Kjartan Jóhannesson
Kjartan Jóhannesson
Eftir Kjartan Jóhannesson: "Samfélagsbanki með siðferðiskennd hlýtur að vilja bæta úr þessu og bæta sjóðnum upp tap sem hann hefur sannanlega orðið fyrir með gjörðum Landsbankans."
Það, að lögsækja vinnuveitandann sinn, er örugglega eitt það síðasta sem menn vilja lenda í. Nú standa samt þeir starfsmenn Landsbankans, RB, Valitors og Seðlabanka, sem greiða í hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna frammi fyrir því. Á ársfundi Lífeyrissjóðsins þann 6.apríl sl., var eftirfarandi samþykkt: „stjórn lífeyrissjóðsins, með aðstoð Jónasar Fr. Jónssonar hdl., að leita nauðsynlegra lagalegra úrræða til að hnekkja ósanngjörnu uppgjöri ábyrgðar aðildarfyrirtækja frá 1997.“ Byggt á greinargerð og lögfræðilegu áliti, sem Jónas gerði um málið að tillögu ársfundar árið áður. Kostnaður sjóðsins af svokallaðri 95-ára reglu og lægri lífeyristökualdri en gert var ráð fyrir, hefur orðið verulegra hærri en forsendur gerðu ráð fyrir. Nú þegar hefur því þurft að grípa til þess óyndisúrræðis að lækka áunnin réttindi sjóðsfélaga í deildinni og þar með lækka lífeyrisgreiðslur um 9,72%. Kom sú launalækkun og réttindaskerðing til framkvæmda 1. janúar 2015. Ekki er ósennilegt að til frekari skerðinga komi í framtíðinni, ef ekkert er að gert. Hið ósanngjarna uppgjör aðildarfyrirtækjanna árið 1997 var gert að undirlagi stjórnvalda, sem voru að einkavæða bankana og vildu um leið létta af þeim bakábyrgðinni á lífeyrisskuldbindingum, sem þá var við lýði. Fundin var upp ofannefnd hlutfallsdeild annarsvegar og aldursdeild (stigadeild) hinsvegar. Hlutfallsdeildin fyrir eldri starfsmenn, þar sem byggt er á eftirmannareglu og býður upp á 95-ára regluna, en aldursdeildin fyrir yngri starfsmenn, með stigakerfi þar sem sjóðfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld sem taka mið af heildarlaunum, eins og algengt er á almennum markaði. Nákvæmlega í sama anda og gert var varðandi opinbera starfsmenn, þar sem búin var til A-deild og B-deild í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þar er reyndar bakábyrgðin enn við lýði og hefur ekki komið til skerðingar á lífeyrisréttindum né 95-ára reglu. Nú er staðan aftur orðin sú, alveg eins og 1997, þegar hið ofannefnda ósanngjarna uppgjör var framkvæmt, að Landsbankinn er í meirihlutaeigu ríkisins og meira að segja sömu flokkar við stjórn. Enda sendi stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna fjármálaráðherra bréf, reifaði málið og kynnti ofannefnt lögfræðiálit, en eftir því sem ég best veit hefur ekki svar borist. Nú á tímum mikilla siðferðisspurninga, er þá ekki eðlilegt að spyrja ráðamenn og eigendur Landsbankans, sem og stjórnendur hans, sem hampar því ákaft að hann vilji sýna samfélagslega ábyrgð; er það siðferðislega rétt að mismuna aðilum svona? Einn hópur sem treysti reiknikúnstum og trúði loforðum um að eiga ásættanlegan lífeyri eftir áralöng störf, stendur frami fyrir skerðingu lífeyris og löskuðum sjóði, meðan annar nákvæmlega sambærilegur hópur, sem valdi eins, og er einnig í störfum fyrir ríkið, er með allt sitt á hreinu. Það vegur reyndar þungt í ofannefndu lögfræðiáliti, að Landsbankinn og sum önnur aðildarfyrirtæki, hafa með svokölluðum sólarlagssamningum, stuðlað að því að ýta eldri starfsmönnum á 95-ára regluna í miklu meira mæli en forsendur gerðu ráð fyrir; í stað þess að 25% nýti 95-ára regluna eins og gert var ráð fyrir í forsendunum 1997, þá hefur það hlutfall orðið 50%, sem eykur kostnað sjóðsins og rýrir tekjur og þar með átt beinan þátt í því staða hlutfallsdeildar er jafn slæm og raun ber vitni. Samfélagsbanki með siðferðiskennd hlýtur á aðalfundi sínum 14. apríl nk. að vilja bæta úr þessu og bæta sjóðnum upp tap sem hann hefur sannanlega orðið fyrir með gjörðum Landsbankans hf. síðustu ár.

Höfundur greiðir í Lífeyrissjóð bankamanna.