„Nú er bara kominn tími til að skoða það að setja einn lífeyrissjóð fyrir landsmenn. Það yrði stórkostlegur sparnaður í því fyrir þá sem greiða í sjóðina.,“ segir Kristján Loftsson.
„Nú er bara kominn tími til að skoða það að setja einn lífeyrissjóð fyrir landsmenn. Það yrði stórkostlegur sparnaður í því fyrir þá sem greiða í sjóðina.,“ segir Kristján Loftsson. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is HB Grandi var skráður á markað í Kauphöll Íslands árið 2014. Frá þeim tíma hafa stærstu lífeyrissjóðir landsins kallað eftir breytingum á stjórn fyrirtækisins.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is HB Grandi var skráður á markað í Kauphöll Íslands árið 2014. Frá þeim tíma hafa stærstu lífeyrissjóðir landsins kallað eftir breytingum á stjórn fyrirtækisins. Þær fyrirætlanir hafa fallið í grýtta jörð hjá Kristjáni Loftssyni, sem er í forsvari fyrir stærstu eigendur fyrirtækisins sem eiga ríflega 40% hlutafjár í því. Hann telur lífeyrissjóðina of freka til fjörsins og að þeir séu að kalla eftir breytingum á röngum og jafnvel hæpnum forsendum.

Kristján Loftsson hefur átt sæti í stjórn HB Granda frá árinu 1988. Allt til ársins 2013 gegndi Árni Vilhjálmsson prófessor, stjórnarformennsku í fyrirtækinu en við fráfall hans tók Kristján við keflinu. Leiddi hann fyrirtækið þegar það var skráð á markað í Kauphöll Íslands árið 2014, en HB Grandi var áður skráður á First North-markaðnum. Eftir sem áður eiga félög honum tengd, Vogun og Hampiðjan, ríflega 40% hlutafjár í HB Granda eftir útboðið. Hann hefur viljað halda stjórn fyrirtækisins óbreyttri, þrátt fyrir mjög ákeðnar kröfur stærstu lífeyrissjóða landsins um að fulltrúar þeirra eigi beina aðild að stjórnarstarfinu.

„Ég get bara talað fyrir HB Granda þegar kemur að samskiptum við lífeyrissjóðina en það verður að skoða þetta í tvennu ljósi. Annars vegar því að ef lífeyrissjóðirnir eru með mikinn meirihluta í fyrirtækjum verða þeir að koma sér saman um það hvernig stjórnir þeirra eiga að vera samsettar. En þar eru þá engir kjölfestufjárfestar sem lífeyrissjóðirnir treysta. Það er þeirra hausverkur. Hins vegar eiga þeir einnig aðkomu að fyrirtækjum þar sem til staðar eru kjölfestufjárfestar og þannig hefur það til dæmis verið hjá HB Granda. Við erum með yfir 40% eign í fyrirtækinu. Áður vorum við meira að segja með meira, en seldum dálítið af hlutnum þegar fyrirtækið var skráð á markað. Það var talið nauðsynlegt til þess að skráningin myndi heppnast vel. Þeir verða að skilja að þar sem slíkir kjölfestufjárfestar eru til staðar geta þeir ekki gert tilkall til þess að ráða för, jafnvel þó að þeir fjárfesti í viðkomandi fyrirtæki. Það er þess vegna sem við erum ekkert ánægðir með það þegar þeir mæta núna á svæðið í HB Granda og ætla að fara að ráða öllu.“

Kristján segir hluthafastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna vitna um að framganga sjóðsins í aðdraganda aðalfundanna í fyrra og í ár beri þess vitni að sjóðurinn gangi fram í berhöggi við eigin hluthafastefnu.

„Þeir hafa ekki nefnt við okkur einu orði hvað þeir eru ósáttir við í starfi stjórnarinnar eða rekstri fyrirtækisins. Það sama var uppi á teningnum í fyrra þegar þeir buðu fram stjórnarmann í lífeyrissjóðnum, Birgi Bjarnason, framkvæmdastjóra Íslensku umboðssölunnar. Þar fer maður sem er í hreinni og beinni samkeppni við HB Granda á sviði fiskútflutnings. Hann dró reyndar framboð sitt til baka á síðustu stundu eftir að fundurinn var hafinn í fyrra. Það gengur ekki að slíkum aðila sé stillt upp í framboði til stjórnar fyrirtækisins. Menn geta bara einfaldlega verið óhæfir til að taka sæti í stjórn eins og þetta dæmi sýnir.

