Auður Matthíasdóttir fæddist á Ísafirði 10. febrúar 1945. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 24. mars 2016.

Foreldrar Auðar voru Matthías Bjarnason, alþingismaður og ráðherra, f. 15. ágúst 1922 á Ísafirði, d. 28. febrúar 2014, og Kristín Ingimundardóttir, f. 4. maí 1924 í Tungugröf í Kirkjubólshreppi, d. 11. júní 2003.

Bróðir Auðar er Hinrik Matthíasson, f. 20. nóvember 1946. Kona hans var Sveinfríður Sigríður Jóhannesdóttir, f. 7. júní 1947 á Ísafirði, d. 5. mars 2008 í Reykjavík.

Auður giftist 1. október 1966 Veturliða Guðnasyni, f. 16. september 1946 á Ísafirði. Þau skildu.

Auður giftist 2. apríl 1976 Kristni Vilhelmssyni, f. 9. janúar 1946 í Reykjavík. Foreldrar Kristins voru Vilhelm Kristinsson deildarstjóri hjá Sjóvá, f. 4. júlí 1920 í Reykjavík, d. 4. nóvember 2010, og Ólína Guðbjörnsdóttir, f. 10. apríl 1922 að Syðra-Álandi í Þistilfirði, d. 29. september 1992.

Sonur Auðar og Kristins er Matthías Kristinsson, f. 11. mars 1978. Kona hans er Liv Anna Gunnell, f. 9. nóvember 1981. Börn þeirra eru Trostan, f. 25. nóvember 2006, Saga, f. 1. nóvember 2009, og Íssól, f. 20. apríl 2012.

Auður ólst upp á Ísafirði. Hún varð stúdent frá MA 1966 og flutti til Kölnar í Þýskalandi 1966 þar sem hún stundaði nám í þýsku og sálfræði við Kölnarháskóla en varð að hætta námi vegna veikinda.

Eftir Þýskalandsdvölina starfaði hún sem flugfreyja hjá Loftleiðum og síðar Air Viking og tók m.a. þátt í pílagrímaflugi. Starfaði jafnframt hjá Félagsmálastofnun sem félagsmálafulltrúi. Árið 1979 flutti hún ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur. Þar stundaði hún nám í félagsráðgjöf við Roskilde Universitetscenter (RUC) og lauk þar námi sem félagsráðgjafi vorið 1986. Starfaði í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn og síðar hjá WHO í Kaupmannahöfn.

Fjölskyldan flutti til Íslands 1987 og kom sér fyrir á Flötunum í Garðabæ. Auður starfaði hjá Borgarlæknisembættinu sem félagsráðgjafi alnæmissmitaðra og var einn af stofnendum Alnæmissamtakanna og fyrsti formaður þeirra. Seinna yfirfélagsráðgjafi hjá Félagsmálastofnun í Breiðholti. Hún starfaði um tíma hjá Náttúruvernd ríkisins, síðan sem félagsráðgjafi við Heyrnleysingjaskólann og Hlíðaskóla.

Auður var áhugasöm um náttúruvernd og dýravernd og mikill umhverfissinni. Hún sat í stjórn Kattavinafélagsins og fór á landvarðarnámskeið og útskrifaðist sem landvörður. Hún stundaði hestamennsku, ferðaðist mikið innanlands og var einn af stofnfélögum jeppadeildar Útivistar.

Útför Auðar fer fram frá Garðakirkju í dag, 7. apríl 2016, klukkan 13.

Í dag kveðjum við okkar elskulegu og kæru frænku Auði Matt. Það er þó svo stutt síðan í minningunni að hlátur hennar hljómaði dátt og bros hennar og glettni umvafði okkur börnin í Reykjarfirði og þessi hugljúfa gleði. Unga stúlkan Auður, spilandi á píanó í Hafnastrætinu, stúlkan hennar Stínu frænku. Við litum upp til okkar kæru Auðar og hún var alltaf tilbúin að taka þátt í leiknum. Seinna var það fullorðin kona sem heimsótti sveitina og okkur börnin þar. Hún hafði yndi af dýrum og þá var gaman að fara á hestbak og njóta dagsins. Góðar stundir fyrr og síðar gleymast ekki. Á seinni árum hafa samverustundir verið færri en hugurinn sá sami. Minningunni og kveðju gæti verið lýst með meðfylgjandi ljóði:

Tárin eru tregi minn

tálsýn minninganna

andi þinn er ástin mín

og allra ástvinanna.

