Þorsteinn Magnússon fæddist 17. október 1933. Hann lést 27. mars 2016.

Útför Þorsteins var gerð 8. apríl 2016.

Mig langar að minnast tengdaföður míns, Þorsteins Magnússonar. Við kynntumst fyrir rúmlega 30 árum um það leyti þegar ég var farinn að gera mig heimakominn í kjallaranum á Víðimel 65. Fyrst sem leynigestur en síðar sem fullgildur meðlimur í fjölskyldunni. Það var Þorsteini mikilvægt að fjölskyldan ætti samverustundir og var stór hluti af því hádegismatur á sunnudögum. Þar voru allir meðlimir fjölskyldunnar saman komnir auk nánustu ættingja. Þar var mikið spjallað, skipst á skoðunum og skeggrætt um lífið og tilveruna. Í forföllum hans var ég stundum þess heiðurs aðnjótandi að fá að leysa hann af við að skera steikina.

Þorsteinn var fróður maður, víðlesinn og mikill fagurkeri. Kvikmyndir voru eitt af mörgum áhugamálum hans og gat hann frætt okkur mikið í þeim efnum. Þar eru nokkrar setningar sem flogið hafa eins og „taktu eftir þessum, hann á eftir að koma við sögu síðar myndinni“ ef hann var búinn að sjá í gegnum söguþráðinn. Ef honum fannst brellurnar gervilegar var sagt „þetta er nú tekið í baðkeri“.

Við áttum ánægjulegar samræður í gegnum tíðina um ýmis mál eins og viðskipti, vísindi eða atvinnulíf og stundum um pólitík. Hann talaði aldrei illa um nokkurn mann eða blótaði, nokkuð sem sem við getum tekið okkur til fyrirmyndar. Ávallt glaðsinna, þolinmóður og æðrulaus.

Þorsteinn sýndi okkur sannarlega áhuga í því sem við tókum okkur fyrir hendur og ekki fóru barnabörnin varhluta af þeirri athygli. Hann var mjög iðinn og alltaf með einhver verkefni í gangi. Ef ekki í vinnu, heimili eða að sinna barnabörnunum, þá var hann að skipuleggja ferðir næsta sumars. Hans helsta áhugamál var ferðamennska og var hann ávallt að undirbúa næstu ferð á framandi slóðir sem fararstjóri í ferðaklúbbi sem hann veitti formennsku. Við fengum að njóta þess með honum, annaðhvort að hlusta á sögurnar eða að aðstoða hann við undirbúning ferða.

Þorsteinn var kennari af guðs náð. Hann var alltaf að skoða og tengja saman, fræddi barnabörnin um það sem fyrir augu bar. Hann var mikill áhugamaður um jarðfræði, sögu og menningu, fróðleik sem við fengum að njóta á ferðum okkar saman. Ávallt að fræðast og miðla til næstu kynslóðar.

Nú er Þorsteinn lagður af stað í sína hinstu för. Ég er viss um að fararstjórinn hefur skipulagt hana vel. Ég er þakklátur Þorsteini fyrir samfylgdina í gegnum lífið og það sem hann hefur gefið mér og fjölskyldu minni. Ég óska honum velfarnaðar í þeirri vegferð sem hann hefur nú tekið sér á hendur.

Reynir Sigurðsson.

Ég kynntist Þorsteini fyrst í ferð til Madeira. Hann var fararstjóri í ferð þangað á vegum Gigtarfélagsins um páskana 1997. Það var blómaangan í loftinu þegar við stigum út úr flugvélinni á flugvellinum í Funchal. Næsta morgun var Þorsteinn kominn á fætur löngu á undan okkur ferðafélögunum til þess að kanna umhverfið. Sögu eyjunnar og staðhætti hafði hann áður kynnt sér í þaula.

