Dæling Galileo 2000 við vinnu í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í fjarska.
Dæling Galileo 2000 við vinnu í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í fjarska. — Ljósmynd/Vegagerðin - Ingvar Hreinsson
Vegagerðin gefur ekki upp hvenær áætlað er að dýpkun í og við Landeyjahöfn verði lokið þannig að Herjólfur geti hafið siglingar þangað.

Vegagerðin gefur ekki upp hvenær áætlað er að dýpkun í og við Landeyjahöfn verði lokið þannig að Herjólfur geti hafið siglingar þangað. Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs, segir að framvinda verksins ráðist af vindstyrk og ölduhæð og síðan því að tækin haldist í lagi.

Belgíska sanddæluskipið Galilei 2000 hefur ekki getað dýpkað í höfninni frá því á mánudag. Þann dag var skipið að í tæpan sólarhring. Sigurður segir að ef veðurspáin rætist og hagstætt veður verði fyrir dýpkunarskipið frá sunnudegi muni skipið geta haldið áfram vinnu sinni.

Sanddæluskipið var síðast að dýpka inni í höfninni og segir Sigurður að einhverjar dreggjar séu þar eftir.

Jafnframt vinna starfsmenn verktakafyrirtækisins Suðurverks að því að hreinsa foksand upp úr kverkinni við innri hafnargarðinn. Byrjað var á því verki undir lok marsmánaðar og áætlað að verkið tæki um 10 daga. Notaðar eru gröfur, meðal annars ein með langan arm, ýta og vörubílar.

Herjólfur hefur siglt til Þorlákshafnar í vetur eins og undanfarna vetur enda hefur ekki verið hægt að halda höfninni opinni. Síðustu ferðirnir til Landeyjahafnar voru farnar undir lok nóvember. Eru fjórir mánuðir og hálfur til viðbótar liðnir frá því að Eyjamenn og gestir þeirra gátu nýtt sér Landeyjahöfn. Eru margir orðnir óþreyjufullir.

helgi@mbl.is