Rithöfundurinn Áslaug áritar bók sína, Mínímalískur lífsstíll.
Rithöfundurinn Áslaug áritar bók sína, Mínímalískur lífsstíll. — Morgunblaðið/Golli
Áslaug Guðrúnardóttir, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, tók við starfi kynningarstjóra Listasafns Reykjavíkur um miðjan janúar. „Þetta er skemmtilegt starf, fjölbreytt og krefjandi.

Áslaug Guðrúnardóttir, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, tók við starfi kynningarstjóra Listasafns Reykjavíkur um miðjan janúar. „Þetta er skemmtilegt starf, fjölbreytt og krefjandi. Nú erum við að leggja lokahönd á sýningu í Ásmundarsafni sem verður opnuð á laugardag og ég er að ganga frá plakati og sýningarskrá og er að skrifa fréttatilkynningar til fjölmiðla og allt sem því fylgir. Á sýningunni, sem heitir Uppbrot, rýnir Elín Hansdóttir í verk Ásmundar Sveinssonar og verða verk þeirra beggja til sýnis.

Á Kjarvalsstöðum er Kjarvalssýning í báðum sölunum og stendur hún fram í ágúst og í Hafnarhúsi er verið að undirbúa útskriftarsýningu Listaháskólans sem verður opnuð um aðra helgi, 23. apríl. Þetta eru 80 nemendur og sýningin heitir Ytri höfnin.“

Áslaug gaf út bók í byrjun árs sem heitir Mínímalískur lífsstíll.

„Það hefur verið mikið um að vera í kringum bókina og kannski frekar bratt að senda frá sér bók og byrja í nýrri vinnu um leið, en þetta er allt að jafna sig. Ég er að fara að lesa upp úr henni í Bókasafni Reykjanesbæjar fljótlega og gaman að því að hún virðist ganga mjög vel. Ég hef verið að taka við heillaóskum frá ókunnugu fólki í sundi og víðar og það eru margir sem vilja ræða þessi mál við mig.“

Eiginmaður Áslaugar er Runólfur Ágústsson ráðgjafi. „Hann er að byggja hraðlest til Keflavíkur, það er stærsta verkefnið hans núna.“ Þau Runólfur eiga samtals sex börn, synir hans eru Skarphéðinn Án, Stefán Bjartur og Eyvindur Ágúst og dætur Áslaugar eru Emilía Ósk og Lana Sóley og saman eiga þau Sigrúnu Erlu sem er 16 mánaða.