— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins slæmar og horfurnar virðast þessa stundina fyrir bandaríska banka þurfa þeir hver og einn að leiða hugann að einhverju enn verra.

Eins slæmar og horfurnar virðast þessa stundina fyrir bandaríska banka þurfa þeir hver og einn að leiða hugann að einhverju enn verra. Í vikunni byrjuðu bandarísk fjármálafyrirtæki að birta milliuppgjör fyrsta ársfjórðungs og að vanda var það JP Morgan sem reið á vaðið. Þetta átti að vera árið sem hagkerfið réttir úr kútnum, en reiknað er með að bandarísku bankarnir muni eina ferðina enn senda frá sér dauflegar tölur. Væntanlega munu þeir leggja enn meira fjármagn í afskriftarreikning vegna útlánatapa til orkugeirans. Vaxtamunur verður áfram í minni kantinum, nú þegar aftur hefur dregið úr líkum á stýrivaxtahækkun. Búist er við að tekjur af markaðsviðskiptum muni halda áfram að dragast saman, en í þetta skiptið munu þóknanatekjur af fyrirtækjaráðgjöf og frumútboðum ekki milda höggið með sama hætti og áður.

En bankarnir átta sig hins vegar á því að staðan gæti verið verri, þar sem þeir eru nýbúnir að skila gögnum til seðlabankans vegna árlegra álagsprófana. Þetta árið er „verulega óhagstæða“ atburðarásin, sem álagsprófið byggir á, brattari en áður og gerir ráð fyrir 10% atvinnuleysishlutfalli í Bandaríkjunum, neikvæðum vöxtum og enn meira tapi af skuldabréfaeign. Í verðlaun fyrir að standast prófið er það að fá tækifæri til að greiða arð og að kaupa eigin hlutabréf.

Eins ergilegt og bönkunum finnst þetta ferli vera, þá virðast eftirlitsstofnanirnar sáttar. Samkvæmt greiningu Credit Suisse reynast stórir og meðalstórir bankar í vísitölu sem bankinn reiknar að jafnaði vera með 11% eiginfjárhlutfall A (e. Tier 1), sem er 50 punktum hærri en á síðasta ári. Jafnvel í atburðarás sem gerir ráð fyrir miklu álagi áætlar bankinn að hlutfallið myndi að jafnaði falla niður í 7%. Fyrrum, þegar ekki voru gerðar jafn miklar kröfur, hefði slíkt eiginfjárhlutfall hæglega þótt vel viðunandi.

Komi það í ljós að Credit Suisse hafi haft rétt fyrir sér, þegar seðlabankinn birtir niðurstöðurnar í júní, ætti það að leyfa bönkunum að gera ráðstafanir til að auka arðsemi fjármagns. Arðgreiðsluhlutfallið var, heilt yfir, 61% í kringum álagsprófanirnar 2015. Credit Suisse heldur að hlutfallið gæti hækkað upp í 76% í ár. Hluthafar hafa samt náttúrlega mestan áhuga á því hversu háa fjárhæð þeir fá í sinn hlut. Fyrst horfur eru á að hagnaður muni skreppa saman um nokkur prósentustig er ekki líklegt að verulega bæti í arðgreiðslu- og endurkaupapottinn. Að svo stöddu mætti líta á það sem framför að ná að troða marvaðann.