Töfraveröld Á Tröllaskaga eru frábærar aðstæður til fjallaskíðamennsku.
Töfraveröld Á Tröllaskaga eru frábærar aðstæður til fjallaskíðamennsku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjallaskíðamótið Super Troll Ski Race fer fram á Tröllaskaga helgina 6. til 8. maí næstkomandi og stefnir í spennandi keppni. Skíðað er frá fjallstoppi og niður að sjó, þar sem leiðin liggur frá Heljartröð í Fljótum yfir Siglufjarðarskarð og inn Skarðsdal.

Bergljót Friðriksdóttir

beggo@mbl.is

„Fjallaskíðamótið Super Troll Ski Race var fyrst haldið á Tröllaskaga vorið 2014, á vegum Skíðaborgar, Skíðafélags Siglufjarðar, og fékk þá frábærar viðtökur. Í fyrra endurtókum við leikinn, þá tóku helmingi fleiri þátt í Ofurtröllamótinu og nú fer það fram í þriðja sinn helgina 6. til 8. maí næstkomandi þar sem stefnir í enn stærri keppni,“ segir Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri mótsins.

„Í Super Troll Ski Race er skíðað frá fjallstoppi og niður að sjó í ævintýralega fallegu umhverfi. Mótið hefst í Fljótum í Skagafirði og verður gengið frá svokallaðri Heljartröð yfir Siglufjarðarskarð í átt að Illviðrishnjúki. Þaðan liggur leiðin meðfram skíðasvæðinu í Skarðsdal og niður til Siglufjarðar. Keppnisleiðin, sem er um 9 kílómetra löng, er krefjandi og því er mótið mikil áskorun fyrir þátttakendur; allur gangur er á því hve fólk fer hratt yfir en meðaltímalengd er um það bil tveir og hálfur klukkutími.“

Töfrar Tröllaskaga

Megintilgangurinn með Super Troll Ski Race er að efla barna- og unglingastarf Skíðafélags Siglufjarðar og rennur allur ágóði af mótinu til félagsins, að sögn Sæunnar. „Mikil gróska hefur verið í fjallaskíðamennsku á Siglufirði á undanförnum árum og fjöldi skíðamanna á svæðinu aukist jafnt og þétt. Markmið mótsins er að efla útivist í náttúrulegu umhverfi og um leið vekja athygli á töfrum Tröllaskaga. Þar eru einstakar aðstæður til fjallaskíðamennsku, mikill snjór árið um kring og hægt að skíða frá fjallstoppum niður í fjöru. Það gerist varla betra.“

Að sögn Sæunnar voru þátttakendur í keppninni í fyrra um 40 talsins, bæði íslenskir og erlendir, og von er á enn fleiri keppendum í ár. „Mótið á Tröllaskaga er rosalega flottur viðburður. Mikil uppbygging er á þessu svæði, bæði í Fljótum, á Siglufirði, í Ólafsfirði og í Svarfaðardal og það er alveg ljóst að Super Troll Ski Race á bara eftir að vaxa með árunum. Með glæsilegri gistingu, sem hefur verið að byggjast upp á svæðinu, ásamt frábærum veitingastöðum, getum við nú tekið á móti mun fleira fólki en áður.“

Ánægðir keppendur

Sæunn leggur áherslu á að Tröllaskagi, með sína fögru fjallgarða, dali og firði njóti sín afar vel í fjallaskíðamennsku og keppni af þessu tagi og ánægðir skíðamenn séu besti vitnisburðurinn. „Erlendir gestir hafa gjarnan orð á því hversu einstakt það sé að geta skíðað uppi á hæstu fjöllum, en á sama tíma horft til sjávar.

Markaðssetningin hefur að mestu leyti farið fram á samskiptamiðlunum og máttur þeirra er ótrúlega mikill. Fólk er gjarnan að deila myndum sínum og myndböndum af svæðinu þar inni, á facebook, twitter og instagram, og vekur það áhuga hjá fleirum á að koma og upplifa allt það sem þetta stórkostlega svæði hefur upp á að bjóða.“ Aðspurð segir Sæunn ótalmargt skýra vaxandi áhuga fólks á fjallaskíðaíþróttinni.

„Fjallaskíðamennsku fylgir svo mikið frelsi, hún býður upp á endalaus tækifæri til að upplifa og skíða á mögnuðum svæðum sem annars væri illmögulegt að fara um og njóta. Fjallaskíðamennska er orðin almenningsíþrótt, rétt eins og til dæmis sund eða hjólreiðar. Hún er óháð aldri, allir geta verið á fjallaskíðum og hver og einn gengur og skíðar á sínum forsendum.

Til að stunda fjallaskíðamennsku þarf að eignast fjallaskíði og fjallaskíðabindingar. Sumir eru í fjallaskíðaklossum sem eru léttari og liprari en venjulegir skíðaklossar, en aðrir eru í venjulegum klossum. Hægt er að kaupa dýran búnað en það má líka hæglega fá útbúnað á góðu verði, bæði nýjan og notaðan. Nauðsynlegt er að vera með öryggismálin á hreinu og vera með í bakpokanum snjóflóðaýlu, skóflu og snjóflóðastöng. Ekki má heldur gleyma hjálminum.

Flestir eiga skinn til að setja undir skíðin, ganga á fjöll og renna sér síðan niður eftir völdum leiðum, á meðan aðrir nýta sér þyrluþjónustu til að koma sér upp á fjallstoppana og skíða síðan niður. Sjálf byrjaði ég fyrst að stunda fjallaskíðamennsku í fyrra, þrátt fyrir að öll mín fjölskylda sé á kafi í þessu sporti og báðar systur mínar séu skíðakennarar hjá Skíðaborg. Ég er því „late bloomer“ hvað fjallaskíðin varðar, en mæli heilshugar með þeim, þetta er svo ótrúlega skemmtilegt.“

Nánar á vefsíðunni:

facebook.com/supertrollskirace