Ný lög um fullnustu refsinga vöktu athygli í vikunni og þá ekki síst vegna nokkurra fanga. Í kjölfar samþykktarinnar var þremur Kaupþingsmönnum sleppt af Kvíabryggju og þeir færðir á áfangaheimilið Vernd.

Ný lög um fullnustu refsinga vöktu athygli í vikunni og þá ekki síst vegna nokkurra fanga. Í kjölfar samþykktarinnar var þremur Kaupþingsmönnum sleppt af Kvíabryggju og þeir færðir á áfangaheimilið Vernd. Þar eiga þessir menn, líkt og aðrir sem þar dvelja, kost á því að vinna á daginn og snúa aftur á heimilið á kvöldin. Vægi rafræns eftirlits í refsingu var nefnilega aukið. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að fyrirkomulag rafræns eftirlits verði endurskoðað fyrir sumarið.

Eftir að fyrrnefndum föngum var sleppt sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nefndarmaður í allsherjarnefnd og þingmaður VG, að lagabreytingin væri ekki tímabær. Ekki í ljósi stöðunnar varðandi þessa tilteknu fanga. Lögin virtust smíðuð utan um þá.

Ekki virðast allir jafn réttháir í augum löggjafans, ef marka má orð þingmannsins.

Einhvern tímann sagði einhver að fangelsi væru vond leið til að gera vonda menn verri. Það hlýtur að vera markmið í hverju þjóðfélagi að koma föngum aftur út í samfélagið sem betri mönnum og jafnframt að koma í veg fyrir endurkomu þeirra á stofnunina.

Ísland stendur ágætlega í fangelsismálum þegar litið er til tölfræðinnar. Hér á landi eru fangar hlutfallslega fáir í samanburði við helstu nágrannalönd og endurkomur sjaldgæfari.

Til þess að bæta þessa tölfræði enn frekar ættu fangelsi að vera staður þar sem fólki gefst kostur á að bæta ráð sitt, byrja upp á nýtt og vinna í innri manni. Dæmdir menn geta stundum fyrst og fremst verið fangar eigin aðstæðna.

Ef fólk getur sammælst um að markmiðið sé að skila bættum mönnum út í samfélagið hlýtur næsta skref að felast í lausnum er færa okkur nær því. Á Íslandi vantar heildstæða stefnu varðandi betrunarvist. Fangaverðir fá litla menntun og einn sálfræðingur ásamt tveimur félagsfræðingum sinna öllum föngum landsins. Líkt og Afstaða, Félag fanga, hefur bent á eru takmarkaðir möguleikar til verknáms, starfsþjálfunar og biðin eftir plássi á Vernd getur reynst löng þegar biðinni er varið á bak við rimla.

Úrræði í refsivist þurfa ekki að vera einsleit og í kerfinu þarf að vera rými fyrir mannbætandi lausnir. Auðvelda ætti föngum að standa á eigin fótum eftir afplánun í lokuðu fangelsi með úrræðum á borð við Vernd og samfélagsþjónustu.

Samfélagið losar sig ekki við ákveðin vandamál með þyngri refsingum og fleiri öryggisfangelsum. Fyrst endurskoðun á málaflokkun stendur á annað borð yfir væri ekki galið að enduskoða stefnuna. Auka vægi samfélagsþjónustu, rafræns eftirlits og meðferðarstofnana.

Viljum við kalla fangelsun á Íslandi refsivist eða betrunarvist? sunnasaem@mbl.is

Sunna Sæmundsdóttir

Höf.: Sunna Sæmundsdóttir