Kristín Kjartansdóttir fæddist í Reykjavík 17. september 1925. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 31. mars 2016.

Kristín var dóttir Sigríðar Guðmundsdóttur, f. 21. júlí 1894 að Hrauni í Keldudal, og Kjartans Þorkelssonar, f. 19. nóvember 1892 í Nesi í Kjós.

Bróðir Kristínar sammæðra var Guðmundur Óskarsson sem er látinn. Systkini hennar samfeðra voru: Björn, Guðrún, Þorkell, Anna Lilja, Ásmundur, Ragnheiður, Halldór og Svanborg. Björn, Guðrún og Halldór eru látin.

Þann 1. júní 1943 giftist Kristín Guðmundi Kristjáni Jónssyni frá Dynjanda við Arnarfjörð, f. 14. febrúar 1916, d. 4. febrúar 1993. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðmunda Kolbrún, f. 24.4. 1944, gift Hilmari Fjeldsted Lútherssyni og eignuðust þau fjögur börn: a) Auður Sólveig, b) Atli, hann er látinn, c) Sveinn, d) Hrafnhildur. 2) Svavar Guðmundsson, f. 1.11. 1946, kvæntur Dagnýju Jónsdóttur. Börn þeirra eru: a) Bjarni Már, b) Margrét Björk, c) Ágústa Björk. 3) Sigurður Arnfjörð, f. 22.7. 1948, kvæntur Súsönnu A. Hilmarsdóttur og eru börn þeirra Hilmar Arnfjörð og Kristín Arnfjörð. 4) Guðmundur Kristján, f. 11.7. 1950. Hann kvæntist Guðrúnu Jóhannesdóttur og eiga þau synina Sigþór Jóhannes og Sigurð Arnar. Þau skildu. Áður eignaðist Guðmundur dótturina Völu Karen með Soffíu Björgu Þorvaldsdóttur. 5) Valgarð, f. 19.7. 1951. Hann kvæntist Rósu Önnu Guðmundsdóttur og börn þeirra eru Halldóra Kristín og Þórir Unnar. Þau skildu. Börn Valgarðs og seinni konu hans, Áróru Hlínar Helgadóttur, eru: a) Arnþór Hinrik, b) Lena Sólborg, c) Kristjana Hlín. Þau skildu. 6) Jón, f. 12.7. 1953. Með fyrri konu sinni, Hönnu Rannveigu Sigfúsdóttur, á Jón soninn Stefán Pál. Eiginkona Jóns er Ágústa Magnúsdóttir og eru börn þeirra Vignir Örvar og Arnbjörg Magnea, en fyrir á Ágústa einn son, Sumarliða Örn. 7) Ólafur Arnfjörð, f. 23.12. 1954. Með fyrri konu sinni, Sjöfn Katrínu Aðalsteinsdóttur, á Ólafur dótturina Maríu Unni. Seinni kona Ólafs er Magnea Vilborg Svavarsdóttir og eru börn þeirra Sigríður Arnfjörð og Svavar Arnfjörð en fyrir á Magnea eina dóttur, Helgu Rán. Með barnsmóður sinni, Steinunni Árnadóttur, eignaðist Ólafur son, Gunnar Helga, sem er látinn. 8) Sigríður Arnfjörð, f. 8.8. 1960, gift Sigurði Ágústi Guðbjörnssyni og eru börn þeirra: a) Guðlaug Ósk, b) Brynjar Þór, c) Sólrún Heiða, d) Hjördís Bára, e) Steinunn Inga. 9) Kristín, f. 17.1. 1965. Kristín á synina Hörð Frey og Ragnar Vilberg með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Braga Ragnarssyni, sem er látinn.

Kristín eignaðist 60 langömmubörn, en eitt þeirra er látið. Langalangömmubörnin eru þrjú.

Útför Kristínar fer fram frá Áskirkju í dag, 7. apríl 2016, klukkan 15.

Elsku mamma.

Mikið langar mig að hringja í þig núna og segja: „Mamma.“ Og þú mundir þá segja: „Hvað er að, barnið mitt?“ Þú fannst alltaf þegar mér leið illa, ég þurfti aldrei að segja það. Sjaldan hefur mér liðið eins illa og núna en ég hugga mig við að nú ertu búin að fá hvíldina sem þú þráðir undir það síðasta. Það er svo margt sem hverfur núna. Allar skyndiákvarðanir okkar. Þegar okkur datt í hug að fara Þingvallahringinn, fengum svo þá hugmynd að athuga hvort hann væri að finna á Holtavörðuheiði og enduðum í kaffi hjá Siggu systur. Þokan svo þétt og þú sagðir ósköp rólega: „Og ég gleymdi sprengitöflunum.“ Það er skemmtilegasti Þingvallahringur sem ég hef farið. Þú munt heldur aldrei aftur segja mér að fá mér koníak á Jómfrúnni og bjóðast til að keyra heim – það væri ekki hægt að taka af þér það sem þú ættir ekki og aldrei tókstu bílpróf.

