Jóhanna Unnur Reimarsdóttir fæddist 25. maí 1929. Hún lést 25. mars 2016.

Útförin var gerð í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Grönn og nett, harðdugleg og þrautseig. Jóhanna fæddist 25. maí 1929 í Bolungarvík á Ströndum. Víkin er ægifögur og einungis afburðafólk getur búið við óblíð veður og á harðbýlum stað.

Jóhanna bar skýr merki upprunans, hún var með skerta sjón en lét aldrei fötlunina hamla sér.

Við fórum saman á Höfðaströnd í boði Ástu frænku hennar fyrir margt löngu. Þegar við Jóhanna lögðum af stað í fjallagrasa- og reyrleiðangur var þögult samkomulag um að ég liti til með henni.

Það fór á annan veg, Jóhanna fann rétta vaðið á Deildará og þegar vesalingur minn var að gefast upp neðar í ánni, sat Jóhanna á bakkanum hinum megin að klæða sig í skóna.

Hún var léttstíg yfir steina og klungur, kenndi mér örnefnin, þekkti blóm, skófir og mosa. Hér var hún í essinu sínu.

Kvöldin voru ævintýri, við prjónuðum og Jóhanna sagði okkur sögur. Meitlað orðafar fornsagna – engu ofaukið, öll aðalatriði á tæru. Fólkið sem barðist við náttúruöflin, hafið sem gaf og tók, landið sem tuktaði sitt fólk en breiddi út faðminn á stundum. Hún var sögumaður af Guðs náð eins og fleiri úr fjölskyldunni.

Fram á níræðisaldur gekk hún á skíðum. Undir lokin fór hún inn á fótboltavöllinn á Torfnesi þar sem hún væri ekki í hættu fyrir umferðinni.

Ég get aldrei fullþakkað Elsu og Boga fyrir að koma mér heim svo ég gæti kvatt Jóhönnu. Hún var fjarska veik en við ræddum það ekki. Maður á ekki að barma sér. Heldur spurði ég hana um leiðina á ballið á Flæðareyri alla leið frá Bolungarvík. Hún gerði lítið úr göngunni sem hlýtur að hafa verið drjúg, fyrst yfir Bolungarvíkurheiði, en hún minntist með gleði hvernig þau dönsuðu til klukkan fimm um nóttina.

Hún sagði mér líka sögur, sem hvergi eru skráðar, um stríðið á Ströndum þegar fyrst heyrðust fallbyssudrunur utan af hafi og svo fór að reka lík. Ég man hvað tónninn varð dapur þegar hún minntist allra þessara ungu manna í einkennisbúningi sem týndu lífi í brjálæði stríðsins.

Ég fór ævinlega fróðari af fundi hennar og sé eftir því að biðja ekki um leyfi til að skrá upplifun telpunnar Jóhönnu af hildarleik síðari heimstyrjaldarinnar.

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði margt fróðlegt eftir Jóhönnu föðurömmu hennar og nöfnu þegar hann kom á Hornstrandir 1885.

Konan sem lét ekki fötlunina smækka sig, konan sem fór á mis við skólagöngu í hefðbundnum skilningi, skilur eftir sig mikil auðæfi í fyrirmynd sinni á ævibrautinni. Enda sýna börn og barnabörn arfinn hennar í námsafrekum.

Allar okkar stundir voru gæðastundir, fyrir það ber að þakka. Hvíldin var henni kærkomin. Einlægar samúðarkveðjur til ættingja og hjartans þakkir til starfsfólksins á Eyri.

Erna Arngrímsdóttir.