Svo kom líka Lífeyrissjóðurinn Gildi með framboð í fyrra. Þá buðu þeir fram Helgu Hlín Hákonardóttur og hún virðist ekki góður pappír. Þannig var að hún hringdi í mig rétt fyrir aðalfundinn og sagðist ætla að bjóða sig fram. Ég sagði henni einfaldlega að skila inn framboði og í því samtali sagðist hún reikna með stuðningi lífeyrissjóðanna en að hún væri á eigin vegum. Svo vildi hún hitta mig nokkrum dögum síðar og ég hitti hana á skrifstofum HB Granda. Þá var sagan allt í einu orðin sú að Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, hefði hringt í hana á föstudaginn langa og beðið hana um að bjóða sig fram. Þetta er ekki trúverðugt fólk í mínum huga. Ég myndi ekki treysta henni fyrir horn. Það er ekki hægt þegar fólk snýr svona við blaðinu eins og hendi sé veifað. Núna eru þeir svo farnir að flagga henni í VÍS og Birgir Bjarnason er kominn í stjórn Símans. Þannig að þarna virðist vera einhver hringekja af fólki sem komið er á stall hjá lífeyrissjóðunum og sem þeir virðast ætla sér að koma inn í stjórnir fyrirtækja þar sem þeir eiga hlut. Það ætla þeir sér greinilega að gera með góðu eða illu.“

Að mati Kristjáns eru stærstu lífeyrissjóðir landsins í mjög nánu samstarfi með mörg þau mál sem varða þau fyrirtæki sem þeir fjárfesta í og þurfa þeir að skýra þá stöðu nánar.

„Þeir eiga ekki að skipta sér af stjórnum þessara fyrirtækja í Kauphöllinni. Það er reyndar ekki hægt að tala um þessa sjóði í fleirtölu. Ef þú talar við þessa aðila sem stýra sjóðunum heyrir þú þá í annarri setningunni tala um „lífeyrissjóðinn“ og í hinni „lífeyrissjóðina.“ Ef þeir eru að tala um „lífeyrissjóðina“ er þetta orðin grúppa og þá eiga þeir að tilkynna sig inn til Kauphallarinnar sem einn hóp, ef ég skil reglurnar rétt. Það gera þeir hins vegar ekki. Ég er sannfærður um að þessir sjóðir starfi náið saman. Það er margt sem bendir til að þeir verji atkvæðum sínum með svipuðum hætti við stjórnarkjör og svo sitja þeir þétt saman á flestum þessara funda. Hér er að myndast grúppa og þeir eru að sýna á sér vöðvana. Þeim er alveg sama hvernig þeir fara að því. Þeir ætla einfaldlega að troða sér inn í stjórnirnar hverja á fætur annarri og meðal annars hjá okkur.

En svo ef þú lest hluthafastefnuna þeirra ætla þeir ekki að skipta sér neitt af þessu fólki sem þeir eru að troða inn í félögin. Því er alveg frjálst að gera það sem því sýnist og ef þú lest sumar þessara stefna ætla þeir að halda sér í 100 kílómetra fjarlægð. Svona akta þeir og þeir ráða ferðinni í flestum þessara félaga í Kauphöllinni en þeir eru hundfúlir yfir því að ráða ekki ferðinni í HB Granda.“

Vill stokka upp lífeyrissjóðina

Kristján segir að hið nána samstarf milli sjóðanna kalli á breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

„Nú er bara kominn tími til að skoða það að setja einn lífeyrissjóð fyrir landsmenn. Það yrði stórkostlegur sparnaður í því fyrir þá sem greiða í sjóðina. Kostnaður við yfirbyggingu myndi lækka svo um munar. Þeir eru í raun að kalla eftir þessu sjálfir eins og þeir vinna. Svo yrði stjórn kosin yfir þennan sjóð og henni settar siðareglur, punktur. Þetta yrði ansi gott, held ég. Svo í kjölfarið gætu þeir tekið glerhöllina við Laugaveg, sem við nú nefnum Kauphöll, og nefnt hana Lífeyrishöllina. Það yrði réttnefni þegar þeir verða búnir að bora sig inn í allar stjórnirnar.“

Eins og áður kom fram bárust tvö ný framboð í stjórn HB Granda á aðalfundi í fyrra. Gengið var til atkvæðagreiðslu á fundinum en nokkurt uppnám varð í miðjum fundi þegar fréttist að annar þessara tveggja frambjóðenda hefði dregið sig til baka.

