hugsunarhætti foreldranna. Sumum stelpum lá þó svo á að hefja búskap að þær sniðgengu menntaveginn til að fara út á vinnumarkaðinn, verða óléttar og eignast börn löngu fyrir tvítugt. Tímabundið þjóðfélagsástand, sem betur fer, því stelpur tóku fáum árum síðar í auknum mæli að afla sér framhaldsmenntunar, nokkuð sem Birna fór ung á mis við.

Birna giftist ung Bjarna, árið 1968, og eignuðust þau Helgu Láru sama ár. Á tímabili dvöldu þau í Árósum í Danmörku og vann Birna utan heimilis meðfram húsmóðurstörfum meðan eiginmaðurinn nam tæknifræði og vann afrek í handbolta. Þrjú börn þeirra komust á legg, Magnús, 1974, og Linda Björk, 1979. Boltaíþróttir voru snar þáttur í fjölskyldunni en þegar árin liðu var það golfíþróttin sem yfirtók tómstundir fjölskyldunnar og fann Birna sig þar, henni leið vel úti á golfvellinum og framlengdi þá gleði gjarnan í golfskálanum að loknum ánægjulegum golfhring.

Fyrir rúmum áratug síðan skildi leiðir þeirra Birnu og Bjarna. Var það Birnu mikið áfall og tókst hún á við það með því að skapa sér nýjan tilverugrundvöll með starfsnámi og nýjum áskorunum. Golfið var aldrei langt undan sem óbrigðull gleðigjafi. Svo dundu ósköpin yfir. Fyrir hálfum áratug tók líf Birnu dularfulla dýfu í skugga illvígs heilasjúkdóms. Þessi sjúkdómur var mikil ráðgáta okkur öllum, móður, bræðrum og börnum Birnu, og öðrum sem stóðu henni nærri. Við urðum vitni að, nánast hjálparvana, þegar líkami hennar og sál gerðust leiksoppar þessarar ótuktar sem engin lækning fannst við og kallaðist „ataxia“. Hvernig sjúkdómurinn sem Birna glímdi við kom inn í líf hennar er erfitt að skilja. Lífið sjálft er mikil ráðgáta en gleymum ekki þeim gleðistundum og góðu minningum sem gera lífið einstakt og tengja okkur saman. Ég kveð kæra systur með þessum ljóðlínum:

Dauðinn er svart myrkur

en án þessa myrkurs

sæjum við hvorki stjörnur

né skynjuðum ókunnug höf

hvítra ljósa, þekktum ekki

fegurð endalausrar víðáttu.

(Matthías Johannessen.)

Magnús Sigmundur.

Kær saumaklúbbsvinkona er fallin frá, langt um aldur fram finnst okkur. Ellefu vorum við í klúbbnum flestar jafngamlar og flestar innan úr Hverfi. Þær fyrstu byrjuðu átta ára gamlar og svo bættust fleiri við þegar árin liðu; Birna og Sússa komu t.d. úr öðru hverfi þegar við vorum um tvítugt. Þetta var samrýmdur hópur sem hittist annan hvern fimmtudag yfir vetrarmánuðina. Makar okkar voru einnig hluti af hópnum og hittumst við oft fyrir utan saumaklúbbinn. Við erum öll miklir vinir og er ómetanlegt að eiga aðgang að svona hópi. Það var sárt að sjá hvernig veikindin fóru með Birnu síðustu árin og fundum við til með henni. Kom hún síðast í saumaklúbb í janúar síðastliðinn, vorum við þá allar mættar og er það ómetanleg minning. Við söknum vinkonu og þökkum fyrir allar samverustundirnar, vottum aðstandendum hennar samúð okkar. Hvíl í friði, elsku Birna.

Steingerður, Svanhvít,

Sigurborg, Súsanna, Soffía, Sonja, Sigdís, Hördís, María og Kristjana.