David Cameron undirbýr nú þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu hinn 23. júní.
David Cameron undirbýr nú þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu hinn 23. júní. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Emily Cadman Kjósi Bretar að ganga úr Evrópusambandinu eru töluverðar líkur til þess að það leiði til hærra matvælaverðs í landinu, en landbúnaður fær um 40% af fjárlögum ESB.

Breskir neytendur gætu staðið frammi fyrir hærra verði á matvælum ef Bretland kýs að fara úr ESB. Þetta er niðurstaða tveggja af þremur líklegustu sviðsmyndunum sem bresku bændasamtökin, National Farmer‘s Union (NFU), hafa látið reikna út.

Ef Bretland myndi gera fríverslunarsamning við ESB á svipuðum nótum og Kanada gerði – sem er valmöguleiki sem Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, hefur lagt til – eru líkindi til þess að verð matvöru beint frá bónda, eða keypt frá framleiðanda, muni hækka um 5%.

Sviðsmynd númer tvö, í tilviki þar sem Bretland myndi reiða sig á grunnsamninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), myndi hækka verðið um hér um bil 8%, að því er samtökin álykta.

Frjáls viðskipti lækka verðið

Þó svo að þessar tvær sviðsmyndir kunni að virðast gefa bændum tilefni til að fylkja sér á bak við þá sem vilja segja sig úr Evrópusambandinu, þá kemur allt önnur hugsanleg niðurstaða út úr þriðja dæminu, sem gerir ráð fyrir frjálsum viðskiptum. Rannsókn NFU bendir til að sú leið myndi leiða til „verulegrar“ lækkunar á verði, þar eð matvælaverð innan ESB er um þessar mundir „vel yfir“ verðinu á heimsmörkuðum.

Útreikningar NFU leiða í ljós að ESB leggur að meðaltali 12,2% toll á landbúnaðarafurðir sem fluttar eru inn frá löndum utan efnahagssambandsins, en samtökin bæta við að tollprósentan sé mjög breytileg. Innflutningur á tilteknum ostum og víni ber 30-40% toll, og sumar kjötvörur 70-90% toll.

NFU segir að með lægri tollum myndi það verð sem breskir bændur fá greitt í dag fyrir nautakjöt lækka um um það bil 15% og verð fyrir alifuglakjöt lækka um 7%. Framleiðsla á þessum tegundum matvæla myndi minnka í Bretlandi, að því er samtökin halda fram, og þar með geta Bretlands til að vera sjálfu sér nægt um landbúnaðarvörur.

Landbúnaðurinn fær 40%

Þó að landbúnaður sé einungis örsmár hluti af hagkerfi Bretlands, þá er almenn óánægja með það hvernig sameiginlegu landbúnaðarstefnunni er háttað á meðal þeirra sem vilja fara úr ESB. Landbúnaðarstefnan fær í sinn hlut nærri 40% af fjárlögum ESB.

En rannsóknin, sem gerð var við Wageningen-háskólann, kemst að þeirri niðurstöðu að það sem kannski muni helst ráða örlögum bænda utan ESB sé að hve miklu marki landbúnaðarstyrkjum verður viðhaldið. Ef beinum niðurgreiðslum yrði hætt myndu tekjur meðalbýlisins lækka um 17.000 til 36.000 evrur, eftir því hvaða atburðarás yrði að veruleika.

Hafa ekki tekið afstöðu

NFU mun halda fundi með félagsmönnum á næstu vikum og taka ákvörðun um það um miðjan apríl hvort samtökin taka formlega afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Martin Haworth, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að mikilvægum spurningum verði að svara fyrir kjördag . „Hver myndi stefna breskra stjórnvalda verða hvað varðar alþjóðaviðskipti og þau áhrif sem þau hafa á matvælaverð til neytenda?“ spyr hann . „Hvernig myndu stjórnvöld tryggja að komið verði fram við breska bændur á sanngjarnan hátt?“

Sir Peter Kendall, sem er fyrrverandi forseti NFU og beitir sér fyrir áframhaldandi aðild að ESB, segir að skýrslan sé „niðurdrepandi lesning“. Hann bætir við að „það að segja skilið við Evrópusambandið eykur hættu á það verði dýrara fyrir fjölskyldur að kaupa í matinn, að tekjur atorkusamra bænda lækki, og að við taki áralangt óvissutímabili, sem muni valda efnahagslegum skaða“,