Það verður fróðlegt fyrir kröfuhafa, sem nú hafa glatað kröfuréttindum sínum á hendur gjaldþrota einstaklingum vegna fyrningar, að skoða lista yfir eigendur aflandsfélaga sem á næstu dögum eða vikum munu líta dagsins ljós í fjölmiðlum.

Undanfarnar vikur hefur lítið verið rætt um annað en aflandsfélög en þessi félög eiga það sameiginlegt að eignarhald á þeim er ekki skráð með neinum hætti á Íslandi. Íslensk félög senda inn hlutafjármiða til skattsins, sem sjálfkrafa færir hlutinn inn á framtal viðkomandi hluthafa. Þegar erlend félög eiga í hlut, er það undir viðkomandi framteljanda (hluthafa) komið að gæta þess að hluturinn sé færður réttilega inn á framtalið.

Eignarhald á aflandsfélögum er ekki nýtt af nálinni hér á landi en umfangið er líklegast meira en flestir gerðu sér grein fyrir. Í Kastljósþætti hinn 3. apríl síðastliðinn kom fram að um 600 íslenskir aðilar tengdust aflandsfélögum sem verður að teljast talsverður fjöldi. Svo virðist vera að við megum eiga von á því að fjölmiðlar upplýsi um þessi tengsl á næstu vikum.

Undanfarin ár hefur borið á því að einstaklingar, sem áður töldust auðmenn, hafa haldið því fram að þeir séu uppiskroppa með fé eða hafa jafnvel verið teknir til gjaldþrotaskipta sem leitt hafi til þess að takmarkað af eignum fannst í búum þeirra. Hafa kröfur á þessa aðila því verið afskrifaðar í stórum stíl eða fallið niður af öðrum ástæðum.

Meginreglan í íslenskum gjaldþrotaskiptarétti er sú að ef eignir gjaldþrota einstaklings finnast eftir að gjaldþroti viðkomandi hefur lokið eru skiptin tekin upp og eignirnar greiddar út til kröfuhafa. Í desember 2010 var gerð breyting á gjaldþrotaskiptalögum nr. 21/1991 þar sem mælt var fyrir um að allar kröfur á hendur þrotamanni fyrndust á tveimur árum frá skiptalokum. Töldu margir á þessum tíma að tvö ár væru of skammur fyrningartími og í umræðunni fór einnig fyrir því sjónarmiði að fjársterkir einstaklingar gætu skotið eignum undan og kröfuhafar hefðu takmörkuð úrræði þegar svo bæri undir.

Fyrningu þessara krafna verður aðeins slitið með því að kröfuhafi höfði, innan tveggja ára, mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu getur dómstóll aðeins veitt ef kröfuhafi sýnir fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta fyrningu, svo og að líkur megi telja á að hann fái kröfu sína greidda á nýjum fyrningartíma. Að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar.

Það verður fróðlegt fyrir kröfuhafa, sem nú hafa glatað kröfuréttindum sínum á hendur gjaldþrota einstaklingum vegna fyrningar, að skoða lista yfir eigendur aflandsfélaga sem á næstu dögum eða vikum munu líta dagsins ljós í fjölmiðlum. Mig grunar að einhverjir þessara kröfuhafa muni sjá á eftir kröfum sínum og hugsa Alþingi þegjandi þörfina fyrir að hafa ekki tekið á slíkum undanskotum þegar löggjöfinni var breytt árið 2010.

Upplýsingar næstu daga eða vikna gætu gefið Alþingi tilefni til þess að huga að breytingum á lögum um fyrningu krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Þannig mætti lengja verulega í fyrningunni þegar sýnt þykir að gjaldþrota einstaklingur eða lögaðili hefur vísvitandi haldið eignum leyndum frá skiptastjóra og kröfuhöfum sínum í þeim tilgangi að koma þeim undan skiptum. Þannig mætti koma í veg fyrir að einstaklingar snúi sér aftur að eigum sínum erlendis þegar kröfur á hendur þeim hafa fyrnst. Þótt slíkar lagabreytingar yrðu ekki afturvirkar þá gætu þær komið í veg fyrir undanskot eigna í framtíðinni.