Orri Vigfússon
Orri Vigfússon
Eftir Orra Vigfússon: "Þegar kemur að skuldadögunum og gjaldþrot fyrirtækjanna hafa lent á okkur skattgreiðendum verður búið að menga umhverfið og spilla lífríkinu með óafturkræfum hætti."

Nágrannaþjóðir okkar í Noregi og á Írlandi hafa áttað sig á því að það er mjög kostnaðarsamt að undirbúa laxeldi í opnum sjávarkvíum. Bæði löndin hafa í kjölfarið ákveðið að fiskeldisfyrirtækin eigi að greiða þann kostnað sjálf. Fyrirtæki sem sækja um leyfi fyrir slíkri starfsemi í norskum fjörðum þurfa þannig að reiða fram hundraða milljóna króna óafturkræf framlög til að opinberar stofnanir geti gert viðeigandi rannsóknir. Hér er verið að tala um mat á aðstæðum, rannsókn á lífríkinu, burðarþolsmat á fyrirhuguðum eldissvæðum. Auk þess þarf að byggja upp þekkingu til að hafa eftirlit og þá umsjón sem krafist er til að ekki verði stórslys.

Nýlega voru boðin upp og seld í Noregi tuttugu kvótaleyfi, hvert fyrir 780 tonna sjóeldisframleiðslu á samtals 904 milljónir norskra króna. Þetta svarar til 892 milljóna íslenskra króna fyrir sérhvert leyfi. Við þetta vakna spurningar um það hversu mikils virði leyfin eru sem nú er verið sækja um hérlendis. Hér er verið að sækja um framleiðsluleyfi upp á tugþúsundir tonna og það án þess að fyrirtækin þurfi að greiða nokkuð fyrir.

Vandamál í Noregi

Afleiðingar af óvönduðum vinnubrögðum liggja fyrir í Noregi. Lífríki landsins hefur nú þegar beðið umtalsverðan og óafturkræfan skaða af laxeldi í opnum sjókvíum eins og fram kemur í álitsgerð norsku ríkisendurskoðunarinnar um áhrif fiskeldisins þar í landi. Ríkisstjórnin hefur staðið fyrir neyðarfundum og nær allir háskólar og vísindastofnanir Noregs vinna að rannsóknarverkefnum til að freista þess að finna lausn á vandamálum sem eiga rætur að rekja til fiskeldisins. Vísindamenn viðurkenna að þeir hafi ekki svör á reiðum höndum.

Staðan á Íslandi

Hver er svo staðan á Íslandi og hvað eru íslenskir ráðamenn að aðhafast? Því miður virðist sem Íslendingar séu ekki að læra af mistökum Norðmanna. Hér á að leyfa fiskeldismönnum að fá eldisleyfin frítt og það áður en nauðsynlegum undirbúningi og skipulagningu er lokið. Fiskeldismenn hérlendis benda á að laxinn í litlu kvíunum þeirra þurfi lítið af lyfjum og hætta á lúsafaröldrum sé óveruleg og því sé sjálfsagt að veita þeim risaleyfi upp á tugþúsundir tonna. Ríki og sveitarfélög þurfa jafnvel að leggja í kostnað við lagnavinnu og hafnar- og vegaframkvæmdir til að þjónusta starfsemi fyrirtækja sem að öllum líkindum mun valda lífríkinu skaða. Norðmenn bíða svo eftir að kaupa íslensku eldisfyrirtækin á markaðsvirði til að milliliðurinn sem plataði ráðamennina hér á landi geti hirt allan arðinn. Verði hagnaður af starfseminni fer hann líka umsvifalaust burt úr sveitarfélögunum þar sem hún er staðsett.

Hver ber ábyrðina þegar illa fer?

Við sem störfum við laxveiðiárnar og vinnum að vernd þeirra erum logandi hrædd. Samkomulagið sem við gerðum við yfirvöld árið 1988 um að kynbættur, norskur eldislax færi ekki út í íslenska náttúru var svikið. Burðarþolsmat sem við báðum um í febrúar 2001 fyrir þá firði sem menn hafa áhuga á að leggja undir laxeldi hefur ekki verið framkvæmt. Samt sem áður berast stöðugt fréttir af því að athafnamenn ætli að auka laxeldi svo um munar. Að sjálfsögðu hafa slík áform jákvæð áhrif á atvinnulíf fyrst í stað. En það er skammgóður vermir. Sagan hefur sýnt að fiskeldi í sjó við Ísland hefur aldrei endað vel. Samkvæmt ársreikningaskrá ríkisskattstjóra hefur ríkissjóður á undanförnum árum tapað ævintýralegum fjárhæðum vegna gjaldþrots fiskeldisstöðva. Af þeim 18 fyrirtækjum sem ábyrgðadeildin ábyrgðist hafa 16 verið lýst gjaldþrota.

Þegar kemur að skuldadögunum og gjaldþrot fyrirtækjanna hafa lent á okkur skattgreiðendum verður búið að menga umhverfið og spilla lífríkinu með óafturkræfum hætti; eldislaxar sem sleppa úr kvíum breyta erfðaeiginleikum villtra laxastofna með óbætanlegum afleiðingum. Laxalús frá fiskeldi í stórum stíl veldur ómældum skaða og umhverfismengun frá eldinu veldur skaða á lífríki sjávar, fisktegundir og fugla sem í henni lenda.

Lærum af reynslu annarra

Þetta er sú martröð sem Norðmenn eru nú að vakna af. Hér er því ekki um neinn spádóm að ræða heldur lýsingu á því sem vitað er að muni gerast ef mönnum verður leyft að ana út í sams konar eldisstarfsemi hér á landi og hefur þegar gengið sér til húðar í nágrannalöndunum.

Fiskeldi á vissulega rétt á sér í matvælaframleiðslu en það á bara ekki heima í opnum sjókvíum. Fiskeldi verður að stunda í lokuðum kerfum, hvort sem er á landi eða í sjó, eins og hefur nú runnið upp fyrir framsýnu fólki í þessari atvinnugrein. Og þeir sem ætla að fara út í fiskeldi verða sjálfir að bera kostnaðinn og ábyrgðina af því.

Höfundur er formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna.