„Ríkisráðstöskur“ Taskan sem sést til vinstri er sú sem fór í Bessastaðaferðina í fyrradag og er væntanlega keypt á árunum 2004 til 2005. Þá er sú svarta flugstjórataskan sem áður var í notkun.
„Ríkisráðstöskur“ Taskan sem sést til vinstri er sú sem fór í Bessastaðaferðina í fyrradag og er væntanlega keypt á árunum 2004 til 2005. Þá er sú svarta flugstjórataskan sem áður var í notkun. — Ljósmynd/forsætisráðuneytið
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ekki er til nein sérstök taska í forsætisráðuneytinu sem gengur undir heitinu „ríkisráðstaska“.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ekki er til nein sérstök taska í forsætisráðuneytinu sem gengur undir heitinu „ríkisráðstaska“. Samkvæmt upplýsingum fyrrverandi og núverandi embættismanna er allur gangur á því hvernig skjöl hafa verið borin til forseta til undirritunar. Þannig var lengi vel notast við pappakassa.

„Ekki er til sérstök taska í forsætisráðuneytinu sem merkt er eða einkennd sem „ríkisráðstaska““, segir í svari Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra og ritara ríkisráðs, í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. Tilefnið var að kanna sögu og hefðir í tengslum við skjalatösku sem embættismenn ráðuneytisins höfðu með á Bessastaði þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hugðist leggja fram beiðni um þingrofsheimild.

Gerði töskuna landsfræga

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gerði skjalatöskuna landsfræga þegar hann nefndi komu embættismanna úr ráðuneytinu með þingrofsskjölin í „ríkisráðstöskunni“ sem viðbótarrök fyrir máli sínu eftir að ráðuneytið kom með aðra frásögn af efni fundarins með forsætisráðherra en hann hafði sjálfur sagt á fundi með blaðamamönnum.

Hann sagði Morgunblaðinu að embættismennirnir, það er að segja Ragnhildur og Ágúst Geir Ágústsson skrifstofustjóri, hefðu beðið frammi í eldhúsi með þingrofsskjölin til undirritunar. Jafnframt sagði hann að það væri ekki venjulegt að embættismenn kæmu með forsætisráðherra til slíks fundar með forseta, hvað þá heldur skjölin og skjalataska ríkisráðsins.

Þótt ekki sé til skjalataska sérstaklega merkt ríkisráði eru í ráðuneytinu tvær skjalatöskur sem meðal annars eru notaðar til að bera skjöl til undirritunar hjá forseta, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins. Forsætisráðuneytið sendi Morgunblaðinu meðfylgjandi mynd af þeim.

Óvirðuleg flugstjórataska

Ragnhildur hefur kannað óformlega hvaða töskur þeir embættismenn sem haldið hafa utan um gögn ríkisráðsins hafa notað. Einn sem lengi gegndi þessu hlutverki, segist í svari til ráðuneytisstjórans lengst af hafa notast við pappakassa fyrir endurstaðfestingartillögur. Fékk hann þó að lokum svarta flugstjóratösku úr plasti. Tók fram að hún hafi ekki verið virðuleg. Hann bætir því við að eftirmaður hans í þessum starfa hafi snarlega bætt úr þessu og fengið sér viðeigandi leðurtuðru undir skjölin.

Sá síðarnefndi staðfestir það og segist hafa fengið heimild til að kaupa þessa virðulegu tösku í fyrri tíð sinni í forsætisráðuneytinu, á árunum 2004 til 2006. „Að hún skyldi verða leikandi á stjórnmálasviðinu 10 árum seinna átti ég ekki endilega von á,“ skrifar hann í svari við fyrirspurn ráðuneytisins.