„Það var augljóst að þeir ætluðu sér að rústa fundinn í fyrra með því að draga framboð Birgis Bjarnasonar til baka eftir að hann var byrjaður og kosningarnar hafnar. Þetta olli óvissu, því að kosningarnar voru að hefjast og þarna var eins og reynt væri að fipa fundarstjórann. Hann lét þó ekki slá sig út af laginu og úrskurðaði að kosningin stæði ef atkvæðamagnið sem Birgir Bjarnason fékk raskaði ekki niðurstöðunni. Það stóð svo heima, við fengum flest atkvæði, þ.e. stjórnin sem nú situr, og því var kjörið úrskurðað löglegt.

Svona fund er hins vegar hægt að kæra innan tveggja mánaða frá því að honum lýkur. Akkúrat tveimur mánuðum eftir fundinn sendi lífeyrissjóðurinn Gildi okkur bréf þar sem þeir gáfu sterklega til kynna að þeirra skoðun væri sú að fundurinn hafi verið ólöglegur. Þeir höfðu hins vegar ekki hreyft neinum andmælum á sjálfum fundinum. Við svöruðum því skilmerkilega og niðurstaðan var sú að rétt hefði verið staðið að atkvæðagreiðslunni.“

Krókur á móti bragði

Deilur um skipan stjórnarinnar hafa magnast í kjölfar væringanna á síðasta ári. Í aðdraganda aðalfundarins sem haldinn var 1. apríl síðastliðinn fór Lífeyrissjóður verslunarmanna hins vegar fram á margfeldiskosningu.

„Sá sem fer fram á margfeldiskosningu þarf að eiga 10%. Í fyrra átti LIVE 9,97% og þeir hefðu þurft að fá aðra með sér til að fara fram á margfeldiskosninguna. Það gerðu þeir hins vegar ekki. Fljótlega eftir fundinn fóru þeir upp fyrir 10% og eiga nú um 12%. Það gerði þeim kleift að kalla eftir því að atkvæðagreiðslan færi fram með þessum hætti. Danir voru að ræða þetta á sínum tíma en þeir hurfu frá þessu, meðal annars vegna þess að hluthafar gætu með þessu ákvæði komið samkeppnisaðila inn í stjórn fyrirtækis út á þessa minnihlutavernd og þar með náð upplýsingum úr rekstrinum.“

Þá segir Kristján að samskiptin við lífeyrissjóðina hafi verið lítil sem engin í aðdraganda aðalfundarins nú í ár.

„Ég hef ekkert heyrt í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið ráðleggja okkur auk þess að vera ekki í neinum sérstökum samskiptum við þessa aðila. Þeir eru hluthafar eins og aðrir og það þarf að gæta jafnræðis milli þeirra. Það eru haldnir fimm fundir á ári þar sem þeim gefst kostur á að fá upplýsingar og krítísera hlutina. Þetta gerist á uppgjörsfundunum fyrir hvern ársfjórðung og svo á aðalfundi. Á þessum fundum er hægt að koma fram með spurningar og þá heyra það allir fundarmenn og allir sitja við sama borð en að vera með einhverja prívatfundi með þessu liði úti í bæ er ekki gott. Ég skrifaði FME og Kauphöllinni bréf um þetta og ráðleggingarnar voru skýrar.“

Á aðalfundinum síðastliðinn föstudag kom stjórn fyrirtækisins mörgum á óvart þegar hún í heild sinni dró framboð sitt til baka og kom þannig í veg fyrir að hægt væri að ljúka stjórnarkjöri. Kristján hafnar því að í því hafi falist gerræðisleg vinnubrögð og hann segir að það hafi verið rétt viðbrögð og í raun tilraun til að draga hluti fram í dagsljósið sem nauðsynlegt sé að hluthafar hafi yfirsýn yfir.

„Þannig var að Lífeyrissjóður verslunarmanna sendi okkur beiðni um margfeldiskosningu þann 22. mars. Það var sjö dögum eftir að ný stjórn tók við í sjóðnum. Þegar ég hafði svo samband við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, nýjan stjórnarformann sjóðsins, kom hún alveg af fjöllum. Hún hafði ekkert heyrt um kröfuna um margfeldiskosningu, ekki einu sinni á stjórnarfundinum sem haldinn var í kjölfar þess að ný stjórn tók við. Ef framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem sendi beiðnina um margfeldiskosningu, sat þennan stjórnarfund finnst mér hann ekki merkilegur pappír. Þá hefur hann ekki upplýst stjórnina um þetta þar. Hann hefur ekki upplýst stjórnina um ákvörðun fyrri stjórnar. Það var sömuleiðis fyrri stjórn sem ákvað að styðja Önnu G. Sverrisdóttur til stjórnarsetu í HB Granda. Anna sat þá í aðalstjórn en situr nú í varastjórn lífeyrissjóðsins.

