Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson: "Mega þeir skrökva sig inn á menn til að koma á þá spurningum um atburði sjö ár aftur í tímann án þess að gefa þeim kost á að rifja slíka gamla atburði upp áður en svarað er?"

Atburðir undanfarinna daga í íslenskum þjóðmálum eru í meira lagi dramatískir. Meðal þess sem vekur athygli er þáttur fjölmiðla í atburðarásinni og hvernig sumir þeirra virðast telja það hlutverk sitt að taka þátt í henni og hafa áhrif á framvindu mála. Hefur þjóðin þannig fylgst með því hvernig fjölmiðlamenn beita fyrir sig ósannindum og mikilli ósanngirni til að koma höggi á einstaka þátttakendur í stjórnmálum. Nú hefur sá árangur náðst fram að forsætisráðherrann (SDG) hefur sagt af sér embætti, annars vegar vegna ósanngjarnra árása óvandaðra fjölmiðlamanna og hins vegar vegna eigin klaufaskapar.

Við skulum hafa það á hreinu að stjórnmálamenn sem gerast sekir um brot gegn landslögum, til dæmis með því að svíkja undan skatti, verða að víkja úr embættum sínum. Fjölmiðlar hafa hlutverki að gegna við að upplýsa um slíkar sakir með gagnaöflun og umfjöllun. Við þá starfsemi þeirra hljóta að gilda almennar reglur sem samfélagið viðhefur og lúta að því að fjalla af sanngirni og málefnalegum heilindum um þau málefni sem um er að ræða.

Skattskil

Mér sýnist að mál fráfarandi forsætisráðherra hafi legið þannig fyrir að kona hans (og hann með henni fram til ársloka 2009) hafi átt félag á Tortola, þar sem foreldraarfi hennar hafði verið komið fyrir, og var það allmikið fé. Fyrir virðist liggja að þau hjónin hafi alla tíð talið þetta fé fram til skatts hér á landi og borgað öll gjöld sem því fylgdi. Sé því haldið fram að þau hafi ekki gert þetta ætti að vera unnt að sannreyna það, til dæmis hjá skattayfirvöldum, en skattrannsóknarstjóri hefur sagt að ekki sé vandkvæðum bundið að sannreyna réttmæti framtala á slíkum tekjum ef framteljandi veiti atbeina sinn til þess að afla upplýsinga.

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að menn átti sig á því að ekkert hefur í sjálfu sér verið ólöglegt við að eiga fé inni á bankareikningum á þessum stað. Krafan lýtur að því að rétt sé talið fram til skatts og lögbundin gjöld greidd.

Upplýsingar vegna þingsetu

Samkvæmt því sem nú er komið fram mun innistæðan þar ytra eiga rót sína að rekja til foreldraarfs konunnar, sem hún fékk í hendur á árinu 2007, en þá bjuggu hún og SDG erlendis og höfðu ekki gengið í hjónaband. Þau höfðu bæði verið skráð fyrir félaginu sem varðveitti féð. Ráðherrann fráfarandi hefur sagt að þetta hafi gerst fyrir mistök sem síðan hafi verið leiðrétt í árslok 2009, og eignarhaldið á ný flutt að öllu leyti yfir til konunnar. Hvað sem þessu líður verður að telja að hann hafi sjálfur borið ábyrgð á því að þessarar eignar var ekki getið í upplýsingagjöf fyrr á árinu 2009 þegar hann tók fyrst sæti á Alþingi. Á hinn bóginn virðist liggja fyrir að honum hafi ekki borið skylda til að veita sérstakar upplýsingar um þetta eftir kosningar 2013, þar sem hann var ekki lengur skráður meðeigandi að félaginu. Liggur fyrir að þingmönnum er ekki skylt að gefa upplýsingar um persónuleg fjármál maka síns samkvæmt þeim reglum sem um þetta gilda. Ástæðan fyrir því er vafalaust sú að það þætti ganga of nærri hagsmunum makans ef þingseta eiginmanns gerði skylt að veita upplýsingar um slíkt. Mér er ekki kunnugt um að andmæli við þessu hafi komið fram þegar reglurnar voru settar, til dæmis frá þeim sem nú halda því fram að gefa hefði átt upplýsingar um fjármál makans.

