[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, verður ekki fyrsti flokksformaðurinn til að standa utan ríkisstjórnar sem flokkur hans á aðild að.

BAKSVIÐ

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, verður ekki fyrsti flokksformaðurinn til að standa utan ríkisstjórnar sem flokkur hans á aðild að. Fimm dæmi eru um það á lýðveldistímanum að formenn stjórnmálaflokka sem aðild áttu að ríkisstjórnum hafi ekki setið í þeim meðan þær störfuðu. Þá er eitt dæmi um flokksformann sem tók sæti í ríkisstjórn talsvert eftir að hún var mynduð

Skuggastjórnendur

Elsta dæmið er frá nýsköpunarstjórninni sem sat 1944 til 1946. Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, kaus að sitja ekki í henni. Hann var hins vegar mikill áhrifamaður um stjórnarstefnuna að tjaldabaki, eins og nær allir aðrir flokksformenn í sömu stöðu síðar. Má tala um þá sem nokkurs konar skuggastjórnendur. Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands, staðfestir þetta.

Velta má fyrir sér hvort Sigmundur Davíð muni reyna hið sama eða hvort það sé útilokað vegna aðstæðna í stjórnmálum um þessar mundir.

Hvorki Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, né Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, sátu í samsteypustjórn flokka sinna með Alþýðuflokknum á árunum 1947 til 1949. Sú stjórn var undir forystu alþýðuflokksmannsins Stefáns Jóhanns Stefánssonar.

Lúðvík utan stjórnar

Hermann Jónasson tók ekki sæti í stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem sat á árunum 1953 til 1956 undir forsæti Ólafs Thors.

Lúðvík Jósepsson var formaður Alþýðubandalagsins þegar flokkurinn myndaði stjórn með Framsóknarflokknum og nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins snemma árs 1980. Hann tók ekki sæti í stjórninni og lét af formennsku um haustið sama ár.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var formaður Samfylkingarinnar þegar mynduð var stjórn með Vinstri grænum í febrúar 2009. Hún var utan ríkisstjórnar sem Jóhanna Sigurðardóttir leiddi. Ingibjörg Sólrún lét af formennsku í flokknum stuttu seinna af heilsufarsástæðum.

Annars eðlis er svo dæmi Þorsteins Pálssonar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins undir forystu Steingríms Hermannssonar var mynduð vorið 1983. Um haustið varð Þorsteinn formaður Sjálfstæðisflokksins í stað Geirs Hallgrímssonar. Hann tók hins vegar ekki sæti í stjórninni fyrr en um tveimur árum seinna, í október 1985.

Eitt dæmi er um að forseti sameinaðs Alþingis hafi verið gerður að forætisráðherra vegna ósamkomulags formanna stjórnarflokka. Það var árið 1950 þegar framsóknarþingmaðurinn Steingrímur Steinþórsson myndaði stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Flokksformennirnir, Hermann Jónasson og Ólafur Thors, voru hins vegar báðir um borð sem ráðherrar.

Jónas frá Hriflu utan stjórna

Fyrir lýðveldisstofnun er þekkt dæmi Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Hann var utan ríkisstjórna sem Framsóknarflokkurinn átti aðild að á tíu ára tímabili þótt hann væri formaður flokksins. Stafaði það af því að hann naut ekki nægilegs trausts samflokksmanna sinna í þingflokknum, enda umdeildasti stjórnmálamaður landsins.

Áhrif Jónasar á þessum árum voru mest á hinum almenna stjórnmálavettvangi. Vegna ósamkomulags við flokksbræður sína gat hann ekki togað í spotta ráðherra flokksins. En hann réð yfir Tímanum sem þá var áhrifamikið dagblað og var formaður Menntamálaráðs sem listamenn og rithöfundur áttu mikið undir.

Í þeim stöðum var hann einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins þótt hann stæði utan ríkisstjórna.