[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besti leikmaður Grindvíkinga í körfuboltanum í vetur, Jón Axel Guðmundsson , leikur ekki með þeim á næsta tímabili. Hann hefur ákveðið að fara til Bandaríkjanna þar sem hann mun stunda nám og spila með háskólaliði Davidson.

Besti leikmaður Grindvíkinga í körfuboltanum í vetur, Jón Axel Guðmundsson , leikur ekki með þeim á næsta tímabili. Hann hefur ákveðið að fara til Bandaríkjanna þar sem hann mun stunda nám og spila með háskólaliði Davidson. Jón Axel staðfesti þetta við karfan.is í gær. Hann lék mest allra í liði Grindavíkur í vetur, átti flestar stoðsendingar og skoraði 15,8 stig að meðaltali í leik.

Danskur framherji, Marcus Solberg, er kominn til Fjölnismanna sem lánsmaður frá danska knattspyrnufélaginu Silkeborg, út þetta keppnistímabil. Solberg er 21 árs og hefur leikið með Silkeborg og AGF í tveimur efstu deildum Danmerkur. Þá á hann að baki 29 leiki með öllum yngri landsliðum Dana, þar af tvo með 21-árs landsliðinu. Solberg er sjötti erlendi leikmaðurinn sem kemur til Fjölnis í vetur.

Framarar tilkynntu í gær að þeir myndu leika heimaleiki sína í 1. deild karla í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í sumar þar sem völlur þeirra í Úlfarsárdal stenst ekki leyfiskröfur KSÍ. Framarar léku í Laugardal um áratuga skeið þar til þeir fluttu heimaleiki sína í Úlfarsárdalinn í fyrra. Í tilkynningunni segir að félagið muni flytja heimavöllinn aftur í Úlfarsárdal þegar framkvæmdir á svæðinu verði komnar á það stig að hægt verði að uppfylla kröfur KSÍ.

Leicester á þrjá leikmenn af sex sem eru tilnefndir í kjöri á knattspyrnumanni ársins í ensku úrvalsdeildinni. Leikmennirnir sex eru Jamie Vardy , Riyad Mahrez og N'Golo Kante úr Leicester, Dimtri Payet , West Ham, Harry Kane , Tottenham og Mesut Özil , Arsenal. Í kjöri á besta unga leikmanni ársins eru tilnefndir Dele Alli og Harry Kane úr Tottenham, Ross Barkley og Romelu Lukaku úr Everton, Jack Butland , Stoke og Philippe Coutinho , Liverpool.