Sögulegt Ólafur Ragnar Grímsson forseti ræðir við blaðamenn á Bessastöðum eftir fundinn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.
Sögulegt Ólafur Ragnar Grímsson forseti ræðir við blaðamenn á Bessastöðum eftir fundinn með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. — Morgunblaðið/Eggert
FRÉTTASKÝRING Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Óhætt er að segja að atburðirnir á Bessastöðum á þriðjudaginn séu einstæðir í sögu íslenska lýðveldisins.

FRÉTTASKÝRING

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Óhætt er að segja að atburðirnir á Bessastöðum á þriðjudaginn séu einstæðir í sögu íslenska lýðveldisins. Engin dæmi eru þekkt um að forsætisráðherra óski eftir þingrofi með þeim hætti sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði. Enn síður hefur það áður gerst að forseti Íslands stígi fram þegar eftir fund með forsætisráðherra og greini fjölmiðlum frá efni fundarins og orðaskiptum sem áður hefur verið litið á sem algjört trúnaðarmál á milli þeirra, eins og Ólafur Ragnar Grímsson gerði.

Sú útreið sem forsætisráðherra fékk í málflutningi forsetans á fundi með blaðamönnum er líka einsdæmi í íslenskum stjórnmálum og þótt víðar væri leitað. Kallaði Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði, þetta „ískalda aftöku pólitísks fóstursonar“ í samtali við Morgunblaðið í gær.

Það sem virðist hafa reitt forseta Íslands til reiði og ráðið viðbrögðum hans var hvernig forsætisráðherra bar sig að við þingrofsbeiðnina á fundi þeirra. Hann óskaði eftir að fyrirhuguðum fundi þeirra um stjórnmálaástandið yrði flýtt og hafði í för með sér æðstu embættismenn forsætisráðuneytsins. Höfðu þeir með sér skjalatösku ríkisráðs og í henni var forsetabréf um þingrof sem forsætisráðherra ætlaðist til að forseti undirritaði á staðnum.

„Myndi ég rjúfa þing“

Nokkrum mínútum fyrir fundinn hafði forsætisráðherra skrifað eftirfarandi á Facebook-síðu sína: „Jafnframt fór ég yfir það með formanni Sjálfstæðisflokksins að ef þingmenn flokksins treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum okkar myndi ég rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.“

Ólafur Ragnar frétti af þessum skrifum og taldi með öllu óviðeigandi að hann væri settur upp við vegg í „aflraunum stjórnarflokkanna,“ eins og hann orðaði það. Þá væri það ekki í samræmi við stjórnskipanina að forsætisráðherra gæfi út slíka þingrofsyfirlýsingu einhliða.

Berorður á blaðamannafundi

Þegar Sigmundur Davíð viðurkenndi í samtalinu við Ólaf Ragnar á Bessastöðum að hann hefði ekki skýrt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, frá þingrofsbeiðninni í ríkisráðstöskunni „tilkynnti forseti að hann gæti ekki samþykkt hana og myndi eiga fund með formanni Sjálfstæðisflokksins,“ eins og orðrétt segir á vefsíðu forseta Íslands. Fundinum var þar með lokið og Sigmundur Davíð hélt á brott.

Eftir fundinn tók Ólafur Ragnar þá afar óvenjulegu ákvörðun að skýra blaðamönnum á staðnum frá efni fundarins og niðurstöðu í beinni útsendingu. Verður ekki sagt annað en að öll lýsing hans og orðfæri hafi verið niðursallandi og niðurlægjandi fyrir forsætisráðherra sem horfinn var á braut. Eftir ræðu forsetans mátti öllum vera ljóst að Sigmundur Davíð mundi ekki sitja öllu lengur á stóli forsætisráðherra.

Stuttu síðar birtist Bjarni Benediktsson á Bessastöðum og eftir fund með Ólafi Ragnari kvaðst hann hafa þakkað honum fyrir að hafa hafnað þingrofsbeiðninni. Sigmundur Davíð hefði ætlað að veifa forsetabréfinu framan í sig í viðræðum um framhald stjórnarsamstarfsins. Það væri óviðunandi.

„Pólitískur fóstursonur“

Það sem gerir málið allt enn sérstæðara er að fram að þessu hafa menn litið svo á að náið og gott samband væri á milli Ólafs Ragnars Grímssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Forsætisráðherra hefur jafnvel verið kallaður „pólitískur fóstursonur“ forsetans. Bent hefur verið á að þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð hafi forseti Íslands ákveðið að veita Sigmundi Davíð umboð til stjórnarmyndunar, en gengið framhjá Bjarna Benediktssyni, sem þó var formaður stærsta flokksins.

Réttlæti Ólafur Ragnar ákvörðun sína með þessum óvanalegu orðum í viðtali við Richard Quest, stjórnanda viðskiptafrétta hjá CNN, í maí 2013: „Ég valdi leiðtoga Framsóknarflokksins, en í kosningabaráttu sinni lagði hann mesta áherslu á að takast á við skuldir heimilanna og beita þá vogunarsjóði, eða hvað sem þeir kallast, þrýstingi svo þeir næðu ekki fram þeim gríðarlega hagnaði sem þeir hugðust ná fram á íslensku bankakreppunni. Það var mjög athyglisverður lýðræðislegur sigur og þess vegna veitti ég honum umboð til að leiða næstu ríkisstjórn.“

Til sanns vegar má færa að Ólafur Ragnar Grímsson forseti er enn ekki hættur að koma landsmönnum á óvart.