Sigurður Jónas Guðmundsson fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1979. Hann lést 4. apríl 2016.

Hann var einkasonur hjónanna Guðmundar Hálfdanarsonar prófessors, f. 1956, og Þórunnar Sigurðardóttur bókmenntafræðings, f. 1954.

Sigurður ólst upp í Reykjavík til þriggja ára aldurs en flutti þá með foreldrum sínum til Íþöku, lítils háskólabæjar í New York-fylki Bandaríkjanna, þar sem þau bjuggu, með viðkomu á Seltjarnarnesi á árunum 1985-1987, til haustsins 1990. Þá dvaldi fjölskyldan eitt ár í París áður en þau fluttu aftur til Reykjavíkur haustið 1991. Sigurður var eitt ár í Selásskóla og þrjú ár í Árbæjarskóla. Stúdentsprófi lauk hann frá Menntaskólanum í Hamrahlíð. Sigurður vann lengi eftir stúdentspróf hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP en síðastliðin þrjú ár var hann tæknilegur ráðgjafi hjá Sigma bókhalds- og ráðgjafarþjónustu, auk þess að vinna við heimasíðugerð.

Sigurður verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 14. apríl 2016, klukkan 15.

Í dag kveðjum við elskulegan frænda okkar og dótturson, Sigurð Jónas Guðmundsson, með söknuði í hjarta.

Hvenær við deyjum er ekki fyrirsjáanlegt, en við lítum vanalega langt fram í óþekktan tíma, sérstaklega með svo ungan mann sem Sigga okkar og gerir það því erfiðara að hugsa til þess að við höfum hann ekki lengur hjá okkur. Hann var okkur öllum svo kær, svo sérstaklega vel greindur, myndarlegur, einstaklega góðhjartaður og hjálpsamur öllum. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með honum. Við munum ávallt geyma minningar um hann í hjarta okkar.

Hann var elskulegur ömmudrengur, ávallt litli frændi okkar móðursystkina.

Stóri, góði frændi hans Atle, og besti vinur, frændi og bróðir Carltons Hlyns. Við söknum hans meira en orð fá lýst.

Þér kæra sendir kveðju

með kvöldstjörnunni blá.

Það hjarta, sem þú átt en sem

er svo langt þér frá,

þar mætast okkar augu

þótt ei oftar sjáumst hér,

ó, guð minn ávallt gæti þín,

ég gleymi aldrei þér.

(Söderberg)

Hvíl í friði, Siggi okkar.

Þín amma, móðursystkini og frændur,

Sveinbjörg Helgadóttir,

Helgi Jónas Sigurðsson,

Guðrún Sigurðardóttir,

Sigurrós Sigurðardóttir,

Carlton Hlynur Keyser,

Atle Guðbjörn Sand,

William Keyser,

Torbjørn Sand.

Það er vor í lofti, birtir og hlýnar með hverjum degi sem líður. En allt í einu dimmir og kólnar. Sonur minn og tengdadóttir komu til að segja mér lát einkasonar síns. „Nei“ var eina orðið sem ég gat sagt og síðan: „Af hverju?“ Fæðingu hans fylgdi mikil gleði hjá foreldrum og afa og ömmu, barnabarn númer tvö. Hann ólst upp við ást og öryggi, glókollurinn með brúnu augun sín. Þau bjuggu erlendis um nokkurra ára skeið til að ljúka námi. Hann var að verða unglingur þegar þau fluttu aftur heim.

Siggi var mjög efnilegt barn. Kornungur skrifaði hann heilu sögurnar og þegar þau komu með hann í heimsókn á sumrin sátum við oft löngum stundum saman og teiknuðum alls konar sögur. Mínar voru aðallega saklausir sveitabæir og búsmali, hans allmiklu tæknivæddari. Mitt aðalstarf var að kenna unglingum og því grunaði mig fljótt að eitthvað væri að. Ég þekkti einelti af eigin raun og síðar kynntist ég því í minni kennslu. Ég vissi líka að flestir komast í gegnum það tiltölulega óskemmdir, en þó ekki allir. Við tóku mörg erfið ár, full örvæntingar og þjáninga, öðru hverju birti til og þá leyfðum við okkur að vona. Nú er hans þjáningum lokið. Eftir situr sár sorg sem við ættingjar hans og vinir verðum að vinna úr. Okkar eina huggun er að hann sé nú á betri stað og þjáist ekki lengur.

Anna Margrét Jafetsdóttir.

