Handagangur í öskjunni Sebastian Vettel, ökumaður Ferrari, í þjónustuhléi í Melbourne.
Handagangur í öskjunni Sebastian Vettel, ökumaður Ferrari, í þjónustuhléi í Melbourne. — AFP
Nýverið hefur tekjum af formúlutíð síðasta árs, 2015, verið deilt meðal liðanna. Þrátt fyrir að hafa orðið í öðru sæti og langt á eftir Mercedes fær Ferrari feitasta tékkann.

Nýverið hefur tekjum af formúlutíð síðasta árs, 2015, verið deilt meðal liðanna. Þrátt fyrir að hafa orðið í öðru sæti og langt á eftir Mercedes fær Ferrari feitasta tékkann. Verðlaunafénu er skipt milli 10 efstu liðanna, þau voru ekki fleiri í fyrra en eru 11 í ár. Í pottinum voru rúmlega 1.230 milljónir dollara, eða sem svarar til 152 milljarða íslenskra króna. Er það helmingur tekna íþróttarinnar, þ.e. tillag mótshaldara, auglýsingar meðfram keppnisbrautum, tekjur af sjónvarpsrétti o.fl.

Fénu er úthlutað eftir ákveðinni reglu. Í fyrsta lagi er helmingnum deilt jafnt milli 10 efstu liðanna. Hinum helmingnum er deilt út með mun flóknari hætti, en meistaraliðið fær þó mest og lið í tíunda sæti minnst. Fer upphæðin stiglækkandi og munar þar miklu á. Og til að fá úr þessum hluta pottsins þarf lið að hafa verið meðal tíu bestu tvisvar á síðustu þremur árum. Þar af leiðir til dæmis að Haas-liðið nýja fær ekkert úr þeim potti fyrr en 2018 þótt liðið sé í fimmta sæti nú.

Áður en byrjað er að borga milljarðana 152 út eru teknar úr pottinum beingreiðslur til einstakra liða. Þar á meðal er 51,3 milljóna dollara bónus til Mercedes fyrir sigur í keppni liðanna. Einnig er þar að finna sérgreiðslu til Mercedes, Ferrari, McLaren og Red Bull á þeirri forsendu að keppni þeirra sé formúlunni „til upphefðar“. Fær hvert þeirra 46,05 milljónir dollara þannig út á orðstír sinn. Eftirtektarvert er að Williamsliðið er ekki í þessum forréttindahópi þótt liðið hafi verið sigursælla í Formúlu 1 en bæði Mercedes og Red Bull. Segir og liðsstjórinn Claire Williams að hún muni freista betri dreifingar verðlaunafjárins þegar núverandi skipan rennur út árið 2020.

Aukinheldur fær svo Ferrari sérgreiðslu upp á 92,1 milljón dollara einfaldlega fyrir að vera Ferrari. Heildarskerfur Ferrari – stærsti tékkinn sem Bernie Ecclestone skrifar út – er þar með 252,6 milljónir dollara, eða sem nemur um 20% verðlaunafjárins, rúmlega 30 milljarðar króna. Í vasa Ferrari rennur langstærstur skerfur þrátt fyrir að liðið hafi ekki unnið titla árum saman. Til samanburðar er hlutur Mercedes 224,98 milljónir dollara, eða tæpum 28 milljónum dollara lægri.

Fyrir utan toppliðin tvö í fyrra fá önnur lið í sinn hlut sem hér segir og er röð þess í keppni liðanna 2015 í sviga: Red Bull (4) 189,46 milljónir dollara, Williams (3) 114,46 milljónir, McLaren (9) 107,89 milljónir, Force India (5) 88,15 milljónir, Lotus (6) 84,20 milljónir, Toro Rosso (7) 74,99 milljónir, Sauber (8) 71,05 milljónir og Manor (10) hlaut 61,84 milljónir dollara.