Þetta var ástæðan fyrir því að stjórnin dró framboð sitt til baka tímabundið. Við viljum einfaldlega gefa núverandi stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna tækifæri til að taka þetta til athugunar og að hún meti þetta á eigin forsendum og láti ekki einhverja skuggastjórn ákveða þetta, stjórn sem var ýtt út, meðal annars vegna þess að hún hafði staðið í svona stappi áður. Nú kann það vel að vera að hún komist að sömu niðurstöðu og fyrri stjórn; þá stendur þetta bara. Það á eftir að koma í ljós. Ef stjórnin ætlar að fylgja hluthafastefnu sinni og hún hefur ekki neinar athugasemdir við rekstur fyrirtækisins geri ég ráð fyrir því að krafan um margfeldiskosningu verði dregin til baka.“

Ekki óbilgirni í garð lífeyrissjóðanna

Kristján hafnar því að þessi framganga stjórnarinnar feli í sér óbilgirni og hann hafnar því einnig að það sé ósanngjarnt að sjóðirnir fái ekki fulltrúa í stjórn fyrirtækisins.

„Það eru engin óliðlegheit. Ef maður er kjölfestufjárfestir vill maður ráða ferðinni. Það er bara þannig. Þeir verða bara að sætta sig við það. Þó að sjóðir eigi 10 til 12% er ekki þar með sagt að aðili þurfi að kalla eftir stjórnarsæti. Þeir eru bara að þessu til að splundra þessu öllu saman því þeir eru svo óánægðir með að fá ekki að ráða ferðinni eins og í öðrum félögum sem þeir eru að fjárfesta í.

Hér áður fyrr voru lífeyrissjóðir hjá flestum verkalýðsfélögum hringinn í kringum landið. Þá var aðalslagurinn í verkalýðsfélögunum að komast í stjórn lífeyrissjóðsins, skítt með stjórnina í verkalýðsfélaginu. Þar gátu aðilar komist að til að stýra útlánum. Þá var skortur á fjármagni og lánsfé og þetta skipti miklu máli. Núna er þetta miklu sjálfvirkara og stjórnir sjóðanna eru ekkert með aðkomu að lánveitingum nema kannski í einhverjum algjörum undantekningatilvikum, er mér tjáð. En hvað eru þessar stjórnir að gera í dag hjá lífeyrissjóðunum? Ég veit það ekki, ekki nema að þær eru að leika sér í þessu sem við höfum rætt, með stjórnarsætin. Ég tek það fram að ég er ekki að gagnrýna lífeyrissjóðakerfið sem slíkt. Það hefur aldeilis sannað sig en það verður að vera einhver hemja á þessu. Það verður að halda þessu í einhverjum böndum.“

Spurður hvort hann telji að hlutir séu að fara í sama farið og forðum segir Kristján að í það minnsta sé margt áþekkt. Meira máli virðist skipta að halda stjórnarsætum í ákveðnum hópi en að velja hæfasta fólkið sem geti unnið vel saman á vettvangi stjórnanna.

„Það má segja að þetta sé að fara út í svipað kerfi og í gamla daga. Það var til dæmis þannig í Hafnarfirði að þar var bæjarútgerð. Þeir voru með útgerðarráð sem var stjórn útgerðarinnar og svo var kosið til bæjarstjórnar. Ef fylgi flokkanna breyttist og nýr meirihluti var myndaður var slegist um að komast inn í útgerðarráðið frá þeim flokkum sem tóku við. Svo sátu þessir fulltrúar í fjögur ár og gerðu hitt og þetta til að nýta í kosningabaráttunni fjórum árum síðar. Þarna vantaði algjöra kjölfestu í fyrirtækið og það er af þessum ástæðum sem það eru ekki til neinar bæjarútgerðir í dag. Með sama hætti er verið að koma tilteknu fólki á jötuna. Það sést á því að þarna eru tilteknir einstaklingar, að því er virðist í einhverri hringekju milli félaga. Það á meðal annars við um Önnu G. Sverrisdóttur, sem er nú í varastjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og hefur boðið sig fram til stjórnar hjá okkur. Það er ekki talið gott að fólk sitji í stjórn eða varastjórn lífeyrissjóðs og sé einnig í stjórnum félaga sem viðkomandi sjóður er að fjárfesta í.“

Að mati Kristjáns hafa lífeyrissjóðir sem koma inn í fyrirtæki þar sem á fleti er fyrir stór kjölfestufjárfestir önnur úrræði til að hafa áhrif en þau sem felast í því að tilnefna stjórnarmenn.