Sanngjörn meðferð

Nýlega komu fréttamenn höndum yfir skjöl sem varða bankareikninga hjá svonefndum aflandsfélögum. Meðal upplýsinga sem þar var að finna voru upplýsingar um félag eiginkonu SDG. Sjálfsagt var auðvitað að þessir fjölmiðlar beindu spurningum um þetta til ráðherrans fyrrverandi, sérstaklega vegna þess að menn vita að fjármunum hefur verið komið fyrir á þessum stöðum til að komast hjá því að greiða af þeim skatta í heimalandinu. Við slík verk koma heiðarlegir fréttamenn einfaldlega framan að hlutunum og gæta þess að sá sem í hlut á fái sanngjarna meðferð við flutning frétta af þessu. Málið er viðkvæmt að því leyti að þessir aflandsstaðir eru kunnir sem „skattaskjól“ og eru því frekar illa þokkaðir af almenningi í okkar landi og öðrum í námunda. Það er því frekar auðvelt að framkalla fordæmingu á fólki sem á þarna reikninga þó að ekkert sé í sjálfu sér athugavert við það að lögum.

Ósannindi og röng viðbrögð

Það var auðvitað forkastanlegt að erlendur fréttamaður skyldi skrökva sig inn á ráðherrann til að taka við hann viðtal um þetta og það meira að segja með tilstyrk íslensks fréttamanns sem kom til viðtalsins í dularbúningi, að minnsta kosti þannig að ráðherrann vissi ekkert af honum fyrir fram. Hafði ráðherrann veitt viðtalið í því skyni að svara spurningum um efnahagsmál á Íslandi eftir hrun. Viðbrögð ráðherrans, þegar tekið var óvænt að spyrja hann um atvik sjö ár aftur í tímann um þessi fjármál þeirra hjóna, voru skelfileg. Ekkert hefði verið að því fyrir hann að ljúka samtalinu þá og þegar á þeirri forsendu að tekið væri að spyrja um atriði sem hann þyrfti að fá tækifæri til að rifja upp áður en hann svaraði spurningum um þau. Þetta gerði hann ekki heldur missti stjórn á sér með þeim hætti að ekki var virðingu hans sæmandi. Í þessum þætti kom hins vegar ekkert fram um málefnið sem ekki var þegar komið fram opinberlega, þegar þátturinn var sýndur. Í framhaldi viðtalsins hefði ráðherrann síðan átt að segja strax frá þessu því og skýra sitt mál í stað þess að bíða vikum saman eftir að höggið félli. Meira að segja gerðist hann sekur um þau kjánalegu mistök að óska eftir því við erlenda fréttamanninn að viðtalið yrði ekki sýnt á opinberum vettvangi. Þessi atburðarás er með miklum ólíkindum.

Koma skyldi höggi á ráðherrann

Hlutur fréttamanna í þessu er ófagur. Það er augljóst að öll uppsetning málsins var hönnuð til að koma höggi á ráðherrann. Vanir menn á þeim bæ vissu vel að stór hluti almennings í landinu var tilbúinn að fordæma ráðherrann fyrir það eitt að hafa „tengst“ félaginu á Tortola-eyju, auk þess sem slíkir fordómar nærast á upplýsingum um að þetta fólk hafi vegna arftöku eiginkonunnar átt meira fé en gengur og gerist. Við framsetningu frétta um þetta voru svo birtar myndir af ráðherranum við hliðina á myndum af heimsþekktum misindismönnum sem jafnvel eru þekktir af því að hafa stolið peningum af þjóðum sínum og komið þeim undan í eigin þágu inn á reikninga í aflandsfélögum. Mikli sanngirni í þessu eða hitt þó heldur.

Mega fréttamenn segja ósatt?

Ætlunarverkið tókst. Ráðherrann er farinn frá. Fréttamennirnir sem stóðu fyrir þessari uppsetningu leggja gjarnan áherslu á að menn segi satt. Hvað um þá sjálfa? Mega þeir skrökva sig inn á menn til að koma á þá spurningum um atburði sjö ár aftur í tímann án þess að gefa þeim kost á að rifja slíka gamla atburði upp áður en svarað er? Ég veit að minnsta kosti að ég yrði sjálfur ekki burðugur til að svara óundirbúið spurningum um atvik í mínu lífi fyrir sjö árum. Kannski er í öllu talinu nú um siðferðilegar skyldur trúnaðarmanna almennings enginn áhugi á siðareglum fréttamanna. Mega þeir fara fram með óbilgirni og ósannindum til að koma höggi á menn sem þeim er af einhverjum ástæðum í nöp við?

Og þeir sem þessa dagana tala um lágkúru í umræðum um þjóðfélagsmál, ósannindi og skotgrafahernað ættu kannski að hugleiða hvort svona framferði, eins og þessir fréttamenn viðhöfðu, er ekki kannski fremur en nokkuð annað til þess fallið að auka veg lágkúrunnar.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jón Steinar Gunnlaugsson