[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rætt er við prentsmiðinn Júlíus Ásbjörnsson í þætti vikunnar af Fagfólkinu á mbl.is. Hann hefur nánast verið í prentsmiðju frá barnsaldri og er nú verksmiðjustjóri hjá Odda.

„Ég er búinn að vera í prentsmiðju frá því að ég var þriggja ára,“ segir Júlíus Ásbjörnsson, prentsmiður og deildarstjóri plastframleiðslu hjá Odda. Faðir hans, Ásbjörn Sveinbjörnsson, starfar einnig hjá fyrirtækinu og hefur gert lengi en starfaði á þessum árum hjá Prentsmiðju Árna Valdimarssonar þar sem Júlíus fékk sín fyrstu kynni af starfinu. Hann rifjar það upp að það skemmtilegasta sem hann gerði ellefu ára gamall var að heimsækja föður sinn í prentsmiðjuna, þar sem hann fékk að valsa um og gera það sem hann vildi að eigin sögn.

Plastframleiðsla Odda fer fram í gömlu verksmiðju Plastprents að Fosshálsi, sem fyrirtækið keypti fyrir þremur og hálfu ári. Þar er m.a. búið til plast frá grunni sem krefst öflugs tækjabúnaðar, en viðhald og endurnýjun á tækjabúnaði er á meðal þess sem Júlíus ber ábyrgð á.

Endurvinnsla á plasti er eitt af því sem nútímaframleiðsluhættir kalla á og á Fosshálsi er hægt að endurvinna allt plast sem fellur til í framleiðslunni. Úr öllu sem er gallað, ásamt umbúðum utan af vörum og fleiru, er hægt að búa til nýtt plast. Júlíus segir að mörg fyrirtæki séu áhugasöm um þennan möguleika og hægt sé að endurvinna mikið. Til að stíga skrefið til fulls þyrfti þó hreinsistöð og þá væri hægt að endurvinna mun meira magn af plasti sem hann vonast til að verði einhverntíma í framtíðinni.

Beint í veiði eftir vinnu

„Það er náttúrlega ekkert betra eftir erfiðan eða krefjandi vinnudag en að fara heim og gera gott nesti og renna á Þingvelli. Maður er endurnærður eftir klukkutíma,“ segir Júlíus sem veit fátt betra en að fara með strákana sína í veiði. Hann segir það ekki skipta öllu hvert sé farið, nóg sé af frábærum stöðum í nánd við borgina þar sem hægt er að hlaða batteríin í náttúrunni.

Veiðina segir hann alltaf skipta miklu máli en þó sleppi hann alltaf töluverðu af þeim fiski sem bítur á. Það sé þó töluvert snúnara eftir að hann fór að taka strákana sína með í veiðiferðirnar þar sem metnaðurinn sé mikill fyrir því að ná í góðan fisk. „Ég leyfi þeim að taka laxa og við grillum þá daginn eftir.“ Hann leggur þó áherslu á að ekkert fái að fara til spillis. „Þeir komast ekki upp með það að drepa fisk og nýta hann ekki í neitt.“ Mikilvægast sé að þarna verði til ómetanlegar minningar með fjölskyldunni.

Sjö áratuga saga

Oddi er rótgróið fyrirtæki sem hefur verið á íslenskum prentmarkaði frá árinu 1943 þegar það hóf störf í Ásmundarsal á Freyjugötu, en fyrsta prentverkið sem fyrirtækið skilaði af sér var þriggja binda útgáfa af Fornaldarsögum Norðurlanda. Árið 1981 flutti fyritækið upp í Höfðabakka eftir að hafa þróast um áratugaskeið og meðtekið þær tækninýjungar sem höfðu komið á markað með reglulegu millibili. Á undanförnum árum hefur prentsmiðjureksturinn verið sameinaður við Gutenberg og umbúðavinnsla Kassagerðarinnar fluttist inn í fyrirtækið ásamt því að starfsemi Plastprents var keypt í lok árs 2012. Nú starfa u.þ.b. 300 starfsmenn hjá fyrirtækinu við fjölbreytta starfsemi.