Kristbjörg Helgadóttir fæddist 1. september 1943. Hún lést 31. mars 2016.

Foreldrar hennar voru Helgi Kristinn Gíslason, f. 24. apríl 1909, d. 1. apríl 1988, og Ingunn Jónasdóttir, f. 16. nóvember 1919, d. 22. september 1990. Systkini: Þóra Sigríður, f. 1946, Jónas, f. 1948, Gísli, f. 1957.

Kristbjörg giftist 30. september 1967 Andrési Ólafssyni, f. 16. mars 1940, d. 23. apríl 2013. Foreldrar: Ólafur Tryggvi Andrésson, f. 6. júní 1908, d. 20. júní 1976, og Geirþrúður Clausen Hjartardóttir, f. 1. janúar 1914, d. 23. júní 1974. Börn: 1. Herdís, f. 27. janúar 1968, bankastarfsmaður, maki Jón Halldór Eiríksson, f. 23. ágúst 1964, verktaki. Börn þeirra eru a) Andrea Björg, kærasti Ívar Kristinn Hallsson, b) Guðrún Eir, c) Halldór Már. 2. Helga, f. 8. ágúst 1970, þroskaþjálfi, maki Aðalsteinn Már Aðalsteinsson, f. 28. júní 1970, rafiðnfræðingur. Börn þeirra eru a) Eyþór Atli, b) Þórdís María.

Kristbjörg fæddist í Reykholti við Laufásveg í Reykjavík. Gekk í Austurbæjarskóla, Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Starfaði m.a í Belgjagerðinni, sem gangastúlka á Karólínskasjúkrahúsinu í Stokkhólmi og við ýmis afgreiðslu- og ræstingastörf.

Útför Kristbjargar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elskuleg móðir, tengdamóðir og amma okkar er fallin frá.

Amma Kiddý var hjartahlý kona sem vildi öllum vel. Hún hugsaði ávallt fyrst um ömmubörnin og hvað var þeim fyrir bestu. Þegar þau voru yngri voru til dæmis oft farnar ævintýraferðir með ömmu í bókabúðina og keyptar bækur sem voru svo lesnar þegar heim í ömmuhús var komið, eða farið í fiskbúðina og keyptur fiskur og eldaður, spiluð ýmis konar spil eða góðum stundum eytt fyrir framan sjónvarpið við að horfa á barnaefni. Hún hafði endalausa þolinmæði og natni gagnvart börnunum. Í flestum tilfellum var svo til ís í frystinum eða annað góðgæti. Eftir að þau urðu stærri fylgdist hún vel með því hvað þau voru að gera og hvernig þeim gekk í skóla og íþróttum. Á hverjum degi spurði hún um krakkana og hvað þau væru að gera, ef þau voru ekki með í för.

Frá því að Steini kom fyrst á Smáratúnið með Helgu var alltaf tekið vel á móti honum og oft var umræðuefnið barnabörnin. Henni var annt um fólkið hans og spurði gjarnan hvernig gengi hjá þeim.

Henni fannst gaman að ferðast og þá sérstaklega til sólarlanda með Adda því hún kunni vel að meta sól og hita og reyndu þau að fara á hverju ári í sólina.

Hún tók vel á móti vinum dætra sinna og vinkonum og hafði alla tíð áhuga á að vita hvað væri að frétta af þeim og þeirra börnum.

Við mamma vorum ekki alltaf sammála en hreinskiptin samskipti síðustu árin eru mikilvæg í minningunni. Um síðustu páska sendi hún mér vel valin orð í eyra og var bara gott að vita til þess að hún hafði krafta til að segja sína skoðun við mig.

Minnisstæðar samverustundir með mömmu eru á Njálsgötunni þegar hún kom í bæinn og við fórum saman að versla. Hún dvaldi gjarnan í íbúðinni ef ég var erlendis og pabbi að vinna. Hún talaði um að hún væri að anda að sér reykvísku lofti og hlaða batteríin. Þrátt fyrir að vera uppalin í Reykjavík vildi hún ekki flytja þangað aftur síðustu árin. Fannst allt of mikil umferð þar.

Nú verður undarleg tilfinning að koma á Smáratúnið þar sem engin amma Kiddý er.

Minningin um góða konu lifir.

Elsku mamma, tengdamamma og amma takk fyrir allt.

Helga, Aðalsteinn Már,

Eyþór Atli og Þórdís María.

Fyrir allnokkrum árum sagði kær vinkona við mig hvað það hefði alltaf verið yndislegt að vera heima hjá mér þegar við vorum yngri, því það hefði alltaf ríkt svo mikill kærleikur á heimilinu, mamma og pabbi hefðu alltaf verið svo góð við okkur og umfram allt hvort við annað. Þegar hún nefndi þetta við mig þá opnaði það augu mín á því hvað ég hefði alist upp á kærleiksríku heimili, ég þekkti ekkert annað og hélt að þetta væri bara alveg sjálfsagt. Í framhaldi af þessu samtali fór ég að horfa á foreldra mína aðeins í öðru ljósi og sá hvað allir litlu hlutirnir skipta miklu máli í stóra samhenginu, eins og þessi yndislegi vani pabba að koma alltaf flautandi lagstúf þegar hann kom inn, bara einfaldlega til þess að engum myndi bregða þegar hann birtist allt í einu á eldhúsgólfinu og mamma var alltaf búin að hella upp á kaffi fyrir pabba þegar hann vaknaði á morgnana, sama hvenær hann fór á fætur. Það væri hægt að telja endalaust upp svona litla hluti sem skipta samt svo miklu máli. Vinkonur okkar systra voru ávallt velkomnar á heimilið og fylgdist hún vel með hverri og einni fóta sig út í lífið og gladdist yfir hverju barni og öllu sem gekk vel hjá þeim.

