Erindi Kevin Larimers, aðalritstjóri Poets & Writers, flytur erindi í dag.
Erindi Kevin Larimers, aðalritstjóri Poets & Writers, flytur erindi í dag.
Rithöfundabúðirnar Iceland Writers Retreat hófust í gær í Reykjavík og standa til 17. apríl.

Rithöfundabúðirnar Iceland Writers Retreat hófust í gær í Reykjavík og standa til 17. apríl. Í búðunum kemur saman fólk frá öllum heimshornum, tekur þátt í ritsmiðjum með alþjóðlegum höfundum, hittir íslenska rithöfunda og kynnist íslenskum bókmenntum, menningu og náttúru. Í ár eru þátttakendur yfir hundrað og leiðbeinendurnir eru tíu frá sex löndum.

Í dag kl. 12-13 flytur Kevin Larimers, aðalritstjóri Poets & Writers, hádegiserindi í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101, sem nefnist „Leiðin að útgáfu“. Poets & Writers eru stærstu samtök Bandaríkjanna af þeim sem ekki eru rekin í ágóðaskyni og þjónusta ljóðskáld og aðra höfunda bókmenntatexta. Larimers mun spjalla um ýmsar brautir sem höfundar geta fetað á leið sinni að útgáfu bókmenntatexta, svo sem með birtingu í bókmenntatímaritum og þátttöku í ritlistarsamkeppnum. Hann mun einnig ræða um álagið sem fylgir þessu ferli og því að koma sér á framfæri og stuðninginn sem finna má í ritlistarsamfélögum, svo sem ritlistarnámi, ritsmiðjum og öðrum bókmenntasamfélögum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Í Hafnarhúsi kl. 17.30-19 fer svo fram kanadísk bókmenntadagskrá og gefst bókmenntaáhugafólki þar tækifæri til að kynnast fjölbreyttri flóru kanadískra bókmennta. Fimm kanadískir höfundar taka þátt í dagskránni en þeir skrifa ljóð, skáldsögur og bækur af ýmsu tagi og hafa margir hlotið virt verðlaun í heimalandinu. Heiðursgestir samkomunnar eru Helen Humphreys og Joseph Kertes. Humphreys er ljóðskáld og skáldsagnahöfundur og hefur skrifað skáldleg rit um sannsöguleg efni. Kertes er af ungverskum ættum en uppalinn í Kanada og verk hans þykja spaugileg. Hann hefur bæði sent frá sér skáldverk fyrir fullorðna og börn og er stofnandi háskóladeildar sem sameinar ritlist og uppistand eða framkomu og hefur hann hlotið verðlaun fyrir kennslu og nýsköpun. Með þeim verða samlandar þeirra sem leiðbeina á Iceland Writers Retreat í ár, þau Vincent Lam, Miriam Toews og Andrew Westoll. Hver höfundur mun lesa örstutt úr nýjasta verki sínu og síðan verða pallborðsumræður.