En ég á allar þessar minningar og þær eru margar.

Þú varst sérstök kona. Í raun varstu svolítið á undan þínum samtíma. Ég ólst upp við allt þetta heilsufæði sem fólk er að uppgötva núna. Engin hvít brauð eða rauðar pylsur á mínu heimili en allskonar baunir og fræ í bleyti. Náttúrulækningabúðin var jafn sjálfsögð og mjólkurbúðin. Stundum sat ég úti og beið eftir þér því mér fannst lyktin skrýtin þar inni. Þá var ég ca. fimm ára.

Það kom líka fyrir að allt í einu var komið ókunnugt fólk inn á heimilið sem yrði þar um óákveðinn tíma. Þetta voru alltaf konur, stundum með barn, sem vantaði húsaskjól vegna einhverra erfiðleika í þeirra lífi. Það skipti þig engu hvaðan þær komu eða hverjar þær voru. Þá lærði ég að það er pláss fyrir okkur öll á jörðinni, það er alltaf hægt að hjálpa fólki í neyð og það er ekki okkar að dæma ákvarðanir annarra. Þetta er mér dýrmætur lærdómur í dag.

Ég man hversu sárt ég saknaði þín þegar Hörður Freyr fæddist. Við úti í Danmörku og þú á Íslandi. Þú komst þegar hann var 14 daga gamall og ég grét í fanginu á þér á flugvellinum. Þú komst alltaf reglulega til okkar í þau 13 ár sem við bjuggum úti. Þú elskaðir Danmörku og náðir að fara síðustu ferðina þína þangað ásamt okkur Óla og Siggu, þá tæplega 90 ára. Það var okkur öllum dýrmæt ferð.

Drengirnir mínir bera báðir minningu um yndislega ömmu í hjarta sínu. Samband þitt við þá báða var einstakt. Þið Hörður Freyr með allt ykkar frá því að hann var lítill drengur sem mátti skjóta ömmu sína og gefa henni svo snuðið sitt. Lék við hann í allskonar leikjum og hafði alltaf tíma. Svo einn daginn dró hann þig að speglinum og sagði: „Sjáðu amma mín, ég er orðinn stærri en þú.“ Samband ykkar einkenndist af kærleika og virðingu fyrir hvort öðru. Enginn getur lýst sambandi ykkar Ragnars. Þolinmæði þín og skilningur gagnvart honum var einstakur. Og hann strauk þér, breiddi ofan á þig, passaði ömmu sína. Þeir kveðja góða ömmu.

Elsku mamma mín, mikið sakna ég þín sárt en ég mun halda áfram að fylgjast með trénu þínu á horni Suðurgötu og Vonarstrætis eins og við gerðum alltaf saman.

Þín dóttir,

Kristín (Stína).

Lítil hnáta á sjöunda aldursári hleypur við fót fyrir utan Landsbankann í Austurstræti, henni liggur mikið á en móðir hennar Sigríður, sem starfar við matseld í bankanum hafði leyft henni að fara út og safna glerjum sem hún síðan mátti selja og kaupa sælgæti fyrir.

Áratug seinna er þessi stúlka við eldhúsvaskinn á Kárastöðum í Þingvallasveit við uppvask og átti að fara síðar um daginn að Hótel Valhöll á Þingvöllum og vinna þar með móður sinni og hjálpa þar til í eldhúsi.

Þessu sagði hún móðir mín mér frá mörgum sinnum ásamt fleiri sögum af þeim mæðgum, sem ekki áttu alltaf samastað vegna vinnu móður hennar. Nú segir hún mamma mér ekki lengur slíkar sögur eða sögubrot. Hún andaðist 31. mars síðastliðinn og ég mun sakna þess að heyra ekki fleiri sögur frá henni. Móðir mín var fædd og uppalin í Reykjavík og ég man vel eftir því þegar ég, ungur drengur, fletti í fjölskyldualbúmi okkar og sá mynd af henni við Tjarnarbakkann í Reykjavík í fallegri dragt og með hatt á höfði, hvað ég var sannfærður um að hún væri fallegasta konan sem til væri í veröldinni. Fegurð hennar hefur síðan þá náð að dafna bæði að utan sem innan.