Það er sárt að skrifa minningarorð um Sigga sem var einkabarn Guðmundar bróður og Þórunnar mágkonu. Hann var fallegur drengur með ljósa lokka og brún augu.

Þau bjuggu lengi erlendis og heimsótti ég þau tvisvar. Það voru góðar ferðir þar sem ég var meira eins og stóra systir Sigga en litla systir Guðmundar. Okkur kom vel saman og tók ég þátt í He-man leik með honum, sem hann elskaði, þótt mér þætti skemmtilegra að fara með honum í fótbolta. Siggi var mikið krútt og dálítið smámæltur og fannst mér frekar skondið þegar hann tilkynnti að hann héti Siggi og væri alveg sjúkur í sælgæti. Hann var stoltur af því að eiga s þótt honum þætti erfitt að segja það en hann var ánægður með að afarnir hans ættu líka s, bæði afi Sigurður sem var látinn þegar hann fæddist en líka afi Soldán, sem hét reyndar Hálfdán, en hver getur sagt það? Þó að Siggi hafi verið krútt og oftast alveg yndislegur þá kom samt fyrir að hann væri skammaður og notuðu foreldrarnir þá fullt nafn á hann, eða Sigurður Jónas, en ekki bara Sigga nafnið. Það var því ekki skrítið að þegar Siggi var ósáttur við föður sinn og fannst hann þurfa að skamma hann þá heyrðist mjög ákveðið í honum: „Pabbi Jónas.“ Hann hélt greinilega að Jónasar nafnið væri bara skammaryrði. Þau fluttu heim þegar hann var 11 ára en reyndist það honum erfitt og fékk hann ekki góðar móttökur í skólanum. Hann varð fljótt fyrir einelti og náði aldrei almennilegri fótfestu með skólafélögunum. Þessar óblíðu móttökur urðu til þess að hann var alltaf óöruggur með sig og fannst hann ekki mikils virði. Það er skelfilegt að hugsa til þess hve illa einelti getur leikið fólk og fylgt því alla leið í lífinu og jafnvel gert það að verkum að fólki finnist það ekki þess verðugt að lifa. Hin seinni ár var Siggi ýmist í vinnu eða skóla og stóð sig vel í því sem hann hafði áhuga á, enda var hann vel gefinn. Siggi var efnilegur hlaupari og var á tíma í úrvalshóp unglinga í frjálsum. Hann hætti hins vegar í þeim, enda fannst honum erfitt að vera mikið innan um aðra. Ég var mjög ánægð fyrir nokkrum árum þegar hann dró aftur fram hlaupaskóna og fór með okkur Hilmari á nokkrar hlaupaæfingar í hlaupahópnum okkar. Hann treysti sér svo ekki til þess eftir nokkrar æfingar og sagði við mig: „Dóra, ég er félagsfælinn og þá er dálítið fáránlegt að vera í hlaupahóp.“ Þó að Siggi hafi hvorki átt maka né barn átti hann bestu foreldra sem hægt er að hugsa sér og veittu þau honum takmarkalausa ást, umhyggju og stuðning. Hann átti einnig ömmur sem munu sakna hans sárt og frændfólk sem situr eftir með sárt ennið og get ég ekki bægt þeirri hugsun frá mér að ég vildi að ég hefði vitað að honum liði þetta illa. Kannski hefði ég verið duglegri að bjóða aðstoð og sjá hvort hægt væri að gera eitthvað til að hjálpa honum að líða betur. Þetta eru spurningar sem engin rétt svör eru til við en þörf áminning út í lífið. Elsku Guðmundur og Þórunn, hugur okkar er hjá ykkur. Ég veit að afarnir taka vel á móti honum Sigga sínum og vona ég að honum líði betur núna.

Halldóra Hálfdánardóttir.

Það að kveðja barnið sitt í hinsta sinn er nokkuð sem ekkert foreldri ætti að þurfa að upplifa líkt og bróðir minn, Guðmundur, og Þórunn mágkona mín þurfa nú að gera. Einkasonur þeirra, Sigurður Jónas, kvaddi okkur mánudaginn 4. apríl aðeins 37 ára gamall.

Fyrir okkur, sem glímum ekki við þau veikindi sem Siggi er búinn að berjast við allt frá unglingsárunum, er ekki hægt að setja sig í hans spor, að líða svo illa að geta ekki lifað lengur.