Kæru Kristinn, Matthías, Liv Anna Gunnell og Trostan, Saga og Ísól, samúðarkveðjur til ykkar við fráfall ástkærrar eiginkonu, móður og ömmu, kæru Auðar. Megi minning hennar lifa.

Ragnheiður Hákonardóttir.

Við æskuvinkonurnar ólumst upp á Ísafirði í faðmi fjalla blárra, gengum þar saman í barna- og gagnfræðaskóla og nutum þess að alast upp í traustu umhverfi. Foreldrar okkar þekktust, sumir voru í bæjarpólitíkinni en létu ekki ólíkar stjórnmálaskoðanir hindra góð samskipti.

Æskuárin liðu hratt. Við vorum áhyggjulausar og ærslafullar.

Bernskubrekin voru af ýmsum toga m.a. var stofnað leynifélagið Svarta höndin sem ákvað að fara í vopnað stríð gegn öðru leynifélagi til varnar minnimáttar.

Auður átti hund sem hét Mikki. Stundum ók hún honum um bæinn í forláta dúkkuvagni sem við hinar öfunduðum hana svolítið af.

Hún eignaðist snemma myndavél, byrjaði strax að taka myndir og hafði næmt auga eins og fallegu fuglamyndirnar hennar sýna.

Heima hjá Auði var samkomustaðurinn og vorum við alltaf velkomnar. Hún átti segulbandstæki og plötuspilara sem var sérstakt í þá daga og fengum við líka að njóta þess. Auður var fyrst okkar til að taka bílpróf og á lognværum sumarkvöldum rúntuðum við um nágrennið á Í 147, bláa bílnum hans Matta Bjarna, hlustuðum á Elvis Presley og sungum með. Lífið var ljúft.

Gluggarnir á herbergi Auðar sneru út að aðalgötu bæjarins. Á þessum árum voru reykingar algengar. Sumum okkar þótti flott að reykja og byrjuðum við samviskusamlega að æfa okkur á unglingsárunum. Við höfðum mikið fyrir því að komast upp á lagið og finna út hvernig smartast væri að halda á sígarettunni. Eitt sinn vorum við í herberginu hjá Auði að reykja og blésum reyknum í hringjum út um gluggann í Ísafjarðarlogninu. Þá bankar mamma hennar skyndilega á hurðina. Á augabragði flugu sígaretturnar út af þriðju hæð beint niður á Hafnarstrætið.

En við vorum líka menningarlegar, fannst okkur, og lásum m.a. ljóð hver fyrir aðra. Steinn Steinarr, Tómas Guðmundsson og Davíð Stefánsson urðu oftast fyrir valinu.

Útivist var í hávegum höfð og farið í gönguferðir og útilegur. Minnisstæð er ferð í Harðarskálann á Seljalandsdal um páska. Skíðuðum í sól og blíðu á daginn. Á kvöldin lögðumst við í snjóinn, gerðum engla og störðum upp í stjörnubjartan himininn, en Auður þekkti allar helstu stjörnurnar.

Hún nam píanóleik hjá Ragnari H. Ragnar í TÍ og lék m.a. Nocturne Op. 9 no 2 eftir Chopin af mikilli innlifun.

Auður var ákveðin, fylgin sér og mjög pólitísk á þessum árum og fannst blátt vera fallegasti litur í heimi. Hún var vel lesin og fylgdist með þjóðfélagsmálum strax á barnsaldri. Auk þess að vera bæði dýra- og mannvinur var hún náttúruverndarsinni.

Þegar unglingsárunum lýkur halda vinir hver sína leið og sambandið rofnar um árabil. En þráðurinn var tekinn upp aftur og vináttan endurnýjuð. Sérstök vinátta þar sem allar þekktu bakgrunn hver annarrar. Umræðuefnin óþrjótandi. Sameiginlegar minningar.

Undanfarin ár höfum við haft þann sið að hittast helst einu sinni í mánuði yfir vetrartímann, spjalla um lífið og tilveruna og rifja upp gömlu góðu dagana á Ísafirði.

Kær vinkona hefur nú lokið lífsgöngu sinni eftir æðrulausa sjúkdómsbaráttu og er hennar sárt saknað.

Við sendum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Friðgerður, Auður B.,

Ásthildur, Jóna Margrét,

Snjólaug.