Hún varðveitti þá eiginleika sem æska hennar hafði gefið henni við fjölbreytt störf stundum við hlið móður sinnar og stundum ekki, þar öðlaðist hún þroska og bjó sig undir lífsgönguna. Hún gekk að eiga föður minn Guðmund Kr. Jónsson og átti með honum níu börn. Það segir sig sjálft að oft hefur þurft að taka á honum stóra sínum að ala önn fyrir þessum barnafjölda. En lífsins gangur er ekki alltaf sá sem við ætlum og hjónaband þeirra endaði með skilnaði og voru þá flest börnin farin að sjá um sig sjálf fyrir utan þrjú yngstu þ.e.a.s. mig og yngri systur mínar tvær. Með útsjónarsemi sinni aflaði hún sér tekna m.a. með ræstingum, sokkaviðgerðum, innrömmunarþjónustu og eftir að hafa starfað á Kleppsspítala þá innritaði hún sig í nám sjúkraliða og lauk því og starfaði sem slíkur eftir það. Þegar starfi hennar sem sjúkraliða lauk gerði hún prjónavinnu að sinni aðalatvinnu enda vel fær um slíka vinnu eftir að hafa stundað hana í hjáverkum alla sína tíð.

Það var henni mikilvægt að standa á eigin fótum og sjá sjálfri sér og börnum sínum farborða og það gerði hún svikalaust. Marga kvöldstundina sat hún við prjóna og svo var farið með afraksturinn í Handprjónafélagið. Þegar litið er um öxl og reynt eftir bestu getu að setja niður skipulega þær minningar sem vakna við slík skrif verður manni fljótt ljóst að ekki verður rúm til þess að geta alls þess sem manni býr í brjósti. Móðir mín varð 90 ára gömul og ótrúlega hraust miðað við þennan háa aldur.

Ég veit að ég á eftir að sakna hennar, ég náði því að eignast með henni samband sem sonur einn getur átt við móður sína og fyrir það verð ég henni ávallt þakklátur. Þó svo að hún hafi nú kvatt þennan heim þá ég veit að hún er þar sem ég er og hún fer þar sem ég fer.

Blessuð sé minning þín.

Þinn sonur,

Ólafur (Óli).

Í dag kveð ég Kristínu Kjartansdóttur, sem fyrir mörgum árum var tengdamóðir mín en varð með árunum miklu frekar góð vinkona. Við gátum talað um allt milli himins og jarðar í trúnaði, gríni og allt þar á milli. Núna síðustu vikur töluðum við um það fallega sem lífið hafði gefið okkur. Við töluðum líka um dauðann, hún var sátt og tilbúin að finna út úr því hvert við færum eða hvort við færum eitthvert eftir jarðvistina sem við þekkjum.

Kristín var mikill karakter og lét ekki bjóða sér hvað sem var. Hún átti til fljótfærni, sem féll stundum í grýttan jarðveg. Með árunum lærði ég að meiningin var aldrei ill. Hún studdi mig alltaf frá því að ég kom 17 ára óléttur stelpukrakki inn í fjölskylduna. Þegar ég var orðin tveggja barna móðir langaði mig að læra þjóninn og fékk samning í Reykjavík en bjó á Selfossi. Hún lét sig ekki muna um að koma austur og passa á meðan ég vann mínar 12 tíma vaktir og lána mér íbúðina sína þegar ég þurfti. Alveg sama hvað, þá var hún boðin og búin að hjálpa mér.

Mörg barna Kristínar bjuggu úti á landi þegar ég kynntist fjölskyldunni. Yngstu dæturnar Sigga og Stína voru enn heima og þær bjuggu þröngt. En það skipti ekki máli, öllum var velkomið að gista á meðan húsrúm leyfði, stundum voru flatsængur yfir allt stofugólfið.

Hún var nýtin og hafði einstakt lag á að gera mikið úr þeim krónum sem hún vann sér inn. Þar fékk ég góðar leiðbeiningar sem hafa oft nýst mér vel. Einu sinni laumaði hún að mér að ég skyldi ekkert hafa áhyggjur þótt hún kvartaði yfir peningaleysi, hún ætti alltaf varasjóð.

Einhvern tímann hafði hún ákveðið að gefa öllum börnunum sínum gullhring í 25 ára afmælisgjöf, mér fannst það fallegt og rausnarlegt. Mér þótti því einstaklega vænt um þegar hún sagði einn daginn: „Nú förum við og þú velur gullhring handa þér, því þú ert alltaf stelpan mín.“ Þá var ég orðin 34 ára og ekki lengur tengdadóttir og öll börnin hennar orðin 25 ára.

Ævi Kristínar var 90 viðburðarík ár og af þeim þekkti ég hana í næstum 40 ár, svo að minningarnar eru margar. Ég er þakklát þeirri gæfu sem leiddi mig til að fylgja þessari stórbrotnu konu, sem alltaf vildi öllum vel og bar tilfinningar sínar með reisn. Hún skilur eftir sig mikinn fjársjóð í fjölda afkomenda.

