Vinnufélögum Harðar í Singapúr fannst hann sláandi líkur Daniel Craig. „Líklega er það vegna þess að þeim finnst flestir ljóshærðir Evrópubúar líta svipað út.“ Eins og Craig leggur Hörður stöku sinnum leið sína í ræktina.
Vinnufélögum Harðar í Singapúr fannst hann sláandi líkur Daniel Craig. „Líklega er það vegna þess að þeim finnst flestir ljóshærðir Evrópubúar líta svipað út.“ Eins og Craig leggur Hörður stöku sinnum leið sína í ræktina. — Morgunblaðið/Golli
Þróunin er heldur betur hröð í ferðaþjónustugeiranum. Þarf að vinna markvisst og allir að leggjast á eitt, svo að sinna megi með sóma þeim fjölda ferðamanna sem heimsækja landið.

Þróunin er heldur betur hröð í ferðaþjónustugeiranum. Þarf að vinna markvisst og allir að leggjast á eitt, svo að sinna megi með sóma þeim fjölda ferðamanna sem heimsækja landið. Mitt í hringiðunni er Hörður Þórhallsson sem nýlega tók við stýrinu hjá Stjórnstöð ferðamála.

Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Mörg stór verkefni en lítill tími og mikil óþreyja.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég sótti Ferðaþjónustudaginn á vegum SAF í mars síðastliðnum og tók þátt í pallborðsumræðum. Fín dagskrá og greinilega mikill drifkraftur í greininni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Almennt er ég tortrygginn gagnvart bókum sem eiga að vera töfralausnir í stjórnun og viðskiptum. Ef þessar bækur virka, hvers vegna eru þá höfundarnir sjálfir ekki fyrir löngu orðnir heimsfrægir stjórnendur og viðskiptamógúlar? Það sem hefur haft áhrif á hvernig ég starfa í dag eru fyrst og fremst nokkrir framúrskarandi einstaklingar sem ég hef verið svo heppinn að hafa starfað með í gegnum tíðina og lærdómurinn af því að hafa tekist á við áskoranir og ólíkar aðstæður.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Daniel Craig! Fyrrverandi vinnufélögum mínum í Asíu finnst ég vera líkur honum; sem er skondið og hefur vonandi ekki neikvæð áhrif á leiklistarferil hans. Líklega er það vegna þess að þeim finnst flestir ljóshærðir Evrópubúar líta svipað út.

Hvernig heldurðu við þekkingu þinni?

Í þessu starfi skiptir mestu máli fyrir mig að hlusta því ég umgengst svo marga sem eru hoknir af reynslu og geta miðlað af þekkingu sinni.

Hugsarðu vel um líkamann?

Gæti hugsað betur um hann. Ég skokka, hjóla og legg stöku sinnum leið mína í ræktina.

Ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa, hvert væri draumastarfið?

Vera minn eigin herra, þar sem í því felst frelsi og öðruvísi áskorun en að vinna fyrir aðra.

Ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu, hvað myndirðu læra?

Upphaflega var ég að gæla við að fara í sagnfræði en móður minni, sem er afar praktísk kona, tókst að sannfæra mig um að fara í verkfræði. Ég sé ekki eftir því en væri enn til í að fara í sagnfræði eða önnur húmanísk fræði til að víkka sjóndeildarhringinn.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Sambland af ýmsu. Ég sæki andlega endurnæringu í fjölskylduna og vini og innblásturinn kemur sjálfkrafa þegar maður vinnur með drífandi fólki að áhugasömum verkefnum.

Ef þú værir einráður í einn dag, hvaða lögum myndirðu breyta?

Afnema gjaldeyrishöftin.