Sumar vísur birtast manni eins og í kvikmynd. Svo er um þessa eftir séra Björn Halldórsson: Ráðskonan mín rís þar upp rétt sem tungl í fyllingu. Klórar hún sér á hægri hupp með hátíðlegri stillingu.

Sumar vísur birtast manni eins og í kvikmynd. Svo er um þessa eftir séra Björn Halldórsson:

Ráðskonan mín rís þar upp

rétt sem tungl í fyllingu.

Klórar hún sér á hægri hupp

með hátíðlegri stillingu.

Einhvern tíma var Tómas Guðmundsson beðinn um texta fyrir nýtt (dægur)lag, – hann sló á létta strengi:

Sólin hamast úti og inni

frá árdegi til sólarlags. –

En hvernig eru húsakynni

í Hafnarfirði nú til dags?

Júlíus Sigurðsson bankastjóri orti eftir stórbruna á Akureyri:

Áfram líður ævibraut

eftir vegum duldum.

Drottinn leggur líkn með þraut

og líka eld með skuldum.

Ekki er allt sem sýnist í Biblíusögunum – Jón Þorsteinsson á Arnarvatni orti:

Aldrei mundi Uria

orðið hafa viðskila,

hefði ekki Batseba

baðað sig við lindina,

Davíð með sinn kvæðaklið

klifrað upp á húsþakið

litið þennan sóma sið.

Svona er stundum hreinlætið!

- - -

Símaði Jóab heim í hlað:

„Hetitinn er orðinn spað –!“

Ýmsir heyrðu eftir það

öðling spila margraddað.

Þessi urðu eftirmæli Jóns um gömlu hlöðuna:

Þeim, sem athvarf áttu sér

ýmislegt að gera,

gamla hlaðan horfin er.

Hvar á nú að vera?

Á efnaheimili í Borgarfirði voru ávallt til fyrningar af keti og skemmdist oft. Um sveitarómaga, sem dó á heimlinu, orti Jón Eyjólfssons frá Hvammi Hvítársíðu:

Illa fór hann Gvendargrey,

þó gamalt æti hann ketið.

Þeir eru til, sem þrífast ei,

þó þeir geti étið.

Að hann dáið hafi úr hor

hygg ég rengja megi.

En hitt er satt, hann var í vor

vel framgenginn eigi.

Sagt var, að kona nokkur hefði ort þessa formannsvísu til bónda síns:

Jón minn hefur litla lyst;

löngum betur aðrir sóttu.

Það var aðeins allra fyrst

að hann reri á hverri nóttu.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is