Ráðstefna Euromoney fór fram á Waldorf Hilton-hótelinu í Lundúnum.
Ráðstefna Euromoney fór fram á Waldorf Hilton-hótelinu í Lundúnum. — Ljósmynd/Kvika/Birt með leyfi
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjármálaráðherra, bankastjóri Íslandsbanka og forstjóri Kviku voru meðal þátttakenda á ráðstefnu Euromoney um Ísland. Þau segja efnahagsbatann vekja athygli.

„Það sem við njótum góðs af í augnablikinu er samanburðurinn við aðra valkosti og um leið að okkur er að verða ágengt í að rétta efnahagslífið við. Fjármagnshöftin leika þar stórt hlutverk og sú trúverðuga áætlun sem við erum að fylgja eftir og stórbætt staða opinberra fjármála,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem flutti erindi á ráðstefnu um efnahagsmál á Íslandi sem fjármálatímaritið Euromoney hélt í London á þriðjudaginn.

Bjarni sagði hafa verið „gott andrúmsloft gagnvart stöðunni á Íslandi“. „Það voru góðar undirtektir við þeim erindum sem flutt voru.“

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, var meðal ræðumanna. „Mér fannst ráðstefnan ganga vel. Ég held að tímasetningin á henni, eftir á að hyggja, hafi verið ágæt. Mín upplifun var sú að það sé áhugi á Íslandi. Eftir því hefur verið tekið hvernig okkur hefur gengið í uppbyggingu.“

Ásamt Bjarna fluttu Robert Parker, yfirráðgjafi hjá Credit Suisse, og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri ávörp.

Vel haldið á skipulagningunni

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku banka, tók einnig þátt í pallborðsumræðum. Hann sagði erlendum gestum hafa þótt til þess koma hvernig Íslendingar hafa endurreist hagkerfið eftir efnahagshrunið og staðið að afnámi hafta. Það komi fram í auknum áhuga á að fjárfesta á Íslandi. „Þetta var vel sótt ráðstefna og vel að henni staðið. Það var mannval í áheyrendahópnum. Það var greinilega sótt eftir því að áheyrendur væru aðilar sem eru að fjárfesta á Íslandi og fjármagna verkefni þar,“ sagði Sigurður Atli.