Seigir Pétur Rúnar skoraði sigurkörfuna og hér reynir Kári að verjast honum.
Seigir Pétur Rúnar skoraði sigurkörfuna og hér reynir Kári að verjast honum. — Ljósmynd/Hjalti Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Sauðárkróki Björn Björnsson sport@mbl.is Annar leikur Tindastóls og Hauka í fjögurra liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik var háspennuleikur nánast frá upphafi til enda.

Á Sauðárkróki

Björn Björnsson

sport@mbl.is

Annar leikur Tindastóls og Hauka í fjögurra liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik var háspennuleikur nánast frá upphafi til enda. 8 sekúndur voru eftir þegar Helgi Rafn stal boltanum og kom honum á Pétur Rúnar sem kom Stólunum einu stigi yfir. Haukarnir höfðu 6 sekúndur til að taka sigurinn, en gott skot sem kom beint eftir innkast rataði ekki rétta leið og heimamenn fögnuðu gífurlega frábærum baráttusigri.

Haukar byrjuðu betur

Í fyrsta hluta réðu Haukar lögum og lofum á vellinum, spiluðu sterka vörn á meðan sóknir Tindastóls voru bitlausar. Heimamenn komust svo smátt og smátt inn í leikinn og náðu að laga skorið og í síðari hluta annars leikhluta kom góður kafli hjá Tindastóli og stórir þristar gerðu það að verkum að þeir leiddu með tveim stigum í hálfleik.

Sama baráttan hélst í seinni hálfleik, jafnt hvað eftir annað og oftast tveggja til fjögurra stiga munur.

Varnarleikur beggja liða var öflugur, en hinsvegar var sóknarleikurinn oftast fremur fálmkenndur og einkenndist dálítið af misheppnuðum þriggja stiga skotum, sem þó voru fleiri hjá gestunum.

Bestu menn í liði Tindastóls voru Viðar Ágústsson og Myron Dempsey, báðir með 17 stig, en einnig átti Ingvi Rafn Ingvarsson mjög góðan leik og Helgi Rafn var öflugur í vörninni. Í liði Haukanna var Kári Jónsson með 18 stig en Mobley Brandon með 17 og Finnur Atli með 13.

„Förum suður og náum í sigur“

„Við byrjuðum illa, náðum ekki að láta boltann ganga og fá flæði í sóknina, gerðum einfaldlega ekki það sem fyrir okkur var lagt,“ sagði Ingvi Rafn Ingvason, bakvörður Tindastóls, við Morgunblaðið að leiknum loknum og bætti við:

„Við náðum þó að laga þetta nokkuð strax fyrir hálfleik, og svo kom þetta bara hægt og bítandi. Þeir vilja alveg örugglega verja heimavöllinn, en nú förum við suður og náum í þennan útisigur sem við þurfum,“ sagði Ingvi ennfremur.

„Hundsvekktur“

Morgunblaðið tók annan ungan og öflugan leikmann tali, Kára Jónsson í Haukum, og hann leyndi ekki vonbrigðum sínum.

„Ég er auðvitað hundsvekktur. Við lékum ekki þann leik sem fyrir okkur var lagt og sérstaklega ekki í síðasta leikhluta, við vissum að við máttum ekki panikera, en kannski var það eitthvað svoleiðis sem gerðist. Við komumst oft í fína stöðu til að vinna, en auðvitað gat þetta farið á hvorn veginn sem var, þetta eru svo ámóta lið, en þeir settu niður stærri körfur þegar á reyndi og því fór sem fór,“ sagði Kári um leið og hann hélt til búningsklefans en hann var stigahæstur Hafnfirðinga í gærkvöldi eins og fyrr segir.

Tindastóll – Haukar 69:68

Sauðárkrókur, undanúrslit karla, annar leikur, miðvikudag 6. apríl 2016.

Gangur leiksins : 0:4, 2:11, 11:16, 13:18 , 16:22, 22:27, 22:31, 35:33 , 41:37, 46:41, 50:49, 53:55 , 57:58, 59:59, 64:64, 69:68 .

Tindastóll : Myron Dempsey 17/11 fráköst, Viðar Ágústsson 17/6 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 13, Darrel Keith Lewis 11/4 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 7, Helgi Rafn Viggósson 4/5 fráköst/5 stoðsendingar.

Fráköst : 24 í vörn, 7 í sókn.

Haukar : Kári Jónsson 18/10 fráköst, Brandon Mobley 17/7 fráköst, Finnur Atli Magnússon 13/6 fráköst, Emil Barja 8, Haukur Óskarsson 7/4 fráköst, Hjálmar Stefánsson 3/5 fráköst, Kristinn Marinósson 2.

Fráköst : 26 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson.

*Staðan er 1:1.