Kosningar Fulltrúar stjórnarandstöðunnar eru sammála um mikilvægi þess að ganga strax til kosninga.
Kosningar Fulltrúar stjórnarandstöðunnar eru sammála um mikilvægi þess að ganga strax til kosninga. — Morgunblaðið/Golli
Viðar Guðjónsson Freyr Bjarnason „Þessi niðurstaða er í samræmi við það sem maður varð áskynja í gær. En hún er ekki í samræmi við ákall þjóðarinnar. Vissulega gengur þetta ekki nógu langt í því að svara því sem fólk er að biðja um.

Viðar Guðjónsson

Freyr Bjarnason

„Þessi niðurstaða er í samræmi við það sem maður varð áskynja í gær. En hún er ekki í samræmi við ákall þjóðarinnar. Vissulega gengur þetta ekki nógu langt í því að svara því sem fólk er að biðja um. Fólk er að biðja um siðbót í stjórnmálum og ég held að það dugi ekki að færa til einstaka ráðherra til þess,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, eftir staðfestingu þess efnis að Sigurður Ingi Jóhannsson muni taka við forsætiráðuneytinu og Lilja Alfreðsdóttir verði ráðherraefni Framsóknarflokks við fráhvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Dauðastríðið hafið

„Mér sýnist það vera að staðfestast sem ég sagði í gær að dauðastríð ríkisstjórnarinnar er hafið og þau kjósa einhverra hluta vegna að framlengja það fram á haust,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. „Báðir flokkar eiga í vandræðum með að manna ráðherraembættin, því að Sjálfstæðisflokkurinn treystir ekki sínum formanni fyrir forsætisráðuneytinu. Við erum í þeirri skrítnu stöðu að flokkur sem er að mælast undir 8% í skoðanakönnunum er að fá forsætisráðuneytið í sinn hlut. Þetta er bara margþættur umboðsvandi sem við sjáum í dag,“ segir Árni Páll.

Skref í rétta átt

Fulltrúar stjórnarflokkanna funduðu með stjórnarandstöðuþingmönnum og kynntu fyrir þeim þau verk sem stefnt er að því að klára fyrir haustið. „Við teljum það skref í rétta átt að flýta kosningum en við teljum þetta ekki mæta þeirri kröfu sem við erum með. Því upplýstum við að við munum eftir sem áður leggja fram tillögu um þingrof og kosningar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Óttarr Proppé sagði fyrir tilkynningu stjórnarflokkanna að það væri ekki ásættanleg niðurstaða ef ekki yrði boðað til kosninga strax.

Óvíst að sátt náist

Eftir tilkynningu stjórnarflokkanna sagðist Óttarr efast að sátt myndi ríkja. „Staðan er skýrari en hún var í morgun. Næstu klukkutímar og næstu dagar eiga eftir að leiða í ljós hvort það er almenn sátt um þessa leið,“ segir Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurður út í stöðu mála eftir atburði kvöldsins. [Sp. blaðamanns] Telurðu að almenn sátt náist? „Eins og staðan lítur út fyrir mér í dag leyfi ég mér að efast um það. En það er mjög mikilvægt að það séu komin svör við því hvar við stöndum varðandi hvort og þá hvaða ríkisstjórn sé í landinu,“ segir Óttarr.

„Þó svo að maður heyri mjög sterkt kallað á kosningar strax er það auðvitað talsvert annað að boðað sé til kosninga snemma í haust heldur en að reyna að hanga til loka kjörtímabilsins,“ segir Óttarr.