Gleðistund Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Arnar Már Arngrímsson eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2016 fyrir bækur sínar, Koparborgina og Sölvasaga unglings.
Gleðistund Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og Arnar Már Arngrímsson eru tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2016 fyrir bækur sínar, Koparborgina og Sölvasaga unglings. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Skáldsögurnar Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016.

Skáldsögurnar Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur og Sölvasaga unglings eftir Arnar Má Arngrímsson eru tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016. Tilnefningarnar voru opinberaðar á alþjóðlegu bókamessunni í Bologna á Ítalíu í gær auk þess sem haldin var hátíðlega athöfn í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem Ragnhildur og Arnar Már tóku við viðurkenningu.

Alls voru þrettán barna- og unglingabækur tilnefndar þetta árið, einni bók færra en í fyrra, en engin bók var að þessu sinni tilnefnd af hálfu Álandseyja. Dómnefndir stóru málsvæðanna fimm (þ.e. Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands) mega hver um sig tilnefna tvö verk sem komið hafa út á síðustu tveimur árum, en í reynd komu þær allar út í fyrra. Dómnefndir minni málsvæðanna (þ.e. Færeyja, Grænlands, Álandseyja og samíska tungumálasvæðisins) mega tilnefna eitt verk hvert sem út hafa komið á seinustu fjórum árum, en tilnefndu bækurnar komu út á árunum 2012-2014.

Frá Danmörku eru tilnefndar bækurnar Magnolia af Skagerrak (Magnolia frá Skagerrak) eftir Bent Haller með myndskreytingum Leu Letén og Da Gud var dreng (Þegar Guð var drengur) eftir Sankt Nielsen með myndskreytingum Madam Karrebæk.

Verðlaunin afhent 1. nóvember

Frá Finnlandi eru tilnefndar Koira nimeltään Kissa (Hundurinn sem hét köttur) eftir Tomi Kontio sem Elina Warsta myndskreytti og Dröm om drakar (Draumur um dreka) eftir Sanna Tahvanainen sem Jenny Lucander myndskreytti.

Frá Noregi eru tilnefndar annars vegar Mulegutten (Múlaguttinn) eftir Øyvind Torseter sem myndskreytti vinningsbókina í fyrra, þ.e. Brúnar eftir Håkon Øvreås, og hins vegar Krokodille i treet (Krókódíllinn í trénu) eftir Ragnar Aalbu.

Frá Svíþjóð eru tilnefndar Ishavspirater (Sjóræningjarnir á Íshafinu) eftir Fridu Nilsson og Iggy 4-ever (Iggy að eilífu) eftir Hönnu Gustavsson.

Frá Grænlandi er tilnefnd Aima qaa schhh ! (Uss, Aima!) eftir Bolatta Silis-Høegh; frá Færeyjum er tilnefnd Stríðið um tað góða grasið (Stríðið um góða grasið) eftir Bárð Oskarsson og frá samíska tungumálasvæðinu er tilnefnd Èerbmen Bizi – Girdipilohta (Bizi litli, hreindýrskálfurinn fljúgandi) eftir Marry Ailonieida Somby sem Biret Máret Hætta myndskreytti.

Dómnefnd barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs útnefnir verðlaunahafann en tilkynnt verður um úrslit við hátíðlega athöfn 1. nóvember nk. í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Í verðlaun eru 350 þúsund danskar krónur.

silja@mbl.is