10 Hanna Stefáns skoraði tíu mörk.
10 Hanna Stefáns skoraði tíu mörk. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Deildarmeistarar Hauka mæta Fylki í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik og Grótta leikur gegn Selfossi.

Deildarmeistarar Hauka mæta Fylki í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik og Grótta leikur gegn Selfossi.

Þetta varð endanlega ljóst eftir lokaumferð Olís-deildarinnar í gærkvöld þegar Selfoss vann FH, 26:23, og tryggði sér sjöunda sætið. Fylkir vann ÍR, 27:21, en hafnaði í áttunda sæti.

Þessi lið mætast í 8-liða úrslitum:

Haukar – Fylkir

Grótta – Selfoss

Fram – ÍBV

Stjarnan – Valur

Vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit en liðin sem talin eru upp á undan eiga heimaleikjarétt ef til þess kemur.

ÍBV vann Fram tvívegis í vetur

Fram hafði betur gegn Val í gærkvöldi og viðureign Fram og ÍBV verður athyglisverð. Þjálfari ÍBV, Hrafnhildur Skúladóttir, var jú lengi leikmaður hjá Stefáni Arnarsyni, þjálfara Fram, bæði í landsliðinu á árum áður og nýlega hjá Val. Stefán sagði við mbl.is í gærkvöldi að ÍBV væri sigurstranglegra liðið.

„Mér líst mjög vel á það. Þær eru búnar að vinna okkur tvisvar í vetur þannig að það verður verðugt verkefni. Þær eru líklegri til að fara í undanúrslit, svo kemur bara í ljós hvað gerist,“ sagði Stefán.

Stjarnan fékk heimaleikjarétt

Bikarmeistarar Stjörnunnar höfnuðu í 4. sæti og tryggðu sér þar með heimaleikjarétt með öruggum útisigri, 31:23, á Akureyri í gær. Gamla kempan Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Stjörnuna í leiknum. Stjarnan mætir Val í 8-liða úrslitunum.

Deildirnar 2016-2017

Skipting kvennaliðanna í tvær deildir fyrir næsta tímabil er líka klár og var það reyndar fyrir lokaumferðirnar.

Í úrvalsdeild leika Haukar, Grótta, Fram, Stjarnan, Valur, ÍBV, Selfoss og Fylkir.

Í 1. deild leika HK, Fjölnir, KA/Þór, ÍR, Afturelding og FH, ásamt þeim liðum sem mögulega myndu bætast við í meistaraflokki.