Fjöldi barna, sem íslömsku hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa neytt til að gera sjálfsvígsárásir, hefur meira en tífaldast, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna.

Fjöldi barna, sem íslömsku hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa neytt til að gera sjálfsvígsárásir, hefur meira en tífaldast, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna. Samtökin hafa átt undir högg að sækja vegna hernaðar nokkurra ríkja gegn þeim og sérfræðingar segja að leiðtogar Boko Haram hafi gripið til þess ráðs að neyða börn til sprengjuárása á mannmarga útimarkaði, moskur og flóttamannabúðir í því skyni að valda skelfingu meðal íbúa Nígeríu, Níger, Tsjad og Kamerún.

Sprengjuárásirnar hafa valdið „andrúmslofti ótta og grunsemda sem hafa haft skelfilegar afleiðingar“ í þessum löndum og dæmi eru um að börnum sé útskúfað, að því er fram kemur í skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar sem sjálfsvígsárásir barna eru orðnar algengar eru sum samfélögin farin að líta á börn sem ógn við öryggi sitt.