Þegar við systur vorum litlar þá var mamma heimavinnandi og tók alltaf á móti okkur þegar við komum heim úr skólanum, yndisleg minning að koma alltaf heim í mömmu faðm. Þegar ég var um 12 ára aldurinn fór mamma að vinna og vá hvað mér fannst þetta spennandi, hún vann sko í búð! Enda fór ég oft í heimsókn til hennar til að sjá hana vinna, já og kannski gat ég grætt eins og einn lítinn nammimola í leiðinni. Lengst af vann hún hjá Kaupfélagi Suðurnesja, en var einnig við þrif hjá Varnarliðinu og í flugeldhúsi Icelandair. En mamma mín var ekki bara góð mamma, því þegar fyrsta barnabarnið fæddist, þá var hún heldur betur tilbúin í það hlutverk, það var endalaust dekrað við barnabörnin, en þó alltaf með slatta af skynsemi líka. Eitt af því besta sem barnabörnin gerðu var að fara í bókabúðina með ömmu og kaupa nýja bók. Það er svo yndislegt að hlusta á börnin mín rifja upp góðu stundirnar með ömmu Kiddý, þegar hún sat við eldhúsborðið og spjallaði við þau, eða sat á stofugólfinu og lék við þau með þroskandi leikföngum, eða fór í göngutúr í góðu veðri. Þau fengu einfaldlega alla hennar athygli, ást og hlýju.

Eitt var það sem mamma var alveg viss um, það var að henni hefði einfaldlega verið plantað á vitlausan stað í veröldinni. Ísland var einfaldlega of kaldur staður fyrir hana, enda voru þær ófáar ferðirnar sem mamma og pabbi fóru sama til heitari landa og nutu þess á svo dásamlega ólíkan hátt. Pabbi var ekkert fyrir að vera mikið í sól og kom alltaf heim útitekinn með slatta af freknum á meðan mamma kom alltaf kaffibrún til baka. Það var alltaf jafn yndislegt að sjá þetta þegar ég tók á móti þeim. En núna eru þau aftur sameinuð og geta haldið haldið áfram að fylgjast með okkur og verið óendanlega stolt af barnabörnunum.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Takk fyrir allt, elsku mamma mín.

Þín

Herdís.

Nú er Kiddý tengdamamma mín búin að kveðja okkur. Þessi góða kona sem leysti öll þau verkefni sem fyrir hana voru lögð með miklum sóma, að vera eiginkona tengdapabba míns, sem kvaddi okkur fyrir þremur árum, mamma konunnar minnar, amma barnanna minna og tengdamamma mín, sem var alls ekki alltaf auðvelt. Þvílíkur heiður að fá að kynnast henni. Okkur Kiddý var ekkert heilagt, við hittumst yfirleitt á laugardagsmorgnum og stundum oftar til að ræða málin. Við ræddum um pólitík, forsetann og allt mögulegt sem hægt var að ræða um. Og ekki eyðilagði það þegar Inga kom líka í heimsókn. Kiddý var einstök og ákveðin kona, hún lét mann heyra það ef hún var ekki sátt. Einn morguninn kom ég til hennar, þá var ég búinn að safna smáskeggi sem ég var svo stoltur af, því að framundan var mottumars. Ég býð góðan daginn, hún horfir á mig undrunaraugum og segir svo. Hva áttu ekki fyrir rakvélablöðum! Þar fór skeggstoltið á einu bretti. En skeggið fékk að halda sér út mars. Svona gátum við látið hvort við annað og haft gaman af. Kiddý mín, þín verður sárt saknað. En ég veit að þér líður vel með Adda þér við hlið. Guð blessi þig og Adda.

Jón Halldór Eiríksson.

Nú er komið að því að kveðja elsku ömmu Kiddý mína. Þetta er stund sem við höfum vitað að væri yfirvofandi, en það er samt sem áður aldrei hægt að búa sig undir það að kveðja. Amma mín var ein elskulegasta, besta og gjafmildasta kona sem ég veit um. Ég á ótalmargar minningar úr ömmu- og afahúsi, þar sem mér fannst einna best að vera. Þær eru ófáar stundirnar þar sem við amma sátum saman og spiluðum, púsluðum eða horfðum á myndbandsspólur. Mér fannst svo skemmtilegt hjá ömmu, enda fékk ég alltaf endalaust dekur. Reykjavíkurferðirnar okkar stóðu alltaf upp úr, en þá tókum við rútuna í Reykjavík, fórum og gáfum öndunum brauð hjá tjörninni, fengum okkur heitt kakó og auðvitað fórum við í dótabúðina þar sem ég fékk nýtt dót.

