Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Ég tel að við eigum að ræða með opinskáum og yfirveguðum hætti hvernig við teljum eignarhaldi Landsnets best fyrir komið til lengri tíma,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vorfundi Landsntes í vikunni. Vitnaði hún þar til skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér sl. haust um hlutverk, eignarhald og áætlanir Landsnets.

Landsnet er í dag að stærstum hluta í eigu Landsvirkjunar, eða 65%. Rarik á 22%, Orkuveita Reykjavíkur 7% og Orkubú Vestfjarða 6%. Samkvæmt gildandi lögum geta þessir eigendur aðeins selt hlutina sín á milli.

Ragnheiður Elín vitnaði til umræðunnar um hvort skynsamlegt kynni að vera að gera breytingar á eignarhaldinu. Bent hefði verið á það að til lengri tíma væri það að vissu leyti óheppilegt að Landsnet væri í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna.

„Ég er sammála Ríkisendurskoðun um að mikilvægt sé að efla og tryggja sjálfstæði Landsnets og tel því rétt að við skoðum vandlega allar leiðir í því skyni. Að sama skapi þurfum við að gæta okkar og rasa ekki um ráð fram við lagabreytingar enda miklir hagsmunir í húfi, bæði hjá flutningsfyrirtækinu sem og eigendum þess,“ sagði ráðherra m.a.

Eigendur vilja selja

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets, kom einnig inn á eignarhaldið í sínu erindi. Hann taldi bæði æskilegt og nauðsynlegt að komast að niðurstöðu um eignarhaldið. Fyrir lægi að hluti núverandi eigenda vildi losa um hlut sinn, núverandi eignarhald ylli tortryggni á meðal viðskiptavina Landsnets. Lagði Geir m.a. til að núverandi hluthöfum yrði sköpuð tækifæri til að selja ríkinu, sveitarfélögum eða fjárfestum hluti sína en tryggja þyrfti áfram meirihlutaeign hins opinbera.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, var einnig meðal fyrirlesara á vorfundinum. Hann sagði útgerðina hafa náð miklum árangri í hagræðingu og orkusparnaði. Fiskiskipaflotinn væri að yngjast, veiðarfæri að þróast og nýir orkugjafar að taka við, þó að þeir svöruðu ekki allri þörfinni í dag.

Kolbeinn sagði nauðsynlegt að koma því þannig fyrir, í samráði við sveitarfélög, Landsnet og fleiri, að við hafnir landsins geti skip verið keyrð með rafmagni í stað olíu. Kolbeinn kom einnig inn á stöðu fiskimjölsverksmiðja en af 11 starfandi verksmiðjum geta sjö gengið eingöngu á rafmagni. Olíunotkun hefði stórlega minnkað, væri núna 15 lítrar á hvert framleitt tonn en hefði verið 40 lítrar fyrir um tíu árum.

Hins vegar væri afhendingaröryggi raforku ótryggt og næg raforka sums staðar ekki fyrir hendi, t.d. í Eyjum og á Þórshöfn. Ekki væri heldur næg raforka á Akranesi til að keyra verksmiðjuna þar á fullu. Staðan á Vestfjörðum væri heldur ekki góð.