Stjórnvöld í Rússlandi ætla að eyða allt að 13 milljónum rúblna, jafnvirði tæpra 25 milljóna, í ár í það verkefni að varðveita lík kommúnistaleiðtogans Vladimírs Leníns.

Stjórnvöld í Rússlandi ætla að eyða allt að 13 milljónum rúblna, jafnvirði tæpra 25 milljóna, í ár í það verkefni að varðveita lík kommúnistaleiðtogans Vladimírs Leníns. Markmiðið er að halda líkinu í sem „raunverulegustu ástandi“ en það hefur verið til sýnis í grafhýsi á Rauða torginu í Moskvu frá árinu 1924.

Eftir fall Sovétríkjanna hafa margir Rússar hvatt til þess að Lenín verði grafinn. Í netkönnun sem 8.000 Rússar tóku þátt í voru 62% þeirrar skoðunar að jarða ætti Lenín en stjórnvöld hafa ítrekað hafnað því.

Fregnir af kostnaðinum sem hlýst af því að varðveita lík Leníns hafa ekki farið vel í notendur samfélagsmiðla á Rússlandi. Sumir gagnrýna það harðlega að öllum þessum peningum sé eytt í það að „sýna múmíu“ á meðan aðrir hafa lagt áherslu á að Lenín sjálfur hefði verið á móti þessu, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.