Lífsgæði „Mesta áskorunin er að koma sér af stað. Fyrir fólk sem er að byrja að hlaupa utan vega er mjög gott að fara hægt og rólega af stað, bæta síðan smávegis við tímann eða kílómetrana, og passa að fara ekki of geyst eða vera með háleit markið.“
Lífsgæði „Mesta áskorunin er að koma sér af stað. Fyrir fólk sem er að byrja að hlaupa utan vega er mjög gott að fara hægt og rólega af stað, bæta síðan smávegis við tímann eða kílómetrana, og passa að fara ekki of geyst eða vera með háleit markið.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergljót Friðriksdóttir beggo@mbl.is „Ég hef alltaf stundað íþróttir af einhverju tagi, en byrjaði að hlaupa 2010 og kolféll svo fyrir utanvegahlaupum fyrir fjórum árum,“ segir Birgir Már Vigfússon, þjálfari Hlaupahóps Ármanns.

Bergljót Friðriksdóttir

beggo@mbl.is

„Ég hef alltaf stundað íþróttir af einhverju tagi, en byrjaði að hlaupa 2010 og kolféll svo fyrir utanvegahlaupum fyrir fjórum árum,“ segir Birgir Már Vigfússon, þjálfari Hlaupahóps Ármanns. „Ég valdi einmitt þennan hóp á sínum tíma því ég vissi að innan hans væru margir með áhuga á utanvegahlaupum. Nú erum við um það bil 40 í hlaupahópnum, bæði konur og karlar, á aldrinum 30 til 55 ára. Þar er öll flóran, allt frá fólki sem er að koma beint af byrjendanámskeiðum hjá Ármanni og yfir í reynda hlaupara sem hafa klárað nokkur 170 km fjallahlaup.

Síðastliðið vor efndi ég í samstarfi við Hlaupahóp Ármanns til Laugavegsnámskeiðs þar sem áherslan var á hlaupara sem stefndu að þátttöku í Laugavegshlaupinu sumarið 2015. Námskeiðið heppnaðist mjög vel og í ár erum við með nýtt námskeið á svipuðum nótum, fyrir þá sem kjósa að hlaupa utan vega og njóta um leið náttúrunnar eða stefna á þátttöku í einhverri utanvegahlaupakeppni. Námskeiðið stendur í allt sumar, það er sniðið fyrir félaga í Hlaupahópi Ármanns og þar er alltaf pláss fyrir nýtt fólk.“

Mjúkt undirlag

Hvernig kviknaði áhugi þinn á utanvegahlaupum?

„Ég er fæddur og uppalinn á Hornafirði og stundaði ýmsar íþróttir þegar ég var yngri. Á unglingsárunum smitaðist ég af golfbakteríunni og spilaði mikið, en fékk svo nóg um tvítugt. Þá þurfti ég að finna mér nýtt áhugamál og fyrir valinu varð þríþraut. Hún er hins vegar afar tímafrekt sport, ég ákvað að einfalda hlutina, hafði mestan áhuga á hlaupum og þannig leiddist ég út á þessa braut.“

Hvað heillar fólk mest við að hlaupa utan vega?

„Sjálfum hefur mér alltaf fundist utanvegahlaup ofsalega skemmtilegt sport, ég upplifði það mjög sterkt þegar ég prófaði það í fyrsta sinn fyrir allnokkrum árum. Þegar áhuginn kviknaði svo fyrir alvöru 2012 varð ekki aftur snúið. Það er svo ótrúlega gaman að hlaupa á mjúku undirlaginu; í mold, sandi, grasi og þúfum, þjóta upp og niður skemmtilegar brekkur og yfir læki og grjót.

Í utanvegahlaupum er maður alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í landslaginu, jafnvel þótt maður hlaupi oft sömu leiðina. Náttúran er síbreytileg og það fer allt eftir aðstæðum hverju sinni, veðri og birtu, hvernig maður upplifir hana. Skemmtilegast er að fara ótroðnar slóðir, velja sífellt nýjar hlaupaleiðir og skoða ný svæði.“

Aukið sjálfstraust

Geta allir æft utanvegahlaup?

