[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Fram hafði betur gegn Val í uppgjöri tveggja bestu Reykjavíkurliðanna í handknattleik kvenna í gærkvöldi. Lokatölur í leik liðanna í Safamýri urðu 22:19 fyrir Fram (ekki fyrirfram) og Fram hafnaði því í 3.

Í Safamýri

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Fram hafði betur gegn Val í uppgjöri tveggja bestu Reykjavíkurliðanna í handknattleik kvenna í gærkvöldi. Lokatölur í leik liðanna í Safamýri urðu 22:19 fyrir Fram (ekki fyrirfram) og Fram hafnaði því í 3. sæti Olís-deildarinnar en Valur í 6. sæti.

Leikurinn í gær bar þess greinileg merki að mikið var undir en ljóst var að sigurliðið myndi tryggja sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Bæði lið gerðu talsvert af mistökum en það má segja að leikurinn hafi einkennst af sterkum varnarleik, mistökum og mikilli baráttu.

Fjandliðin leiddust hönd í hönd fyrstu 30 mínútur leiksins og þegar liðin hvíldu auma útlimi að fyrri hálfleik loknum höfðu gestirnir frá Hlíðarenda eins marks forskot, 11:10. Valur hóf síðari hálfleikinn eins og sært dýr. Þær virtust ætla að keyra yfir gestgjafa sína, sem voru fullgestrisnir á þessum fyrstu mínútum. Þegar 25 mínútur voru til leiksloka breyttist eitthvað. Stefán Arnarson, þjálfari Fram, tók leikhlé og eftir það var kurteisi þeirra bláklæddu á bak og burt. Þær kaffærðu andstæðinga sína og unnu síðustu 25 mínútur leiksins með átta marka mun, 12:4, og leikinn 22:19.

Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir var maður leiksins í gærkvöldi. Hún skoraði 10 mörk, öll með þrumuskotum utan af velli, þrátt fyrir að vera tekin úr umferð stóran hluta leiksins. Stundum losnaði hún úr strangri gæslu Valsara í örfáar sekúndur og þá var að ekki að spyrja að því; boltinn söng í netinu. Annars var varnarleikur Fram til mikillar fyrirmyndar nánast allan síðari hálfleikinn og það var engu líkara en múrað hefði verið fyrir markið, svo illa gekk Val að finna glufur á þéttri vörn Framara.

Sex dagar í úrslitakeppnina

Eftir leiki kvöldsins er ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Íslandsmóts kvenna en úrslitakeppnin hefst eftir sex daga. Fyrir síðustu umferðina var ljóst að deildarmeistarar Haukar mæta Fylki og liðið í 2. sæti, Grótta, mætir Selfossi. Röð liðanna í 3.-5. var óráðin en ljóst var að ÍBV myndi enda í 6. sætinu. Með sigri hefði Valur náð 3. sætinu og mætt ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Úrslit gærkvöldsins þýða hins vegar að Valur hafnar í 5. sæti og mætir Stjörnunni í 8-liða úrslitunum. Bikarmeistararnir úr Garðabænum hafa heimaleikjaréttinn, þannig að komi til oddaleiks verður hann leikinn í Mýrinni í Garðabæ. Liðin unnu sinn deildarleikinn hvort í vetur. Stjarnan burstaði Val í Garðabænum síðasta haust, 23:14. Valur hafði betur í síðari leik liðanna í lok janúar, 19:18.

Eyjakonur samt líklegri?

Fram tryggði sér 3. sætið en liðið hefur unnið Fylki, Gróttu og Val í síðustu þremur umferðum deildarinnar og kemur á miklu skriði inn í úrslitakeppnina. Að vísu hafa Eyjakonur haft betur í báðum viðureignum liðanna í vetur. Fyrst mættust Fram og ÍBV í fyrstu umferðinni, 12. september á síðasta ári. Þá sigraði ÍBV, 24:21, í Safamýrinni. Síðari leikur umræddra liða var leikinn í Vestmannaeyjum 10. janúar. Aftur sigraði ÍBV, í þetta skiptið 27:26, og Framarar eiga því harma að hefna. „Þær eru líklegri til að fara í undanúrslit, svo kemur bara í ljós hvað gerist,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, við Morgunblaðið eftir leikinn í gærkvöldi.

Fram – Valur 22:19

Framhús, Olís-deild kvenna, miðvikudag 6. apríl 2016.

Gangur leiksins : 1:2, 4:5, 7:6, 8:8, 9:9, 10:11, 10:15, 13:15, 16:16, 18:16, 20:18, 22:19 .

Mörk Fram : Ragnheiður Júlíusdóttir 10, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 4/3, Hekla Rún Ámundadóttir 3, Hulda Dagsdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Hildur Þorgeirsdóttir 1.

Varin skot : Guðrún Ósk Maríasdóttir 7, Hafdís Lilja Torfadóttir 5.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Vals: Morgan Marie Þorkelsdóttir 5, Kristín Guðmundsdóttir 5/3, Sigurlaug Rúnarsdóttir 3, Bryndís Elín Halldórsdóttir 2, Vigdís Birna Þorsteinsdóttir 2, Eva Björk Hlöðversdóttir 1, Íris Pétursdóttir Viborg 1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 13.

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson.

Áhorfendur : 210.