Þegar að ég varð eldri fannst mér alltaf jafn gott að koma í ömmu- og afahús. Þegar ég fór í framhaldsskóla fannst mér yndislegt að koma alltaf til ömmu og afa í hádeginu á fimmtudögum og fá dýrindis kjúkling, lambalærissneiðar eða annan mat og svo súkkulaði í eftirrétt. Þau tóku alltaf svo vel á móti mér, með brosi á vör og stóru knúsi. Amma var alltaf svo ánægð og hamingjusöm þegar mér gekk vel í skólanum eða lífinu almennt og ég mun aldrei gleyma brosinu á henni þegar ég útskrifaðist sem stúdent frá FS, eða þegar ég komst inn í læknisfræðina. Sá stuðningur sem amma hefur sýnt mér í gegnum lífið er ómetanlegur.

Ég trúi því heitt og innilega að elskulega amma mín sé komin til Adda afa á betri stað. Ef ég þekki hana rétt liggur hún í sólinni, þar sem hún vildi vera, eða er með kaffibolla í hönd. Amma talaði oft um að hún hafi fæðst á vitlausum stað á jörðinni því að henni fannst svo gott að vera í heitum sólarlöndum. Ég á eftir að sakna ömmu Kiddý minnar, sem sýndi mér alltaf svo mikla þolinmæði, ást og hlýju. Ég held fast í þær ótalmörgu og yndislegu minningar sem ég á með henni. Hvíldu í friði, elsku engill.

Þín,

Andrea Björg.

Þær eru margar minningarnar sem ég hef um hana ömmu Kiddý mína, allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman, allt spjallið, allt dekrið, já og bara allt sem við gerðum þegar ég var í heimsókn hjá henni. Einu sinni á ári bauð amma Kiddý mér í árlegu menningarferðina okkar í Reykjavík og eru þetta langbestu Reykjavíkurferðirnar mínar. Við byrjuðum alltaf á því að fara niður í miðbæ að gefa öndunum brauð, það fannst okkur rosalega gaman. Svo enduðum við í Kringlunni þar sem hún amma mín dekraði helling við mig og síðan kom Addi afi að sækja okkur og alla pokana sem við vorum búnar að fylla af allskonar fatnaði og dóti í ferðinni góðu. Þessar ferðir eru mér ómetanlegar, því þarna áttum við svo yndislegar stundir saman, það er ekki bara brauðið sem við gáfum öndunum, eða það sem við keyptum, heldur þessi dásamlega samvera sem hún gaf mér.

Við gátum setið tímunum saman og hlustað hvor á aðra tala um lífið og tilveruna, amma var endalaust tilbúin að segja mér til og gefa góð ráð.

Ég gleymi því aldrei þegar ég var veik og fékk að fara heim til ömmu í ömmudekur og í staðinn fyrir að ég mundi hvíla mig til að láta mér batna þá ákvað hún að kenna mér að grípa bolta, það var rosalega skemmtilegt, allavega þegar ég var búin að læra að grípa boltann. Hún kenndi mér líka allskonar spil og við gátum setið endalaust bara við að spila eða leika með töluboxið hennar eða skoða skartgripina, amma hafði endalausa þolinmæði og gaf mér allan þann tíma sem mig vantaði. Það er skrítið að hugsa til þess að núna er þessi tími búinn, en ég hugsa um allar góðu stundirnar og um allt sem amma kenndi mér og ætla að nota það út í lífið. Ég veit að núna er amma komin til afa og hann hefur tekið vel á móti henni. Elsku amma Kiddý, takk fyrir allt.

Þín

Guðrún Eir.

Elsku amma mín, takk fyrir allt sem við áttum saman. Minningarnar eru æðislegar og ég myndi gera allt til að upplifa þær aftur og allt sem ég geri í framtíðinni, reyni ég að gera þannig að þú verðir stolt af. Ég mun aldrei gleyma því sem við upplifðum saman og þú verður alltaf í hjartanu mínu.

Ég man öll skiptin sem við löbbuðum í bókabúðina og ég fékk alltaf að velja mér bók eða mynd. Og þegar ég kom í heimsókn settumst við á gólfið og lékum okkur við seglana, púsluðum strumpapúslið eða teiknuðum. Það er mjög góð minning þegar ég kom með teikniblokk til þín og þú kenndir mér að teikna hús, umhverfi og göngustíg að húsinu, eftir þetta sat ég og teiknaði sömu myndina á næstum allar blaðsíðurnar.

Ég man líka þegar afi keyrði okkur í Hagkaup að kaupa dót eða bíómynd og þegar við sátum við borðið og sögðum hvoru öðru sögu og kenndum hvoru öðru ný spil.

Allar þessar minningar munu alltaf lifa með mér, ég mun aldrei gleyma þér, elsku amma mín. Þín verður sárt saknað.

Þinn

Halldór Már.