[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús fæddist í Reykjavík 14.4. 1966 en dvaldi með fjölskyldunni fyrstu tvö sumrin að Ytra-Skörðugili í Skagafirði þar sem faðir hans var bóndi á sumrin: „Ég ólst svo upp á Skólabraut á Seltjarnarnesi sem þá var efsta gatan við Valhúsahæðina.

Magnús fæddist í Reykjavík 14.4. 1966 en dvaldi með fjölskyldunni fyrstu tvö sumrin að Ytra-Skörðugili í Skagafirði þar sem faðir hans var bóndi á sumrin: „Ég ólst svo upp á Skólabraut á Seltjarnarnesi sem þá var efsta gatan við Valhúsahæðina. Það var spennandi leiksvæði með víðsýni til allra átta, byrgi úr seinni heimsstyrjöldinni, trönum og ýmsum öðrum leiktækjum. Þarna voru háðir blóðugir bardagar milli gatna, sem enduðu með því að kveikt var í sinu svo Holtið logaði enda á milli en Ingimundur lögregluþjónn slökkti bálið.

Öll sumur fram að 13 ára aldri var ég með foreldrum mínum og ömmum á Sólheimum í Landbroti. Þar reistu Kristjana amma og Magnús afi nýbýli 1934, sem hefur verið í eigu fjölskyldunnar síðan og er nú í umsjá okkar systkinanna.

Sólheimar eru dýrðarstaður eftir áratuga skógrækt föður míns og stórkostlegt útsýni til Öræfajökuls í austri og Mýrdalsjökuls í vestri. Þar er tímanum eytt í matjurtarækt, slökun og aðra nytsama iðju.“

Magnús æfði handbolta með Gróttu og fótbolta með Val, en knattspyrnuferlinum lauk í utandeildinni með Hvatberum.

Frá 13 ára aldri var Magnús á sumrin í bæjarvinnu hjá Seltjarnarnesbæ, fiskvinnslu í Ísbirninum, við lagerstörf hjá Sól hf, í byggingarvinnu, vann í Járnsteypunni hf og í miðasölunni á þeim sögufræga stað Villta Tryllta Villa.

Magnús gekk í Mýrarhúsakóla og Valhúsaskóla, lauk stúdentsprófi frá MR 1986 og útskrifaðist sem tannlæknir frá HÍ 1992. Hann var aðstoðartannlæknir á Egilsstöðum sumarið 1991 og síðan tannlæknir á Reyðarfirði og í Reykjavík í þrjú ár. Þá hélt fjölskyldan til Stokkhólms þar sem Magnús sinnti rannsóknum við tannholdsfræðideild Tannlæknadeildar Karolinska Institut 1995-96. Hann stundaði doktorsnám við Afdeling for Parodontologi í Tannlæknadeild Kaupmannahafnarháskóla og varði doktorsritgerð sína þar í tannholdsfræðum árið 2001.

Magnús var síðan tannlæknir í Reykjavík, stofnaði ásamt félögum sínum tannlæknastofuna Valhöll, árið 2006, þar sem hann starfar enn. Árið 2015 varð hann lektor við HÍ.

Magnús sat í stjórn Félags tannlæknanema 1990-91, í stjórn Tannlæknafélags Íslands 2005-2007, situr í ritstjórn Tannlæknablaðsins og í stjórn Lærdómsfélags ITI.

Magnús skreppir í fluguveiði á hverju sumri með Rögnu konu sinni og góðum vinum, ræktar ættaróðalið á Sólheimum og er sílesandi. Hann er áhugamaður um á mat og matreiðslu en íþróttaiðkanir síðustu ára einskorðast við hlaupahópinn Árbæjarskokk. Með þeim hópi hefur hann hlaupið nokkur maraþon víða um heim og Laugavegshlaup.

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Ragna Árnadóttir, f. 30.8. 1966, lögrfæðingur, LLM, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrv. ráðherra.

Foreldrar hennar eru Árni Björn Jónasson, f. 19.7. 1946, verkfræðingur, og Guðrún Ragnarsdóttir, f. 27.9. 1947, menntaskólakennari.

Dætur Magnúsar og Rögnu eru Brynhildur, f. 26.10. 1993, nemi við HÍ, og Agnes Guðrún, f. 8.9. 2000, nemi í Hagaskóla.

Systir Magnúsar er Heiður Agnes Björnsdóttir, f. 30.4. 1962, viðskiptafræðingur, markaðsstjóri og meistaranemi, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Magnúsar: Björn Jóhannes Jónsson, f. 3.7. 1932, d. 3.2. 2010, cand mag, skólastjóri Hagaskóla og þýðandi, og Guðrún Sigríður Magnúsdóttir, f. 8.2. 1934, d. 14.8. 2005, cand.mag. og sérfræðingur við Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins.