Fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson er ákveðinn í að byggja ofan á þann árangur sem Tindastólsmenn hafa náð undanfarin tvö ár.
Fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson er ákveðinn í að byggja ofan á þann árangur sem Tindastólsmenn hafa náð undanfarin tvö ár. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tindastóll Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Það þýðir ekkert að gefast upp og leggja árar í bát núna.

Tindastóll

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Það þýðir ekkert að gefast upp og leggja árar í bát núna. Það þarf bara að fá fleiri menn og byggja á þessum kjarna sem við erum, og vinnan við það er eflaust að fara í gang,“ sagði Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði körfuboltaliðs Tindastóls, þegar Morgunblaðið tók hann tali í Síkinu í fyrrakvöld. Þá voru örlög Tindastólsmanna þennan veturinn ráðin. Liðið ætlaði sér að gera enn betur en á síðustu leiktíð, þegar það tapaði fyrir KR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn, og fagna þeim stóra í fyrsta sinn í sögu félagsins. Af því varð ekki, eftir mikla rússíbanareið þar sem félagið skipti meðal annars út finnskum þjálfara fyrir spænskan snemma leiktíðar, og losaði sig við tvo bandaríska leikmenn á seinni hluta leiktíðar.

Óljóst er hvað tekur við, og hvort Tindastóll getur áfram á næstu leiktíð gert atlögu að titlinum, eins og efni hafa svo sannarlega staðið til á tveimur síðustu leiktíðum, eftir að liðið kom aftur upp úr 1. deildinni.

Ætluðum alla leið í vetur

„Við ætluðum okkur alla leið í vetur, en verðum bara að lifa með þessu, að hafa tapað fyrir frábæru Haukaliði. Þeir spiluðu frábærlega, og reyndar spiluðu bæði lið mjög vel í þessari seríu og þetta vannst á einhverjum smáatriðum í öllum leikjum, en svona er þetta bara,“ sagði Helgi Rafn, en Stólarnir töpuðu undanúrslitaeinvígi sínu við Hauka 3:1. Helgi verður 33 ára gamall þegar næsta leiktíð hefst. Nafni hans, Helgi Freyr Margeirsson, er 34 ára, Svavar Atli Birgisson verður 36 ára í sumar, og Darrel Lewis er orðinn fertugur. Yngri leikmennirnir í liðinu, eins og leikstjórnandinn Pétur Rúnar Birgisson og jafnaldri hans, Viðar Ágústsson, eru svo tvítugir en búnir að sanna sig vel í úrvalsdeild.

„Þeir verða bara betri á næsta ári og maður yngist bara sjálfur á að spila með þessum guttum,“ sagði Helgi Rafn, og lætur engan bilbug á sér finna, þó að blaðamaður geri sem mest úr því að í ár hafi verið „stóra tækifærið“ fyrir Tindastól til að landa Íslandsmeistaratitlinum, áður en að „gömlu“ mennirnir í liðinu verði of gamlir og þeir ungu yfirgefi hugsanlega svæðið.

„Það væri mjög gaman að gera það [landa Íslandsmeistaratitlinum áður en ferlinum lýkur] og hefði verið mjög skemmtilegt þetta árið, en það kemur annar vetur eftir þennan,“ sagði Helgi Rafn.

Þessum orðum er erfitt að neita, en ljóst er að stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls mun nú þurfa að vinna vel úr leikmannamálum. Það hefur reynst þrautin þyngri síðustu ár að fá íslenska leikmenn af höfuðborgarsvæðinu til að spila á Króknum, og með reglunni um að aðeins megi nota einn bandarískan leikmann er staða Tindastóls erfiðari en ella.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er allt eins líklegt að Pétur Rúnar og Viðar hverfi á brott í sumar, annað hvort á höfuðborgarsvæðið eða út fyrir landsteinana, nú þegar þeir eru að ljúka menntaskólanámi. Mikilvægi Péturs í vetur er óumdeilt en leikstjórnandinn ungi hefur leikið frábærlega á tímabilinu og skoraði í deildinni 10,6 stig að meðaltali, átti 5,2 stoðsendingar og tók 4 fráköst.

Elska Tindastól og fólkið hér

Dýrmætast hefur þó verið fyrir Stólana, eftir að þeir komu aftur upp úr 1. deild fyrir tveimur árum, að hafa Darrel Lewis í sínum röðum. Hann er ekki skilgreindur sem útlendingur, enda haft íslenskan ríkisborgararétt í meira en áratug, en hefur verið meðal bestu leikmanna deildarinnar og drifið liðsfélagana með sér. Hann skoraði 19,5 stig að meðaltali í deildinni í vetur. Lewis hefur ákveðið að taka eitt lokatímabil hér á landi og Sauðkrækingar hljóta að róa að því öllum árum að það geri Lewis í Tindastóls-búningnum líkt og síðustu tvö ár:

„Ég hef ekki gert upp hug minn en ég elska Tindastól, félagið og fólkið sem hefur verið svo gott við mig. Núna þarf ég bara að fara heim, slaka á og taka vel ígrundaða ákvörðun, bætti Lewis við, og hann segist ekki finna mikið fyrir því í skrokknum að hafa spilað heilt tímabil, 39 og 40 ára:

Ekki aldur heldur ástand

„Þetta snýst ekki um að vera fertugur, menn verða bara að halda sér í góðu ástandi. Ég hef alltaf sagt að maður geti spilað eins lengi og maður vill. Þessi vetur hefur verið eins og hver annar fyrir mig persónulega. Liðið hefur aftur á móti verið í rússíbanareið, með allar þessar breytingar sem hafa verið gerðar á tímabilinu. Við börðumst af hörku fyrir því að komast á sama stað og í fyrra, en rétt misstum af því þó að við höfum lært margt. Þetta var sárt,“ sagði Lewis.

Eins virðist óvíst um framtíð spænska þjálfarans José Costa, sem tók við Tindastóli í nóvember eftir erfiða byrjun tímabilsins undir stjórn Finnans Pieti Poikola en þau mál sem og leikmannamál ættu að skýrast betur á næstu vikum.