Slydda Ekki er vanþörf á að eiga góðan regnstakk á vorin.
Slydda Ekki er vanþörf á að eiga góðan regnstakk á vorin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Stutt er síðan Helga Sverrisdóttir keypti rekstur Ellingsen-búðanna, í félagi við eiginmann sinn. Eru þau hjónin mikið útivistarfólk og segir hún að fjölskyldan sé dugleg að fara í göngur saman og á skíði.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Stutt er síðan Helga Sverrisdóttir keypti rekstur Ellingsen-búðanna, í félagi við eiginmann sinn. Eru þau hjónin mikið útivistarfólk og segir hún að fjölskyldan sé dugleg að fara í göngur saman og á skíði. „Þetta er áhugamál sem allir fjölskyldumeðlimir geta stundað í sameiningu. Við eigum fjögur börn sem öll hafa alist upp við það að fara með okkur í göngur upp á fjöll og um fallegar leiðir á hálendinu, og ekki hægt að finna betra tækifæri til að spjalla við börnin og búa til með þeim ánægjulegar minningar.“

Með nýjum eigendum koma nýjar áherslur og segir Helga stefnt að því að gera vörum til alhliða útivistar hærra undir höfði. „Við látum öðrum eftir að sérhæfa sig t.d. á sviði skotveiði og stangveiði, og drögum saman á þeim sviðum. Eins og alltaf er áherslan lögð á góðar vörur á góðu verði, bæði fyrir þá sem stunda útivistina af mikilli alvöru og líka fyrir hina sem vilja bara eignast vandaða skó og þægilegan fatnað til að geta átt góðan göngutúr úti í náttúrunni, taka stefnuna á golfvöllinn eða skjótast út með hundinn.“

Pollagalla- og hjólatíminn

Helga segir að á vorin glæðist salan á regn- og vindfatnaði. „Þetta er sá tími sem að útigallarnir fara inn í skáp og regngallarnir og stígvélin eru tekin fram. Fjölskyldufólk fjölmennir í verslunina á þessum árstíma í leit að regnfatnaði bæði fyrir börnin og fyrir þá fullorðnu, og eru vindjakkar og léttari útivistarfatnaður að taka við af vetrarflíkunum.“

Vorið er líka orðið líflegur tími í reiðhjóladeildinni. „Við seljum reiðhjól frá Merida sem eru þýsk hönnun og afar vinsæl. Mikil breidd er í hjólunum frá Merida, allt frá þríhjólum fyrir þau yngstu yfir í fínustu keppnishjól. Einnig seljum við allan mögulegan aukabúnað og hjólreiðafatnað. Kaupendur eru mjög ánægðir með gæði hjólanna og verð og vonandi munu margir taka vel í samstarfsverkefni Ellingsen og Barnaheilla. Þar bjóðum við fólki 10.000 króna afslátt af nýju hjóli í skiptum fyrir það gamla, sem við svo gerum upp og gefum í hjólasöfnun Barnaheilla sem síðan kemur hjólinu í hendur barna á heimilum þar sem peningarnir eru af skornum skammti,“ útskýrir Helga og bætir við að samfélagsleg ábyrgð sé í fyrirrúmi hjá Ellingsen. „Þetta birtist með ýmsum hætti, og var t.d. mjög ánægjulegt að geta, í samstarfi við birgjana okkar, gefið flóttafólkinu sem kom til Íslands í vetur ný útiföt.“

Útivistin hluti af lífsstílnum

Ekki ætti að hafa farið fram hjá neinum að mikil útivistar-bylgja hefur gengið yfir landið. Hafa Íslendingar uppgötvað það að nýju hversu ánægjulegt það er að upplifa einstaka náttúruna og arka um holt og hæðir í góðum félagsskap. Segir Helga að útivistaráhuginn virðist kominn til að vera. „Við sjáum þetta t.d. á vinnustöðunum þar sem algengt er að finna virka gönguhópa sem skipuleggja ferðir á viðráðanleg fjöll í næsta nágrenni. Hjálpar líka til að útbúnaður á borð við gönguskó er orðinn léttari og ódýrari en hann eitt sinn var, og alls ekki kostnaðarsamt að byrja að stunda útivist,“ segir hún. „Margir hafa líka áttað sig á að það er margt annað hægt að gera en að fara á Hornstrandir eða ganga Laugaveginn, og má fá heilmikið út úr því að einfaldlega reima á sig gönguskóna eftir vinnudaginn og ganga um fallega staði innanbæjar og í jaðri byggðarinnar. Er það miklu skemmtilegri dægradvöl á fallegu sumarkvöldi en að sitja uppi í sófanum heima.“

Breytingin sést kannski greinilegast á því að jafnvel þegar ferðast er út í heim vilja Íslendingar halda áfram að hreyfa sig. „Frekar en að flatmaga í sólinni vill fólk útlandaferðir þar sem er t.d. gengið á milli fallegra bæja í evrópskum sveitahéruðum, eða stefnan sett á skipulagða gönguferð eða hjólaferð með vinkonunum.“