„Utanvegahlaup eru fyrir alla, það þarf bara að gæta þess að byrja rólega og komast markvisst, hægt og bítandi, í góða æfingu. Þetta snýst ekki um afrekshlaup. Utanvegahlaup ganga fyrst og fremst út á það að spretta úr spori utan alfaraleiðar, hafa það skemmtilegt með góðum hlaupafélögum og njóta náttúrunnar.“

Hver er aðaláskorunin, í byrjun?

„Mesta áskorunin er að koma sér af stað. Fyrir fólk sem er að byrja að hlaupa utan vega er mjög gott að fara hægt og rólega af stað, bæta síðan smávegis við tímann eða kílómetrana og passa að fara ekki of geyst eða vera með háleit markmið. Smátt og smátt eykst sjálfstraustið og maður fær þjálfun í því að hlaupa á ójöfnu undirlagi og bæði upp og niður brekkur á þægilegum hraða. Í utanvegahlaupum skiptir miklu máli að vera sterkur og með gott jafnvægi, því eru styrktaræfingar mikilvægar og hitt kemur smátt og smátt, eftir því sem maður hleypur meira úti í náttúrunni við ólíkar aðstæður.“

Skór og Camelbak

Hvaða útbúnaður er nauðsynlegur fyrir utanvegahlaup?

„Utanvegaskór eru grófari en þeir sem hlauparar nota á malbikinu, en það er til þess að ná betra gripi í grófum jarðveginum. Sjálfur nota ég Asics-utanvegaskó. Fatnaður er meira smekksatriði, aðalatriðið er að eiga góðan, hlýjan og léttan fatnað. Við búum á Íslandi og hér er allra veðra von, því er eiginlega nauðsynlegt að eiga regn- eða vindheldan jakka og góðan ullarbol.

Hlaupabuxur eru til í miklu úrvali, mér finnst best að hlaupa í CW-X compression buxum með styrkingum fyrir mjóbak og kálfa. Nauðsynlegt er að hugsa um að innbyrða næga orku og vökva á æfingum, sérstaklega lengri æfingunum og vera þá með Camelbak-vesti eða brúsabelti til að geyma dótið sitt í.“

Hvernig er utanvegahlaupaæfingum háttað hjá Ármanni – er hægt að bætast í hópinn?

„Utanvegahlaup er klárlega vaxandi sport á Íslandi, ég finn fyrir miklum áhuga hjá útivistarfólki og það eru allir velkomnir til okkar í Hlaupahóp Ármanns. Við hittumst á þriðjudögum og fimmtudögum eftir vinnu, oftast við Laugardalshöll og hlaupum þaðan. Á mánudagskvöldum er fjallaæfing, þá er Úlfarsfellið vinsælt, og á föstudögum eru styrktaræfingar sem hlauparar gera saman eða sjálfir heima. Á laugardagsmorgnum eru lengri utanvegaæfingar og þá hittumst við fyrir utan höfuðborgarsvæðið, oft í Heiðmörk.“

Hengill-Ultra

Stefnir hlaupahópurinn að þátttöku í keppnum?

„Hér á Íslandi er boðið upp á mörg skemmtileg utanvegahlaup, þau helstu eru Esja-Ultra, Snæfellsjökulshlaupið, Laugavegurinn, Hvítasunnuhlaupið, Hengill-Ultra, Jökulsárhlaupið og Vesturgata. Það er alltaf freistandi að taka þátt í keppnum og margir æfa með það fyrir augum, þar á meðal ég.

Hlaupahópur Ármanns hefur undanfarin ár efnt til hópferðar í tengslum við Laugavegshlaupið. Enda þótt hlauparar hafi ekki endilega sjálfir tekið þátt hafa þeir fjölmennt á staðinn og aðstoðað hina, keyrt þá á áfangastað og síðan tekið á móti þeim í Húsadal með tilheyrandi fagnaðarlátum og grillveislu í Básum.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að fræðast nánar um utanvegahlaup á vegum Hlaupahóps Ármanns, og langar jafnvel að slást í hópinn, er best að hafa samband með því að senda tölvupóst á:

hlaupahopur@frjalsar.is“