„Sjóðirnir hafa það hlutverk að fjárfesta og ef þeir eru óánægðir selja þeir einfaldlega hlutinn sinn. Það er ekki hægt að tala um að lífeyrissjóður sé kjölfestufjárfestir með 10-15% hlutafjár þar sem aðrir eiga mun meira. Það verður að vera hærra hlutfall. Dæmið í HB Granda er alveg skýrt. Kjölfestufjárfestarnir eru Vogun og Hampiðjan. Og hvað ætlar þetta fólk svo að gera? Ætlar það að koma og breyta einhverju í rekstri fyrirtækisins? Hluthafastefna sjóðanna segir að þeir ætli ekki að skipta sér af neinu en samt vilja þeir svona óskaplega mikið koma að stjórnarmönnum. Fyrst ætla þeir að koma öllu í uppnám og svo eru þeir hlaupnir. Þeir virðast ekkert tillit taka til þess, svo dæmi sé tekið, að síðasta ár var eitt allra öflugasta rekstrarár í sögu fyrirtækisins og það skilaði 6,5 milljarða hagnaði. Hefðu þeir gert betur, þessir miklu snillingar sem vilja komast inn í stjórnina?“

Gott rekstrarár og miklar fjárfestingar

Spurður út í stöðu HB Granda í dag segir Kristján að horfurnar séu góðar en fiskistofnarnir séu misjafnlega áreiðanlegir.

„Fiskeríið er gott og fiskistofnanir flestir sterkir. Það eru helst uppsjávarstofnarnir sem eru áhættusamir. Það eru síldin, loðnan, kolmunninn og makríllinn. Maður veit aldrei hvað verður með þá og það sást til dæmis með loðnuna í ár. Menn ætluðu ekki að finna hana en þegar loksins eitthvað kom gerði vitlaust veður og þá var erfitt að ná henni þegar hún var komin í hrygningarástand og hrognataka gat hafist. Það eru þessi utanaðkomandi atriði sem við ráðum ekki við. En fiskistofnar á borð við þorskinn, ýsuna, karfann og ufsann eru í góðum málum. Menn sjá nokkurn veginn fyrir að þeir nái þessum afla að landi og þeir eru stöðugir. Svo er það vandinn með Rússlandsmarkað og þá vitleysu alla. Þar er allt lokað og við vitum ekkert hvernig það fer.“

Skipafloti HB Granda telur nú 10 skip. Hið elsta þeirra var smíðað í Þýskalandi 1960 en tvö nýjustu skipin voru smíðuð í Tyrklandi í fyrra. Enn er unnið að því að yngja flotann upp og Kristján segir ýmislegt hafa ráðið för þegar ákvörðun um gríðarlega nýfjárfestingu var ákveðin.

„Við erum búin að láta smíða tvö ný uppsjávarskip, Víking RE og Venus RE, sem hafa reynst mjög vel. Það liggur mikil fjárfesting í þeim. Fjárfestingin í þessum tveimur skipum, ásamt þremur nýjum ísfisktogurum sem eru nú í smíðum hjá sömu skipasmíðastöð og smíðaði uppsjávarskipin, er upp á um það bil 14 milljarða króna. Fyrsti ísfisktogarinn, Engey RE, kemur í haust og þegar hann kemur til landsins verður settur í hann búnaður á vinnsludekkið og lestarkerfi. Sá búnaður er smíðaður af Skaganum og 3X. Áætlað er að Engey verði tilbúin til veiða í nóvember 2016. Svo kemur Akurey AK til landsins og svo Viðey RE. Ísfisktogararnir eru allir eins.

Ég er á þeirri persónulegu skoðun að ártal skipa segi ekki neitt. Það vísar til þess hvenær kjölurinn er lagður. Ef þeim er haldið vel við er allt í góðu. Mörgum skipum er einnig breytt til að laga þau að breyttum þörfum. Þannig getur 40 ára gamalt skip verið mjög gott. Nú er hins vegar að koma fram ný tækni með varmaskiptum og ýmsu til að kæla fiskinn miklu betur en áður. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að breyta gömlum skipum mikið og þarna teljum við einfaldlega rétt að stíga það skref að smíða ný skip og losa um þau elstu. Auk þess er lánsfé afar hagstætt núna. Þannig hámarkar maður betur virði aflans. Það er nú markmiðið.“