Blessuð sé minning minnar kæru vinkonu og ömmu barnanna minna.

Áróra Hlín.

Margs er að minnst, elsku amma mín, en ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér er þú komst yfir. Það sem er mér ofarlega í huga þessa stundina er hvað ég er glöð yfir að fá að njóta þín öll þessi ár og hvað þú studdir mig mikið í mínum erfiðleikum þó að þú ættir sjálf erfitt.

Þessi orð þín að muna það fallega og góða í lífinu og fyrirgefa í hjarta sér og að við getum ekki ráðið gjörðum annarra en við gætum ráðið okkar gjörðum og gert það sem við getum gert.

Það væri ekki hægt að gera meira.

Það verður erfitt að geta ekki hringt og spjallað eða komið og kíkt í heimsókn til þín er maður er á ferðinni suður.

Í uppvexti mínum var ég mikið inni á heimilinu þínu og ekki að undra þar sem móðursystur mínar eru einu ári eldri og fjórum árum yngri en ég. Bjó ég á heimili þínu fyrsta árið mitt og er ég einnig fyrsta barnabarnið af mörgum sem fylgdu í kjölfarið. Á ég svo margar fallegar minningar um Alla bróður, Siggu, Stínu og Svein bróður frá þessum uppvaxtar tíma er við vorum í heimsókn hjá þér.

Ég fékk millur og nælu í hendurnar sem eru frá langömmu minni, henni móður þinni Sigríði Guðmundsdóttur, og saumaði ég mér íslenska búninginn sem mér þykir afskaplega vænt um. Núna get ég alltaf minnst þín er ég fer í hann. Það fyrsta sem ég gerði var að fara til þín og sýna þér hann. Ég man hvað þú varst glöð yfir að hlutirnir hennar mömmu þinnar væru hjá mér. Ég fékk sendingu frá þér sem var prjónuð slá til að nota við búninginn, þessi gjöf er mér voðalega dýrmæt. Seinna léstu mig hafa hólk sem ég man að við vorum að nota sem hamar í gamla daga. Ég lét laga hann og pússa, úr því er nú komin þessi fína skotthúfa og get ég verið stoltur eigandi að tveimur slíkum húfum við búninginn minn, þökk sé þér, amma mín.

Í minningunni stendur upp úr heimsókn til þín síðastliðið sumar er þú sagðir mér frá gamla tímanum og rifjaðir upp æskuár þín og sagðir mér frá móður þinni. Það veitti mér mikla gleði að hlusta á þig segja frá æsku þinni og uppvexti sem oft var erfiður. Mikið hafði ég samt gaman af að hlusta á þig og margt sem ég vissi ekki um. Ég vildi gjarnan eiga þetta allt skrifað niður, elsku amma mín.

Ég á eftir að sakna þín mikið, elsku amma mín, og þúsund þakkir fyrir allt það sem þú gafst mér og börnum mínum.

Ég gæti sagt svo margt meira,elsku amma, en við látum þetta nægja með þessu ljóði sem segir svo margt.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þarf ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Þitt barnabarn,

Auður.

Nú ertu horfinn í himnanna borg

og hlýðir á englanna tal.

Burtu er kvíði, sjúkdómur, sorg

í sólbjörtum himnanna sal.

Þeim öllum sem trúa og treysta á Krist

þar tilbúið föðurland er.

Þar ástvinir mætast í unaðarvist

um eilífð, ó, Jesú, hjá þér.

(Ingibjörg Jónsdóttir)

Hvíl í friði, elsku langamma, minning þín lifir í hjarta okkar.

Hilmar Atli og Thelma Rut.

Elsku langamma mín.

Í kringum þig leið mér aldrei illa, vegna þess að nærvera þín umvafði mig alltaf þegar ég hitti þig. Þessi perla sem þú varst, alltaf húmorinn í lagi, hreinskilin, flott kona sem var með bein í nefinu og hjartað á réttum stað. Þú varst sko sannarlega dæmi um flotta og alvöru íslenska konu. Þess mun ég alltaf minnast.

Ég er svo stolt af því að hafa getað kallað þig langömmu mína og fá þann heiður að vera langömmubarnið þitt, þú varst og verður alltaf frábær fyrirmynd í mínum augum.

Að lokum vil ég koma til þín ljóði og megi Guð og allir hans englar gæta þín vel. Ég mun hugsa til þín og ávallt geyma þig í hjarta mínu.

Þú færð það loforð frá mér að þú gleymist aldrei, því í hjarta mínu færðu alltaf að lifa.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili.)

Þitt langömmubarn,

Lilja.