Ég man enn hversu stoltur Guðmundur bróðir var þegar hann hringdi heim í mömmu og pabba og tilkynnti fæðingu drengsins þann 20. febrúar 1979 og fékk hann nafn móðurafa síns, Sigurður Jónas. Fljótlega kom í ljós að Siggi hafði erft fallega ljósa hárið og brúnu augun frá mömmu sinni og fallega brosið hans pabba síns og síðast en ekki síst þá var hann sjúkur í sælgæti eins og – ég nefni engin nöfn. En hann sagði það á sinn skemmtilega essmælta hátt sem hvorki ömmur né frænkur stóðust og auðvitað fékk drengurinn eins mikið sælgæti og hann gat í sig látið.

Sumarið 1980 dvaldi ég í nokkrar vikur með Guðmundi, Þórunni og Sigga í Bandaríkjunum og það var frábær tími. Að vísu fannst mér alveg óþarft af honum að nota sama orðið yfir Gúna og kúka því ég vildi helst forða mér sem lengst í burtu þegar kom að kúkableyjum en vera sem næst þegar hann vildi knúsa mig.

Næsta áratug bjuggu þau meira og minna í háskólabænum Íþöku í Bandaríkjunum og þegar Guðmundur lauk doktorsnámi 1991 fluttu þau til Parísar og voru þar í eitt ár. Ég heimsótti þau þangað en þá var Siggi orðinn tólf ára gamall og áttum þar góða daga saman. Eitt af því eftirminnilegasta úr ferðinni er þegar verðirnir í Lúxemborgargarðinum hótuðu okkur Sigga öllu illu þegar við lágum í grasinu með afvelta dúfum sem aldrei áður höfðu fengið eins mikið af baguette á einu bretti. Því við Siggi deildum óendanlegri ást á dýrum og þá ekki síst hundum. Eftir að Siggi fór í Kruger-þjóðgarðinn í Suður-Afríku með foreldrum sínum þá gátum við talað endalaust um það sem afrískir þjóðgarðar hafa upp á að bjóða en ég hafði nokkrum árum áður farið með Davíð syni mínum í Masai Mara-þjóðgarðinn í Kenýa og heilluðumst við mæðgin, líkt og Siggi, af allri þeirri flóru sem þar er að finna.

Eftir að Siggi lauk námi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vann hann lengi hjá CCP auk þess að stunda nám við Háskóla Íslands um tíma.

Hugarafl hefur reynst Sigga vel síðustu ár og eignaðist hann þar góða félaga sem þekktu þau vandamál sem hann glímdi við og veittu honum ómetanlegan stuðning í baráttunni sem hann því miður tapaði að lokum.

Elsku Guðmundur og Þórunn – vonandi tekst okkur fjölskyldunni að vera ykkur sá stuðningur sem þið þurfið á að halda. Það er okkar að halda nafni Sigurðar Jónasar á lofti og minnast með þakklæti yndislegra stunda sem við áttum með honum.

Guðmundur og Þórunn, við Sigurður Árni sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Hvíl í friði, elsku frændi.

Guðrún Hálfdánardóttir.

Fréttir af andláti Sigga frænda komu okkur í opna skjöldu.

Við minnumst Ameríkuferðarinnar 1988 þar sem við fjölskyldan heimsóttum ykkur í Íþöku og áttum yndislegan tíma saman. Við vorum krakkar og spiluðum fótbolta, borðuðum ís og lékum okkur áhyggjulaus. Fórum í ævintýraferðir eins og þegar við sátum í brennheitum bílnum á plastsætum sem bókstaflega brenndu á okkur lærin í steikjandi hitanum. Það var mikið hlegið eftir á, alla vega þegar það kviknaði í vélinni á bílnum ykkar og óðagot greip um sig þar sem pabbi þinn reyndi meðal annars að spýta á vélina til að kæla hana. Sem betur fer stoppaði annar bíll og þau voru með hálfbráðna klaka í poka svo það tókst að slökkva.

Árin liðu og við urðum fullorðin. Við hittumst ekki oft, í einstaka fjölskylduboðum og alltaf á gamlárskvöld þegar stórfjölskyldan kom saman. Þegar við hittumst áttum við alltaf notalegt spjall. Þó svo sambandið væri lítið var sterkur þráður og væntumþykja á milli okkar og við gátum alltaf kjaftað og fundið okkur flöt á hinum ýmsu málum.

Eftir að Siggi keypti sér íbúð á Bergþórugötunni bauð hann okkur í heimsókn og hann og Carlton frændi hans tóku vel á móti okkur. Við kjöftuðum, borðuðum og fórum í tölvuleik og áttum virkilega huggulega kvöldstund.

Þarna voru Allan og Jonas, eiginmenn okkar systra, komnir til sögunnar og þú varst alltaf til í spjall við þá líka. Það brást eiginlega ekki á gamlárskvöld að Siggi, Allan og stundum Carlton voru búnir að draga sig út í horn þar sem var talað um heima og geima á ensku.

Þú varst hjartahlýr, einlægur og barngóður og bæði með skoðanir og pælingar um börn og uppeldi sem voru áhugaverðar. Þú sýndir börnum okkar systra ávallt hlýju og áhuga enda blíður með eindæmum.

Elsku Guðmundur og Þórunn, sorg ykkar er mikil en minningin um góðan dreng lifir.

Elsku frændi, hvíl í friði.

Þín frændsystkini,

Hulda Margrét, Guðrún

og Guðmundur Sigurður Rútsbörn og fjölskyldur.

Elsku Tóta og Guðmundur.

Missir ykkar er mikill og hugur okkar er hjá ykkur á þessari erfiðu stundu. Við minnumst Sigga sem ljúfs drengs sem lék sér við börnin okkar, enda voru þau á svipuðum aldri. Við eigum góðar minningar um samveru með Sigga í Íþöku og París á námsárunum.

Lífið fer ekki jafn mjúkum höndum um okkur öll. Siggi háði sína baráttu eins og margir aðrir, en hann var heppinn með foreldra sem stóðu eins og klettar við hlið hans og hjálpuðu honum á alla lund.

Okkur langar til að senda ykkur lítið fallegt ljóð í minningu Sigga sem nú hefur kvatt þessa jarðvist.

Ferðalag

vatn

blóm

og hvítur himinn

fjarlægir

tónar

tréflautunnar

eins og í upphafi

þegar regnið

fellur

verður aftur

friður

á ferð

minni

inn í grænan

óendanleikann

(Ferdinand Jónsson)

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar sem nú hefur misst sinn einkason. Guð veri með ykkur.

Ásta, Margrét og Geir.

Með trega pára ég nokkur kveðjuorð til þín, elsku Siggi. Ég man daginn vel sem við hittumst fyrst og okkur varð mjög fljótt vel til vina, þó ólíkir værum. Þú varst ný fluttur „heim“ frá Frakklandi og komst nýr inn í bekkinn okkar. Fljótlega vorum við farnir að eyða löngum stundum saman og við brölluðum margt saman. Margt af því er mér í fersku minni, ómetanlegar minningar sem ég á eftir að geyma í hugskoti mínu alla ævi. Ég á margar minningar um það þegar ég var að reyna að plata þig í einhverja „vitleysu“ eins og fjallgöngur, skíðaiðkun, hjólreiðar og fleira í þeim dúr. Þú varst áhugamaður um tölvur og tækni fram í fingurgóma og undir þér alltaf betur við tölvuna fremur en í jaðaríþróttum utandyra. Ég hef oft sagt frá því með stolti að Siggi vinur minn sé einn af fólkinu á bak við EVE Online þó svo að ég hafi aldrei vitað almennilega hvað ég var að tala um. Í seinni tíð hefur mér fundist erfitt að hafa ekki haft fleiri tækifæri til að hitta þig og eyða tíma með þér þar sem við höfum búið hvor í sínum landshlutanum síðustu ár, ég í Skagafirði lengst af og þú í Reykjavík. Þó svo að langur tími hafi liðið á milli þess sem við hittumst var eins og ekkert hafi breyst, við gátum tekið upp þráðinn og spjallað um allt og ekkert. Síðast þegar við hittumst löbbuðum við á kaffihús og spjölluðum yfir kaffibolla. Ég man að veðrið var gott og við áttum áhugavert spjall um lífið og tilveruna. Þannig man ég þig, elsku Siggi, það var einhvern veginn alltaf gott veður í kringum þig og það var alltaf gaman að spjalla við þig. Mér finnst það svo óraunverulegt að þurfa að kveðja þig með þessum orðum og trúi því vart að þú sért farinn frá okkur.

Ég vil gjarnan lítið ljóð láta af hendi rakna.Eftir kynni afargóð ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Það er sárt að sjá á eftir góðum vini, sárt að þurfa að kveðja þig allt of snemma. Hvíl í friði, kæri vinur.

Arnþór Gústavsson.