Í þessari ferð kynntist ég tilvist ferðaklúbbsins Garðabakka. Þegar ég var svo komin á eftirlaun árið 2005 sá ég að Þorsteinn stóð fyrir ferð til Suður-Afríku. Það var auðsótt mál að slást með í för. Ferðin stóð í rúmar þrjár vikur í október, komið vor þar syðra og gróður tekinn að blómstra. Eins og fyrr, og síðar í öðrum ferðum með Garðabakka og Þorsteini, hafði hann kynnt sér sögu og staðhætti. Þó svo að innlendur fararstjóri væri með var Þorsteinn alltaf númer eitt.

Þorsteinn átti létt með að segja frá, mjög sögufróður og skemmtilegur. Honum reyndist auðvelt að finna staði sem voru ekki endilega í alfaraleið. Frá Höfðaborg var farið austur með suðurströndinni svokallaða Garðaleið til borgarinnar Port Elísabet. Frá Port Elísabet fórum við í norður meðfram fjallgörðum í vesturátt. Komum m.a. á strútabúgarð. Um það bil 200 km norðaustur frá Höfðaborg gistum við fjórar nætur á stað sem heitir Kagga Kamma og er heilsuhótel. Þarna er stjörnuathugunarstöð. Óvíða er jafnfallegt að líta upp í heiðan himininn. Umhverfið þarna minnir á landslagið í teiknimyndinni um Fred Flintstone. Herbergin voru ýmist tveggja manna hús eða tveggja manna hellar innréttaðir inn í klettaborg. Síðan er ég búin að fara í margar ferðir með Þorsteini og Garðabakka og þeim frábæru ferðafélögum.

Ég má til með að nefna ferð til Kúbu þar sem við gistum í Havana á því fræga hóteli Hotel Nacional. Við fórum með rútu austur til borgarinnar Santiago de Cuba. Á leiðinni þangað gistum við á þremur völdum stöðum og önduðum að okkur sögunni. Landið Óman, sem er austast á Arabíuskaga, hafði ég varla heyrt minnst á þegar Garðabakki og Fuglavinafélagið efndu til hálfsmánaðar ferðar þangað fyrir nokkrum árum. Það var þvílíkt ævintýri. Við fórum í ferð norður að Hormuz-sundi og sigldum á Persaflóa, sumir tóku meira að segja sundsprett í Flóanum. Einnig dvöldum við einn sólarhring úti í Wahiba-eyðimörkinni þar sem spámaðurinn Job dvaldi og komum að grafhýsi hans. Og sáum sólina setjast bak við sandhólana. Það var ótrúlegt hvað Þorsteini tókst að finna ævintýrastaði og skemmtilega veitingastaði þar sem veislumáltíð beið hópsins í öllum ferðum. Enda Þorsteinn mikill sælkeri.

Innanlands var líka oft farið í dagsferðir og út að borða. Hann var ötull að halda þessum hópi saman og alltaf var eitthvert glens og gaman.

Að hittast með Garðabakkafólkinu er alltaf eins og ættarmót.

Ég vil þakka Þorsteini fyrir allar þessar ævintýraferðir og elskusemi.

Ég óska honum Guðs blessunar á nýjum ferðaleiðum.

Innilegar samúðarkveðjur til Þórdísar og fjölskyldu.

Bára Brynjólfsdóttir.

Látinn er góður vinur og félagi, Þorsteinn Magnússon, sem af okkur skólafélögunum í Verslunarskólanum var kallaður Donni.

Það var góður félagsandi í gamla húsinu við Grundarstíg, sem var bæði meðal skólabræðra og skólasystra.

Við vorum fimm skólabræður sem fórum að spila brids saman, það voru fjórir og einn til vara, þar sem spilað var í foreldrahúsum sitt á hvað.

Nú með Þorsteini eru fjórir félagarnir látnir og er ég því bara einn eftir.

Það er mikil eftirsjá að Þorsteini sem og hinum félögunum líka, en þeir voru Björn Stefánsson, Magnús Elíasson og Walter Hjaltested.

Vonandi hittast þeir líka hjá Guði á himnum.

Það er margs að minnast um Þorstein en ég læt þetta nægja. Fjölskylda mín sendir Þórdísi og fjölskyldu einlægar samúðarkveðjur og biður góðan Guð um blessun þeim til handa.

Leifur Ísleifsson.