Það var fjörugt á leirnum á þriðjudaginn – og byrjaði raunar um nóttina með þeim ummælum Ingólfs Ómars að sér þætti nóg komið af þessari umræðu um skattaskjól – því ætlaði hann sér að slá á létta strengi: Bragahörpu þenja þarf þjál er tungan...

Það var fjörugt á leirnum á þriðjudaginn – og byrjaði raunar um nóttina með þeim ummælum Ingólfs Ómars að sér þætti nóg komið af þessari umræðu um skattaskjól – því ætlaði hann sér að slá á létta strengi:

Bragahörpu þenja þarf

þjál er tungan skýra.

Vísan góða geymir arf

gull og speki dýra.

Bragaharpan hljómaþýð

hýrgar glóð í muna.

Enda hef ég alla tíð

elskað ferskeytluna.

„Mál að linni,“ sagði Ármann Þorgrímsson og:

Uppálagt í æsku var

enn það gamall maður kann

Um að vanda alls staðar

en aldrei sparka í fallinn mann.

Davíð Hjálmar Haraldsson sló síðan á létta strengi:

Sumarið nálgast með brosandi barni,

brátt gróa kalsár og mein.

Sólin er vígreif og sækir að hjarni,

selurinn mókir á hlein.

Lóan er komin til landsins – og Bjarni.

Undir hádegi lét Sigmundur Benediktsson heyra í sér. „Gerast menn nú árrisulir,“ sagði hann og kallaði „prufuleirbunu“:

Einn um grímu yrkja kann

allt þá stímað getur.

Fyrir skímu færði hann

fjörlegt rím í letur.

Stoltið létt í braginn bar

beitti nettum funa.

Orða fléttu ötull þar

orti glettnum muna.

Allur vandi eyðist burt

orð í standi hljóma.

Stefið blandar óðar urt

utan grands og dróma.

Ýmsu sótt skal orka frá

í sem fljótt nær krauma.

Sumum nóttin ylfrjó á

yndisgnótt og drauma.

Ingólfur Ómar þakkaði Sigmundi vísurnar:

Strengir ljóða hljóma hátt

hýrgar glóðin muna.

Drengir fróðir kyrja kátt

kvæðum góðum una.

Léttir geðið ljóðamál

löngum seður gaman.

Vekur gleði vísan þjál

við ef kveðum saman.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is