Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Eftir Einar S. Hálfdánarson: "Nú þarf kosningar að kröfu „þjóðarinnar“ sem hefur víst eitthvað meira um það að segja en við hin sem erum bara óbreyttir kjósendur."

Formaður Samfylkingar hefur í félagi við aðra stjórnarandstæðinga beitt sér fyrir afsögn forsætisráðherra vegna meintra yfirsjóna. Nú hefur hann sagt af sér, en þá kemur hinn raunverulegi tilgangur fram í dagsljósið.

Býr Samfylkingin í glerhúsi?

Nú þarf kosningar að kröfu „þjóðarinnar“ sem hefur víst eitthvað meira um það að segja en við hin sem erum bara óbreyttir kjósendur. Stjórnin á að fara frá hvað sem líður kosningum, þingmeirihluta og stjórnarskrá. Stjórnin og þingmeirihlutinn eru nefnilega sek um að hafa setið í sömu stjórn og stutt ráðherrann.

Stjórnarandstæðingar hafa uppnefnt forsætisráðherra „prins skattaskjólanna“. Sé það svo er samstjórnarmaður Árna Páls, gjaldkerinn í Samfylkingunni, væntanlega réttnefndur konungur skattaskjólanna. Þess vegna gat hann komið með „erlenda“ fjárfestingu í gagnaver til Íslands ásamt Björgólfi Thor viðskiptafélaga sínum, að vísu með ríkisstyrk sem Samfylkingin átti að sjá um. Hvaða ráðherra samþykkti fjárfestingu aflandsfélaga með ríkisfyrirgreiðslu teldist víða áhugavert mál. Allt þetta hafa allir vitað gjörla um langa hríð. Líka Árni Páll, allir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og stjórn hennar svo og Helgi Seljan. Vilja þau öll ekki bara sýna „gott fordæmi“ eða þannig og segja af sér?

Freistingar í aðdraganda formannskjörs

Panamaskjölin komu líkt og manna og hafa virst formanninum sem sending frá himnum. Þarna kom eina vonin; kosningar, Framsókn í sárum og kjörfylgið getur varla versnað. Bakstungurnar innanflokks á brott um sinn og loksins a.m.k. von. En við prestsson sem í seinni tíð hefur tekið upp á að draga dám af málverkum af Símoni Pétri í útliti vil ég segja: Hirt aldrei, hvað sem gildir, að hætta á ósatt mál.

Höfundur er löggiltur endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður.