Enn er tekist á fyrir dómstólum í eftirleik bankaáfallsins árið 2008.
Enn er tekist á fyrir dómstólum í eftirleik bankaáfallsins árið 2008. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fjármál Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Lánasjóðs sveitarfélaga á hendur slitabúi Glitnis að fjárhæð 6,7 milljarðar króna. Þess í stað fær sjóðurinn viðurkennda almenna kröfu í búið að fjárhæð ríflega 888 milljónir króna.

Fjármál Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Lánasjóðs sveitarfélaga á hendur slitabúi Glitnis að fjárhæð 6,7 milljarðar króna. Þess í stað fær sjóðurinn viðurkennda almenna kröfu í búið að fjárhæð ríflega 888 milljónir króna. Var Lánasjóðurinn sömuleiðis dæmdur til að greiða slitabúinu 1,5 milljónir króna í málskostnað.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, segir að sjóðurinn hafi talið nauðsynlegt að fá niðurstöðu í ágreining við slitabúið fyrir dómstólum og að ágreiningur hafi verið uppi um hversu há krafa sjóðsins á hendur því ætti að vera.

„Fyrir hrun tók lánasjóðurinn erlend lán og gerði gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning við Glitni banka til að breyta yfir í krónur. Þegar Glitnir fór í þrot þá skulduðum við evrur og skuldarar okkar skulduðu okkur krónur. Við afskrifuðum rúmlega 1.400 milljónir króna vegna þessa og færðum kröfuna niður í núll. Síðan þá höfum við staðið í ágreiningi við slitastjórnina um uppgjörið á þessum samningum.“

Óttar segir einnig að stjórn sjóðsins muni koma saman á föstudag og þar verði tekin afstaða til þess hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar eða ekki.

Standi niðurstaða héraðsdóms mun Lánasjóður sveitarfélaga fá um 300 milljónir króna upp í kröfu sína á hendur Glitni eða sem nemur um 40% af lýstri og viðurkenndri kröfu.